Á dökkumiðum – Samsýning í Port Verkefnarými

óreiða

Dimmt er á dökkumiðum,

djúpur og úfinn sær,

og sumir segja, að karlinn,

sem þangað rær,

sé með horn og hala

og hófa – og jafnvel klær.

Davíð Stefánsson

 

Laugardaginn 14. maí síðastliðinn opnaði samsýning listamanna í Port Verkefnarými á Laugavegi 23b . Á dökkumiðum/ Murky Waters stóð til 26. maí. Þorvaldur Jónsson (f. 1984), Matthías Rúnar Sigurðsson (f. 1988), Fritz Hendrik Berndsen (f. 1993), Arngrímur Sigurðsson (f. 1988) og Þórarinn Ingi Jónsson (f. 1982).

Heild

Séð yfir sýninguna

Í bakhúsi við Laugaveg var sammannlegt minni okkar kannað og hægt var að skyggnast inn í undirmeðvitund fimm listamanna. Eitthvað sem við höfum aldrei séð en munum samt eftir í gegnum kynslóðir af forfeðrum og -mæðrum. Dulúð, hjátrú, goðsögn og fantasía. Myndefni dregið og höggið úr dökkumiðum huga okkar. Port var baðað sólarljósi á skjön við skuggalegan titil sýningarinnar. Sýningarrýmið var umbúðalaust og einfalt. Listin fékk að njóta sín í dagsbirtunni.

Stór, svört og hvít teikning eftir Þorvald Jónsson, Án titils, er af beinagrind í skykkju á jörðinni, umkringd blómum og virðist biðja. Verkið er í sjálfu sér mótsögn, beinagrind í blóma lífsins. Í grunnskóla var alltaf einhver sem teiknaði betur en maður sjálfur og þetta er akkúrat eitt slíkt dæmi. Vönduð teikning full af smáatriðum til að dást að og hugsa ,,af hverju teikna ég ekki svona vel?.”

Beinagrind2

Matthías Rúnar Sigurðsson sýndi fjórar höggmyndir úr íslensku grágrýti. Þær eru hreint út sagt ótrúlegar. Að ungur listamaður í dag sé að höggva flóknar myndir, líkneski og hálfgerðar ufsagrýlur í stein er einstaklega aðdáunarvert. Verkin eru ný en á sama tíma ævaforn. Hjálparhella birtist okkur sem rólegur vitringur og var stærsta höggmyndin á þessari sýningu. Andstæða hjálparhellunnar, Óreiða, er kolsvört og heldur fast í kjaft á snák. Óreiða er ógnandi yfirvald og hjálparhellan er andlegur leiðtogi. Tveir minni skúlptúrar, Fluga og Hauskúpa, eru ekki síðri. Sjón er sögu ríkari. Bravó.

óreiða

Óreiða

fluga

Fluga

Unchained Melody er ekki bara frábært lag með Righteous Brothers heldur, eins og lagið, skringilega sorglegt olíumálverk eftir Fritz Hendrik Berndsen. Búið er að rífa vél úr jeppa og hún hangir, full uppgjafar, í rauðum fjötrum yfir húddinu. Án vélarinnar gengur bifreiðin ekki og allt er vonlaust. Getur Range Rover verið í ástarsorg? Greinilega.

Arngrímur Sigurðsson sýndi fjögur olíumálverk af hulduverum en hann gaf út Duldýrasafnið árið 2014. Dvergur sem á vantar einn fingur liggur á dánarbeði sínu íklæddur blúndu sem amma mín væri stolt af. Stærðarinnar kattardýr, Urðarkötturinn, gæðir sér á manneskju í bakgarði í Reykjavík. Hárfögur, græn eðla, Skeljaskrímslið, skríður upp úr kassa í höfninni og er tilbúin að valda usla í borginni. Yfir þessu öllu saman vakir bláleitur draugur, Móri. Sagnir okkar um duldýrin eiga djúpar rætur í hjátrúfullri þjóðarsál Íslendinga. Hér hafa dulverur verið settar í samhengi við nútímann, eins og þær gætu vel leynst í bakhúsi við Laugaveginn.

Þórarinn Ingi Jónsson bauð upp á trúarlega upplifun. Snotur, opnanleg altaristafla úr timbri með gotneskum boga hangir milli tveggja gylltra málmþynna. Inni í töflunni er rún, kross eða galdrastafur. Málmþynnurnar eru líka með mynstri og rúnum. Þetta minnti á rússnesk íkon og klaustur. Mannfólkið gefur trúarbrögðum og heilögum munum gildi. Ætli það virki ekki alveg jafnvel að biðja við þetta altari eins og hvað annað. Vægi verksins verður mikið vegna þess að það er þekkjanlegt. Þetta er einskonar and-lágmynd sem gefur aldagömlum hefðum langt nef.

beinagrind

Á dökkumiðum stóð ég ekki lengur á GoreTex-mettuðum Laugaveginum heldur fór ég í leiðsögn um ríkulegt hugmyndaflug listamanna.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone