Á ég að segja þér leyndarmál? – Mamma klikk eftir Gunnar Helgason

MammaKlikk

Viltu heyra leyndarmál? Þetta er gott leyndarmál, leyndarmál sem kætir og bætir og er nánast algjört einsdæmi í íslenskri barnabókmenntasögu. Viltu heyra það? Þá verður þú að lesa Mömmu klikk eftir Gunnar Helgason. Í henni er nefnilega leyndarmál sem lesendur eru beðnir um að spilla ekki fyrir þeim sem ekki hafa lesið bókina. Ég ætla að virða þessa beiðni og skal engu spilla en lofa því að þeir sem lesa bókina verða í engu sviknir.

Bókin fjallar um Stellu, tólf ára og samband hennar við mömmu sína. Mamma hennar hefur alltaf verið besta mamma í heimi en er allt í einu farin að breytast og ekki til hins betra, að dómi Stellu. Sagan fjallar um áætlanir Stellu til að breyta mömmu sinni en um leið er fjallað um samband hennar við bræður hennar, vinkonur og besta vininn Blæ. Frásögnin er þess vegna á yfirborðinu fremur dæmigerð unglingasaga. Unglingsstúlka fyrirverður sig fyrir hvað mamma hennar er hallærisleg og vinnur úr því þegar frásögninni vindur fram. Þó skautar höfundur fimlega fram hjá því að gera bókina að einni rödd í kór unglingabóka um sama efni og tekst að gera hana frumlega, fyndna og alveg stórkostlega skemmtilega.

 

Kusk í augað á stöku stað

Sögumannsröddin er sannfærandi og rödd unglingsstúlkunnar alveg hnökralaus. Stella þarf að kljást við ýmis vandamál tengd vinahópnum, fjölskyldunni og jafnvel nágrannanum. Þetta eru fremur klassísk vandamál, en með hjálp Mömmu klikk, Palla bróður sem alltaf vill vera ber að ofan, Sigga litlabróður og Ömmu snobb tekst Stellu að ráða fram úr þessu öllu saman á meðan lesandinn stynur af samúð, engist af hlátri og fær jafnvel kusk í augað á stöku stað.

Gunnar Helgason

Gunnar Helgason

Aukapersónur bókarinnar eru vel skrifaðar og skemmtilegar. Ég var sérstaklega hrifin af Palla stórabróður og Hanna granna. Ég tengdi þó sérstaklega vel við hina klikkuðu mömmu, kannski af því að í vinahópi unglingsins míns er ég þekkt sem „fyndna mamman“. Lesandinn fær góða og fallega mynd af umhverfi Stellu og fólkinu í nágrenninu og fær að upplifa bæði sigra og vonbrigði. Uppbygging bókarinnar er þétt og flott, lesandinn fær vísbendingar um leyndarmálið hér og þar en ofan af því er ekki flett fyrr en í bókarlok. Ekki má gleyma að nefna hinar stórskemmtilegu myndskreytingar Ránar Flygenring. Þegar ég sá mynd af kápunni hélt ég raunar að bókin væri fyrir talsvert yngri börn en hún reyndist vera. Kápan er þó skemmtilega gamaldags, og myndirnar í köflunum flæða mjög vel með textanum.

 

Fyndni er kúnst

Ég er ekki ein þeirra sem hlæ oft upphátt þegar ég er að lesa. Ég brosi, ég hlæ innra með mér, ég finn til gleði en ég hlæ afskaplega sjaldan upphátt. Þegar ég las Mömmu klikk, hló ég svo oft og hátt að börnin mín reyndu að neyða mig til þess að láta hana af hendi. Ég harðneitaði. Gunnar Helgason hefur lag á því að setja sig í spor unglingsins af svo mikilli einlægni að það er ekki annað hægt en að hrífast með. Það er kúnst að skrifa fyndinn texta sem höfðar bæði til barna og fullorðinna en það heppnast svo sannarlega í þessari afbragðs bók. Ég er meira að segja ekki frá því að ég hafi færst svolítið nær barninu í sjálfri mér við þennan lestur.

Mamma klikk er stórkostleg barnabók, frábærlega vel skrifuð, skemmtileg, bráðfyndin og yndisleg. Hún er afbragðs tækifæri fyrir foreldra til þess að lesa fyrir börnin sín eða láta þau jafnvel lesa fyrir sig, því enginn ætti að missa af þessari bók, hvorki barn né fullorðinn. Ég óska Gunnari Helgasyni og Forlaginu innilega til hamingju með hana.

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone