Að gefa út Tunglbók er eins og taka pinnann úr handsprengju

Mynd: Kristín María Kristinsdóttir
Mynd: Kristín María Kristinsdóttir

Bókaforlagið Tunglið er áhugaverður afkimi í íslenskri bókaútgáfu. Tunglið hefur gefið út átta bækur sem aðeins hafa verið prentaðar í 69 eintökum hver og einungis verið fáanlegar á svokölluðum Tunglkvöldum sem eiga sér stað á fullu tungli. Að vísu hefur forlagið nýlega brugðið út af vananum og gefið út bók fyrir almennan markað, ljóðabókina Alzheimer-tilbrigðin eftir Hjört Marteinsson. Tunglbækurnar eru bæði eftir þekkta og óþekktari rithöfunda og sumir hafa jafnvel stigið sín fyrstu skref í samstarfi við Tunglið. Stofnendur forlagsins eru Dagur Hjartarson, Ragnar Helgi Ólafsson og Árni Þór Árnason. Ég hitti Dag og Ragnar á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur þar sem við ræddum meðal annars um tilraunamennsku, stöðu bókmennta og einkahúmor þeirra Tungl-manna.

 

Ert þú, Ragnar, grafískur hönnuður?

Ragnar: Ég er myndlistamaður, eða ég lærði fyrst heimspeki hérna í háskólanum og svo myndlist.

Og þú sérð þá um umbrotið?

Ragnar: Ja, já. Eða við göngum nú báðir í flest verk. Dagur er nú líka flinkur hönnuður.

Dagur: Ragnar hannar útlitið og ég bara fylli inn í eyðurnar.

Ragnar: Það eru ekki beint nein afdráttarlaus verkaskipting hjá Tunglinu. Við gerum báðir allt saman.

En kilirnir, eiga þeir ekki að mynda eitthvað orð á endanum? [Dreg fram Stálskip eftir Atla Sigþórsson og bendi á bókstafinn R á kilinum]

Dagur: Þeir eiga að mynda eitthvert orð, jú.

Ragnar: Einhver orð.

Mynd: Jóda Elín Valgerður Margrétardóttir

Mynd: Jóda Elín Valgerður Margrétardóttir

Hversu löng er þessi setning?

Dagur: Ég man það ekki alveg.

Ragnar: Við getum eiginlega ekki sagt neitt um það.

Dagur: Nei, það má eiginlega ekki segja það.

Þannig að þið ætlið ykkur að gefa út ákveðið margar bækur?

Dagur: Við erum með ákveðið orð í huga.

Bara eitt orð?

Ragnar: Nei, þetta er setning. Hver veit, kannski setningar …

Dagur: Þetta hefur þróast dálítið á leiðinni …

Ragnar: Við höfum alltaf vitað hvert við stefndum en sú stefna breytist í sífellu. Við vitum alltaf hvað við erum að gera, það bara breytist reglulega hvað það er nákvæmlega.

Skemmtilegt. Þið voruð þrír sem stofnuðuð Tunglið en þið eruð bara tveir í þessu núna, er það ekki?

Dagur: Jú. Árni Þór Árnason var með okkur sumarið 2013 en svo fór hann að vinna hjá Forlaginu, fór að sinna útgáfumálum þar.

Þannig að það passaði ekki saman að vera á báðum stöðum?

Dagur: Nei, og svo eru menn líka bara uppteknir.

En nú hefur Forlagið gefið út tvær bækur [Kvíðasnillingana eftir Sverri Norland og Veraldarsagan mín – ævisaga hugmynda eftir Pétur Gunnarsson] sem hafa komið út hjá ykkur áður, eða svona í einhverri mynd alla vega. Er Árni sem sagt að ota að þeim handritum?

Dagur: Nei, ég held það hafi nú bara æxlast þannig.

Ragnar: Þetta er bara tilviljun, held ég.

Dagur: Pétur náttúrlega gefur út hjá Forlaginu og ákvað bara að slá til þegar við höfðum samband við hann. Hann var að vinna að þessu handriti og vann það svo áfram. Með Sverri, hann …

Ragnar: Sú bók ber reyndar sama titil og sú sem kom út hjá Tunglinu …

Já, nema titillinn er í fleirtölu … ?

Dagur: Kvíðasnillingarnir og Kvíðasnillingurinn.

Ragnar: En að öðru leyti er það ekki sama verkið.

Dagur: Nei, bækurnar eru dálítið úr sama heimi en ég held bara að það sé eiginlega ekkert í þeirri bók sem er eins, eða næstum ekkert … einn kafli kannski.

Ragnar: Sverrir er náttúrlega búinn að finna svo skínandi góðan titil að það er sniðugt að halda sig bara við hann.

Dagur: Við höfum svo sem alltaf verið opnir fyrir því að fólk vinni áfram það sem það er að gefa út hjá okkur.

Þannig að þið eigið ekki réttinn á neinu? Það eru höfundarnir sem eiga hann?

Ragnar: Já, við viljum ekki eiga réttinn á neinu. Við gerum þannig séð ekki neina útgáfusamninga í ströngum skilningi. Við erum bara að þjóna skáldskapnum.

Hvernig veiðið þið handrit? Heyrið þið af einhverjum handritum eða sendir fólk ykkur handrit sem þið þekkið ekki neitt?

Ragnar: Allt af ofangreindu. Sumt höfum við lesið eða frétt af. Við vorum náttúrlega saman í námi, við Dagur upp í Háskóla í ritlist, þannig að þar vorum við búnir að sjá eitthvað hvor hjá öðrum og hjá samnemendum okkar. Svo höfum við sent skeyti á eftirlætishöfunda og spurt þá hvort þeir eigi eitthvað. Við höfðum til dæmis samband við Kristínu Ómarsdóttur að fyrra bragði, hún var svona höfundur sem var á draumalistanum okkar.

Já, ég sé svo eftir að hafa ekki keypt bókina hennar.

Dagur: Já, þetta er stórkostleg bók. Það er einmitt svona handrit sem hún hafði átt tilbúið í dálítinn tíma en vissi ekkert hvað hún ætti að gera við. Sú bók vara einfaldlega skrifuð fyrir Tunglið og Tunglið var búið til fyrir þá bók. Munaðarlaus bók sem algjörlega þurfti að koma út.

Ragnar: Það var eins með bókina hans Péturs Gunnarssonar, við höfðum samband við hann að fyrra bragði og spurðum hvort hann ætti eitthvað sem passaði inní þetta form. Hann er annar höfundur sem er eftirlæti okkar. Bókin hennar Margrétar [Bjarnadóttur, Líf mitt, til dæmis] var svo bók sem við vorum búnir að frétta af og hafði vakið áhuga okkar og við gengum á eftir henni að leyfa okkur að sjá.

Dagur: Við höfum líka hvatt höfunda til að senda okkur handrit.

Ragnar: Já, sumar bækurnar hafa verið unnar eftir hvatningu frá okkur. Þannig að það er eiginlega allt opið. Hreinar og klárar kommisjónir, pantanir hreinlega, er líka eitthvað sem við höfum spáð í að væri gaman að gera.

Dagur: Við höfum líka fengið send handrit sem hafa verið svo gott sem tilbúin og það hefur þá ekki verið mikil ritstjórn en alltaf einhver örlítil. En svo höfum við líka fengið handrit þar sem hefur verið miklu meiri ritstjórn og meiri samvinna, sem er bara mjög gaman.

Ragnar: Þetta er sem sagt svona alla vegana.

Dagur: Og við erum opnir fyrir öllu. Ja, eða ekki öllu, en við lesum það sem fólk sendir á okkur.

Ragnar: Á ákveðinn hátt þá var viss fagurfræði ráðandi í okkar nálgun í upphafi. Kannski ákveðin tegund af prósa … eða ljóðrænum prósa skulum við segja og ég myndi segja að það væri alveg ákveðinn samhljómur í bókunum, en svo erum við alltaf til í hið óvænta. Tunglið er alveg opið fyrir hinu jarðbundna í bland við hitt. Ég held við reynum að gera kokteil, óvæntan kokteil, þannig að okkur sjálfum finnst þetta skemmtilegt, að bækurnar komi að minnsta kosti okkur útgefendunum á óvart.

Þannig að þið ætlið að gera þetta eins lengi og ykkur finnst þetta skemmtilegt?

Ragnar: Já, eins lengi og okkur finnst þetta gaman.

Dagur: Og gera líka það sem okkur finnst gaman, það sem kallar á okkur.

Ragnar: Og svo getur líka vel verið að þetta format … ég veit ekki hvað það á langa ævi, þessar bækur. En svo getur vel verið að Tunglið geri eitthvað annað og jafnvel eitthvað sem að þú munt heyra ennþá minna af en þú hefur heyrt af Tunglbókunum.

Dagur: Markmið Tunglsins er náttúrlega aldrei að vera á forsíðum, við höfum engan sérstakan áhuga á því.

En samt vekja umtal sem viðburður?

Ragnar: Nei, það er ekki markmið okkar.

Dagur: Það er alls ekki markmið okkar. Eða, er það? Erum við að vekja umtal? Fólk mætir bara á Tunglkvöldin og það er vonandi gaman og við erum bara þakklátir ef fólk skemmtir sér með okkur.

Ragnar: Ég held að við séum ekki með það markmið að vekja umtal. Það væri neðarlega á aðgerða-listanum okkar. En það er samt alveg sjálfsagt að þeir sem verkin gætu kætt viti af þeim, en við erum ekki í neinu trúboði, ekki einu sinni fyrir listina þannig séð.

Mynd: Tungið forlag

Mynd: Tungið forlag

Dagur: Það sem er ánægjulegt er að við erum að útvega þessum höfundum mjög góða lesendur, þakkláta lesendur, þótt þeir séu ekki margir. Það er eitthvað fallegt við að fá 69 góða lesendur, það er bara fínt.

Hvað kom til að þið stofnuðuð þetta forlag?

Dagur: Ég veit það ekki alveg. Ég var í kúrsi upp í Háskóla þar sem átti að gera einhvern „hlut“ og ég ákvað að gefa út bók. Ég skrifaði bók sem heitir Sjálfsmorðstíðni í Finnlandi sem var bara mjög lítil bók og ég ákvað að setja bara eitthvað forlagsnafn á hana og datt í hug Tunglið. Upp úr því var ég dálítið spenntur fyrir því að gefa út litlar bækur. Og við Ragnar vorum líka búnir að ræða ýmislegt um útgáfumál og við Árni vorum líka að ræða ýmislegt þannig að einhvern veginn upp úr því þá bara gerðist þetta.

Ragnar: Þetta var í rauninni að miklu leyti drifið áfram á því að okkur langaði að gefa út það sem okkur langaði að lesa.

Dagur: Þetta var svona format fyrir bækur sem eiga hvergi heima.

Ragnar: Já, bækur sem eru utan flokka, ekki nægjanlega langar til að teljast skáldsögur og kannski ekki skýrlegar ljóðabækur heldur. Svona fyrst til að byrja með þá voru þetta bækur sem voru á einhverjum furðulegum mörkum. Við vissum af einhverjum svona handritum og grunaði að þau væru fleiri og hugsuðum að það væri gaman að koma þessu út.

Dagur: Svo komu alls konar aðrar hugmyndir eins og með tímann og bókmenntir. Hvað bækur eru eilífar, sem er kannski ekki beint spennandi konsept. Bók sem er sending út í eilífðina er þá einhvern veginn aldrei því hún er alltaf til. Bókin á ekkert móment og við erum kannski að búa til einhverskonar móment – bókin er til núna og svo ekki.

Ragnar: Við fórum að hugsa um hvernig við gætum komið þessum bókum út á einhvern annan hátt en þennan hefðbundna þar sem þú gefur bókina út, hefur lítið útgáfuhóf, ferð síðan með tíu eintök upp í Þjóðarbókhlöðu og restina í bókabúðina þar sem hún safnar ryki í nokkra mánuði. Ég las einhversstaðar að það að gefa út bók sé eins og að planta tré. Það fannst okkur alveg glatað. [Við hlæjum]. Þannig að við vildum frekar að það að gefa út bók yrði minna eins og gróðursetja tré og meira eins og að taka pinnann úr handsprengju. Þess vegna varð þessi hugmynd um að gefa þetta út á skýrum degi, á fullu tungli, að bókin væri aðeins fáanleg á þeim tíma, í mjög takmarkaðan tíma innan þess sólarhrings, að það væri bara hægt að nálgast bókina í tvo tíma. Og þaðan flæðir hugmyndin um að ef bókin yrði ekki uppseld á þeim tíma í þessu takmarkaða upplagi, 69 eintökum, þá myndum við eyða því sem eftir væri af upplaginu.

En þið hafið ekki gert það, er það nokkuð?

Dagur: Við gerðum það fyrsta kvöldið, við keyptum síðasta og fyrsta eintakið sjálfir og fórnuðum þeim.

Ragnar: Við fórnuðum fyrst eintaki númer eitt, brenndum það, og köstuðum svo eintaki númer 69 í hafið.

Mynd: Héðinn Eiríksson

Fyrsta eintakinu fórnað. Mynd: Héðinn Eiríksson

Þetta er nú frekar mikill söfnunargripur, er það þá ekki dálítið diss að brenna fyrsta eintakið?

Dagur: Neiii …

Ragnar: Nei, það er bara nauðsynlegt.

Fyrir þá sem vilja safna er fyrsta eintakið af fyrstu bókinni verðmætast – en það er búið að fórna því.

Ragnar: Við hötum það líka. Við viljum ekki fetishera þetta of mikið heldur. Þetta gengur ekki út á að búa til lúxusvöru. Að sumu leyti skil ég hvað þú meinar, þetta lítur svolítið þannig út, en þetta er í raun útúrsnúningur á þeirri hugmynd, frekar en að vera sú hugmynd. Enda kostar bækurnar ekki mikið, þær eru ódýrarari en kiljur. Bækur sem kosta tvöþúsundogfimmhundruðkall geta ekki talist lúxusvara. Það finnst okkur mikilvægt.

Ég talaði við einn svona markaðsmann sem spurði hversvegna þær væru svona ódýrar. Hann sá fyrir sér að það væri hægt að selja þær á miklu meiri pening fyrst þær koma bara út í 69 eintökum.

Dagur: Við höfum engan áhuga á markaðsfræði, þá værum við að gera eitthvað annað. Prentun [Tunglbókanna] er hlutfallslega mjög dýr út af allskonar dóti sem fáir myndu fara út í, t.d. þessi smjörpappír og gat á kápunni að framan og aftan [bendir á bókina sem ég kom með]. Ef þú ert að hugsa um peninga þá gerirðu ekkert spennandi. Við erum að gera eitthvað sem okkur finnst spennandi. Ef peningar stjórna útgáfustarfsemi þá ertu kominn með svo mikil takmörk á það sem þú ætlar að gera og það er ekkert gaman.

Ragnar: Við höfum það markmið að Tunglið skili okkur hóflegu tapi. Ekki óhóflegu tapi, því við erum ekki borgunarmenn fyrir miklu tapi. En við ráðum við hóflegt tap, það er markmiðið. Og það hefur gengið eftir hingað til.

Talandi um fjármál, nú hafið þið sent inn allar bækurnar í Bókatíðindi.

Ragnar: Já, við gerðum það fyrsta árið.

Og það kostar um þrjátíuþúsundkall hver birting. Hver var hugsunin á bak við það? Var það til þess að komast í sögubækurnar?

Báðir: Nei …

Ragnar: Hugsunin var bara, eins og mjög margt í Tunglinu, að okkur fannst þetta fyndið og skemmtilegt og það væri meira gaman að gera það en gera það ekki. Þetta var fjármagnað með samskotum meðal eigenda fyrirtækisins.

Dagur: Þetta kostaði peninga og ekki vorum við með gróða fyrir. Við erum að auglýsa vöru sem er ekki til þannig að þetta stefndi alltaf bara í tap.

Mér fannst þetta vera gott grín, það voru margir bókabúðastarfsmenn sem voru að leita að þessum bókum. Ég vinn í Eymundsson og þar voru allir að furða sig á af hverju þessar bækur voru ekki til, hvaðan þær kæmu og hversvegna þær hefðu aldrei sést í bókabúðum.

Dagur: Það var reyndar ekki markmiðið að villa um fyrir bókabúðastarfsfólki, en það er samt allt í lagi.

Kom fram að hún væri uppseld í Bókatíðindum?

Dagur: Já, var það ekki? Ófáanleg?

Ragnar: Já, ófáanleg. Ég held að við höfum ekki einu sinni sett sögn með, bara „ófáanleg“. Það er borgað fyrir orðið eins og í samlesnum auglýsingum.

Ragnar: Þetta var svona eitt af því sem við höfðum í huga að forlagið gerði, fyrir utan að þjóna tunglinu og þar með ljóðlistinni, þá gæti Tunglið framleitt skort. Að því leyti væri það eins og kapítalísk svikamylla. Svona að þetta væri hið fullkomna kapítalíska apparat; að það væri átómatískt innbyggt inn í viðskiptamódelið tilfinning fyrir skorti. Að varan væri nú þegar ófáanleg, eiginlega frá upphafi. Og það er að sumu leyti mikill skortur byggður inn í það, þó það gangi út frá mikilli velsæld líka. Ljóðrænni velsæld.

Dagur: [Hlær] Ljóðræn velsæld, já. Mæld í ljóðrænu.

Ragnar: Það er bæði skortur fólginn í því að þú þráir bókina sem er ekki til og svo er líka skortur á fjármögnun í forlaginu.

Dagur: Já, það er náttúrlega gríðarlegur skortur á því. Það vantar allt.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone