Að glápa á karlmenn: Ímynd karlmennskunnar í vestranum

Ofbeldi er sýning
Ofbeldi er sýning

Í Vestrum fær áhorfandinn tækifæri til þess að mæna á líkama karlmannsins og dást að eyðileggingunni sem hann stendur fyrir. Sumir vestrar ganga hreinlega út á það eitt að sýna líkama hetjunnar eyðilagðan og endurhæfðan, en að sjálfsögðu endar það allt saman í blóðbaði. Í þessu liggur ein af merkilegri sérstöðum kvikmyndagreinarinnar en Vestrinn leyfir okkur að stara á karlmannslíkamann. Vestrinn gerir ofbeldi að fagurfræði; hann er listgrein með nákvæmlega útfærðum leikreglum og upplýstum leikendum. Við fylgjumst með karlmönnum slátra hver öðrum eins og í helgiathöfn. Ofbeldið er yfirgengilegt, en það er þó ekki tilgangurinn. Þráin til þess að valda sársauka er ekki að verki, heldur fantasía um ímynd – karlmanninn sem hetju og valdhafa. Vestrinn dregur upp ákveðna ímynd karlmennskunnar sem er tjáð fyrst og fremst með ofbeldi og við sem áhorfendur fáum tækifæri til þess að spegla okkur í þessari ímynd.

Þaðan kemur nautnin af áhorfinu

Ofbeldi er raunar það sem gerir söguhetjurnar á skjánum að hetjum. Þeir búa yfir sérfræðiþekkingu í manndrápum sem skilur þá frá öðrum mönnum og bjargar smábænum. Þegar ofbeldið beinist að líkama hetjunnar með barsmíðum og pyntingum er hún strípuð öllum þeim táknum sem gera hana að þeim karlmanni og hetju sem hún er. Áhorfandanum er ekki refsað fyrir blætiskennda aðdáun hans á líkama karlmannsins heldur er hér um að ræða mótsagnakenndan lærdóm um kyngervi. Því í kjölfarið upphefst ferli þar sem hetjan endurheimtir líkama sinn, eða lærir aftur að verða það sem hún var allan tíman – karlmaður. Hér eru hugmyndir samfélagsins um kyngervi að veði. Reynt er að sanna að sú hegðun og þeir eiginleikar sem skilgreina hetjuna séu henni eðlislægir en ekki lærðir. Sem áhorfendur samsömum við okkur þjáningu hetjunnar og um leið verðum við þátttakendur í því sem fylgir. Þetta er náttúrulegt ferli, bundið líkama hennar. Svona til þess að sanna það að karlmennska sé ekki lærð heldur þegar til staðar í líkamanum. Og við sem vorum orðin óörugg með hlutverk okkar og stöðu getum andað léttar þegar hetjan snýr aftur í fullum skrúða. Búið er að sanna að jafnvel þó að allt skrautið hverfi þá er hún alltaf þarna undir niðri og þess vegna er henni óhætt að fara aftur í búninginn sem gerir hana að því sem hún er.

Kyngervi sem einmitt það – gervi

Og einmitt þá sannast það að kyngervið sé í raun og veru búningur – svona þegar vandlega er að gáð.

Shane kemur fyrir í vandlega útfærðum búningi.

Shane kemur fyrir í vandlega útfærðum búningi.

Í vestranum er augnaráði kvikmyndatökuvélarinnar, og þar með okkar, beint linnulaust að líkama hetjunnar. Hún er viðfang glápnautnarinnar, sem felur í sér blætiskennda hlutgervingu á líkama hennar. Í vestranum horfum við á hetjuna, frekar en með henni.  Hún birtist á sjóndeildarhringnum með mikilfenglegt landslag í bakgrunni oft eftir að atburðarásin er hafin. Líkami karlmannsins verður hluti af ægilegu sjónarspili auðnarinnar sem myndar skarpa andstæðu við heimilislegt samfélagið sem hún ríður inn í. Vestrinn er enginn karakterstúdía. Hér er yfirleitt á ferðinni maður fárra orða og fullkominnar sjálfsstjórnar. Hvorki ógn né sigur virðist hafa áhrif á lundarfar hans. Hann er hönd réttvísinnar, nánast eins og engill án sálarlífs í auðninni sem stígur inn í samfélagið til þess að vinna þurftar verk. Með yfirveguðu yfirbragðinu er fókusinn tekinn af sálarlífi hans, þrám og löngunum og færður á yfirborðið – líkamann.

Karlmannslíkaminn er sýning og átakasvæði

Hetjan er auðþekkjanleg á klæðaburðinum; oft með klút um hálsinn, hatt, í leðurhönskum, vesti og þröngum buxum, og að sjálfsögðu með byssubelti einhverstaðar við nárann. Þessi drekkhlaðni búningur – sem verður nánast að táknkerfi í sjálfu sér – gefur okkur færi á því að dvelja við og rannsaka líkama hetjunnar gaumgæfilega. Líkami mannsins er átakasvæði hugmynda um karlmennsku í vestranum. Reynt er að sanna það að karlmennskan sé líkamleg og ómeðvitað er hún ímynd sem áhorfandinn speglar sig í. En á sömu stundu verður þessi sýning að spegli á hugmyndir hvers tíma fyrir sig um kyngervi hans – ef vandlega er gáð. Verst að þeir eru hættir að gera vestra.

-Garðar Þór Þorkelsson

 

Heimildir:

Bazin, André. 1972. What is Cinema: Volume II. Hugh Gray þýddi. University of California Press, Berkeley og Los Angeles. Butler, Judith. 2006. Gender trouble : feminism and the subversion of identity. Routledge, New York. McGee, Patrick. 2007. From Shane to Kill Bill: Rethinking the Western. New Approaches to Film Genre; 1. Blackwell Publishing, Malden. Mitchell, Lee Clark. 2001. ,,Violence in the film Western‘‘. Violence and American Cinema. Ritstjóri: J. David Solcum. Routledge, New York Warshow, Robert. 1998. ,,Movie Chronicle: The Westerner‘‘. The Western Reader. Ritstjórar: Jim Kites og Gregg Rickman. First Limelight Edition, New York.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone