Að vera eða óvera

Mynd4

Afmyndaðar verur, sambland manna, dýra og furðuskepna blöstu við manni á sýningunni Óvera í Hverfisgalleríi fyrir skemmstu. Sýningin samanstóð af 6 stórum blekteikningum á pappír og 1 vídeóverki í hliðarherbergi. Vídeóverkið var í takt við myndirnar, sýndi undarleg samskipti barnslegra- og hálf ógeðslegra vera úr pappír sem einnig var stillt upp fyrir framan skjáinn.

Andrúmsloft sýningarinnar var súrrealískt og vakti með manni óræðar kenndir. Verurnar sem tilheyra sérstökum myndheimi Siggu Bjargar eru óhugnalegar, fyndnar og umkomulausar í senn. Umhverfi þeirra er ekki sýnt og því gæti nafn sýningarinnar líka vísað til skorts á þeirra á tilveru.

Mynd1

 

Að flæða

Á veggnum við hliðina á hverri mynd var saga, fallega handskrifuð með bleki. Sögurnar voru draumkenndar, fjölluðu um samskipti aðila sem skildu ekki hvorn annan eða furður eins og þegar sokkur breytist í skrímsli sem drepur eigandann. Tengsl sögu og myndar voru óbein en merking verksins varð til í samspili þeirra.

Mynd2

Í listamannaspjalli við Úlfhildi Dagsdóttur og í sýningaskrá kom fram að aðferð Siggu við myndirnar einkennist af flæði. Hún byrjar á að skrifa söguna án þess að stoppa og vinnur svo myndina út frá andrúmslofti sögunnar. Hún leggur stóra pappírsörk á borð og hellir bleki yfir. Hvernig blekið þornar hefur síðan áhrif á útkomuna. Pappírinn er ekki festur niður þannig að hann ber þess merki að hafa blotnað og er lifandi. Í þessu flæði forðast hún að ritskoða sig og vinnur kerfisbundið með hið tilviljanakennda og undirvitundina, líkt og súrrealistarnir forðum. Bleksletturnur eru stórar og fyrir miðju eða aðeins til hliðar. Þær eru kraftmiklar og þeim fylgir sú tilfinning að eitthvað sé að gerast, springa, flæða, spýtast út, rigna yfir eða leka. Örfín teiknuð smáatriði umbreyta þeim svo verur, í t.d. loðin dýr, sem tengjast mannlegri verum og virðast kúga þær því mannlegu verurnar eru oft bognar, jafnvel sitjandi og eins og búnar að gefast upp.

Að umbreytast

Auðvelt að tengja verkin við kenningu Freuds um hið óhugnanlega (uncanny). Samkvæmt Freud óttast maðurinn ekki hið ókunna heldur að hið kunnuglega rísi upp í breyttri mynd. Þessi hamskiptaóhugnaður birtist í því hvað verurnar eru afmyndaðar, sumar eru loðnar, aðrar með fjórar tær, svínshala eða -klaufir og flestar með agnarsmá fuglshöfuð. Afmyndunin og skortur á mörkum, hvernig þær renna í og úr hvor annarri, oft á kynferðislegan hátt, ógnar hugmyndinni um hið heildstæða sjálf. Þær eru með stóra líkama, látbragð þeirra er mannlegt, sumar sitja á stólum og ein spilar á píanó. Margar veranna virðast vera að springa í loft upp, blóð spýtist úr þeim, þær gubba eða gefa frá sér vessa, piss, kúk eða blóð. Þessi áhersla á hið líkamlega, gróteska er bæði óþægileg og fyndin. Tvíræðnin og húmorinn birtist líka í skopmyndalegum smáatriðum, trúðslegum tígla- og tvídmynstruðum fötum og barnslegu látbragði, til dæmis því hvernig verurnar sitja á gólfinu eða liggja með rassinn út í loftið.

Mynd3

Viðfangsefni verkanna á sýningunni Óvera var flæði og óljós mörk. Unnið var með flæði bleks og mismunandi tóna. Hvert verk snerist um samskipti sem taka á. Verurnar runnu saman og sundur sem gæti átt við skort á mörkum eða innri togstreitu. Svart hvítar myndirnar sköpuðu sterka heild í hvítu rýminu og hið tilviljanakennda flæði skilaði sér vel í agaðri og markvissri umgjörðinni.

Mynd4

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone