Æfingin skapar meistarann

Elín Pjetursdóttir

Ég held að ef maður er duglegur að æfa sig geti maður gert næstum hvað sem er. Þegar ég var stelpa byrjaði ég til að mynda að læra á flautu. Það tók mig margar vikur að ná fyrsta tóninum úr þverflautunni minni, en sem betur fer var ég ákveðin með meiru og gafst því ekki upp. Þrettán árum síðar þegar ég lagði flautuna á hilluna þá kunni ég ekki bara allar nóturnar, heldur kunni ég heilu konsertana utan að. Að spila á flautu var orðið mér jafn eðlislægt og að tala, og það er akkúrat það sem gerist ef maður æfir sig á hverjum degi, eitthvað sem einu sinni var ótrúlega erfitt verður lauflétt.

Jórunn Viðar - Tónskáld

Jórunn Viðar – Tónskáld

Að flautunáminu loknu snéri ég athygli minni að akademískum fræðum, og eftir að hafa prófað bæði trúarbragðafræði og hljóðverkfræði endaði ég á því að læra heimspeki. Fyrst tók ég BA próf við Háskóla Íslands og svo MA próf við Kaupmannahafnarháskóla. Ég var fullviss um að háskólarnir myndu kynna fyrir mér bestu og áhugaverðustu hugmyndir fólksins sem uppi hefur verið á skrítnu plánetunni okkar, og þessar tvær heimspekideildir hafa sannarlega kynnt fyrir mér aragrúa af allskyns mögnuðum hugmyndum. Fyrir það, sem og fyrir þá þolinmóðu og frábæru kennara sem skólarnir hafa boðið mér upp á, verð ég ævinlega þakklát. En eins og góðum heimspekingi sæmir sé ég þó ýmislegt sem betur mætti fara. Það er nefnilega svo margt sem ég fékk ekki að vita, og það voru svo margar hugmyndir sem voru aldrei kynntar fyrir mér. Ég þekki ófáar kenningar hvítra karla af efri-millistétt hins vestræna heims, en ég veit hinsvegar sorglega lítið um hugmyndir kvenna, hugmyndir samkynhneigðra, hugmyndir svartra, hugmyndir fatlaðra og svo mætti lengi telja.

Þrátt fyrir að skólarnir mínir hafi sannarlega ekki verið duglegir að kynna fyrir mér hugmyndir fólks sem fellur ekki í hópinn ,,hvítir, miðaldra karlar” þá er helmingurinn af uppáhalds heimspekingunum mínum  konur. Kvenkyns heimspekingar eru nefnilega til og þær eru uppfullar af á hugaverðum hugmyndum. Þeim er hinsvegar síður hampað en körlunum.

Marka karlar þekkingu heimsins?

Nú gæti lesandinn auðvitað hugsað með sjálfum sér að þetta sé nú ekki alveg sanngjarnt af mér. Við vitum jú að heimurinn var hliðhollur körlum hér í eina tíð og að konum var sjaldnast boðið upp á menntun, það sé því ekki furða að kenningar kvenna séu færri en karla. Og jú, það er auðvitað alveg rétt, í gegnum aldirnar hafa konur sjaldan fengið færi á að mennta sig, hvað þá að skrifa og gefa út kenningar sínar. En einmitt þess vegna hefði ég haldið að nemendum væri gert að lesa þau gömlu rit sem við eigum eftir konur, einmitt af því að sjónarhorn kvenna hefur verið svo vandfundið. Þar að auki eru flestir uppáhalds heimspekingar mínir af kvenkyni enn á lífi og enn að skrifa, og hugmyndir þeirra eiga sannarlega erindi við okkur í dag. Samt eru rit þeirra sárasjaldan á leslistum heimspekinema.

Miranda Fricker - Heimspekingur

Miranda Fricker – Heimspekingur

Er það ekki skrítið að fræðigrein sem leitar að visku, fræðigrein sem gengur út á að spá og spekúlera um allt og allskonar, skuli ítrekað sleppa því að kynna sér hugmyndir fólks sem hefur fæðst með leggöng?

Er það ekki skrítið að fræðigrein sem leitar að visku, fræðigrein sem gengur út á að spá og spekúlera um allt og allskonar, skuli ítrekað sleppa því að kynna sér hugmyndir fólks sem hefur fæðst með leggöng? Eins og hugmyndir hafi minna vægi ef þær koma úr höfði sem deilir líkama með innvöxnum kynfærum í stað útvaxinna. Ég held þó ekki að heimspekin sé ein um að gleyma konum. Í öll þau ár sem ég spilaði á flautu spilaði ég sárasjaldan verk eftir konur, þó sannarlega séu til kvenkyns tónskáld. Meira að segja var réttilega bent á það núna um daginn, þegar Íslensku Tónlistarverðlaunin voru haldin hátíðleg, að engar konur voru tilnefndar í flokkinum Rokkplata ársins, þó konur rokki svo sannarlega og gefi út plötur, rétt eins og karlar.

Sjónarhorn konunnar víkkar út heimsmyndina

Þar sem ég hef stúderað bæði heimspeki og tónlist, hef ég komist að því að heimspeki og listir eiga ansi margt sameiginlegt. Heimspekikenningar og listaverk eru áhugaverð annað hvort af því að þau taka eitthvað gamalt og endurlífga það, setja það í nýjan búning og gefa því þannig mikilvægi á ný, eða af því að þau vinna með eitthvað nýtt og áhugavert. Ég er handviss um að listsköpun og heimspekilegar hugsanir kvenna eru ekki síður áhugaverðar en karla. Ég held hins vegar að heimurinn sé óvanur að hlusta á konur, taka eftir konum, og taka konur alvarlega.

Sem betur fer er ég ólæknandi Pollýana og ég er handviss um að saman getum við breytt heiminum ef við bara æfum okkur! Lesum heimspeki eftir konur, njótum listsköpunar kvenna, hlustum á konur, tökum mark á konum, og njótum þess sem konur hafa fram að færa. Ég æfði mig á flautuna mína á hverjum degi í rúman áratug og að lokum gat ég spilað heila konserta utanað. Ef við sem samfélag æfum okkur á hverjum degi að hampa konum til jafns við menn, þá getum við í sameiningu tekið risastórt skref í átt að jafnrétti kynjanna.

 

 

Viltu vita meira?

Jórunn Viðar – Tónverkið Eldur í flutningi Kíton undir stjórn Hallfríðar Ólafsdóttur: https://www.youtube.com/watch?v=wWh_8RAHNiw

Miranda Fricker – Fyrirlestur um Epistemic Equality/ Epistemic Injustice: https://www.youtube.com/watch?v=u8zoN6GghXk

Barbara Hannigan – Fjallar hér um upplifun sína sem ein af örfáum kvenkyns hljómsveitarstjórnendum: http://www.theguardian.com/music/2015/mar/11/barbara-hannigan-conducting-britten-sinfonia

Konur og heimspeki: http://today.duke.edu/showcase/mmedia/features/finding-philosophys-female-voices/

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone