Af púkum og Andrési Önd

Andres-ond

Við könnumst flestöll  við rauðan púka sem situr á öxl söguhetju í bíómynd eða teiknimynd og hvíslar í eyra hennar. Á hinni öxlinni situr engillinn valdalaus gagnvart dáleiðandi loforðum púkans um frægð, frama og auð. Þetta myndmál táknar upphaf ævintýrisins og eftir áeggjan púkans leggur söguhetjan af stað í ferð í leit að fjársjóði. Eftir mikið mótlæti þar sem hetjan berst gegn óvinum með hjálp aðstoðarmanna finnur hetjan fjársjóðinn en hann reynist verðlaus og ekki það sem púkinn lofaði. Sem barn var þetta æsispennandi söguflækja en samt merkingarlaus, ég tengdi hvorki við púka né djöfla og taldi þá aðeins eiga heima í gömlum Disney teiknimyndum á borð við Andrés Önd.

DNA, eðlishyggja og tvíhyggja

Verndarengill Andrésar tekur púkann á mottuna.

Verndarengill Andrésar tekur púkann á mottuna.

En þetta myndmál rennur mun dýpra heldur en húmorískar teiknimyndasögur gefa til kynna. Það táknar innri togstreitu mannsins, þrána eftir frið og gleði í mótstöðu við freistingar hins svo kallaða illa, hvort sem það eru reiði, neikvæðni, mótþrói, mikilmennskubrjálæði, egóismi eða eitthvað annað verra. Púkinn og engillinn eru tákngervingar fyrir tvíhyggjuna, gott á móti vondu. Svartur heimur á móti hinum hvíta þar sem gráir tónar finnast ekki. Eðlishyggjan er svo nátengd tvíhyggjunni að fólk er annað hvort gott og fagurt að eðlisfari eða óbreytanlegt, með illskuna innbyggða í DNA kóða líkamans eða jafnvel með of mikla framleiðslu af illskuhormónum. Í myndinni Donald’s Better Self frá 1938 fær púki Andrésar hann til að reykja pípu. Andrés verður sárlasinn eftir einn smók og er algjörlega valdalaus gagnvart púkanum sem hlær tröllslega. Sögunni lýkur þegar engillinn kemur Andrési til bjargar og tekur hressilega í lurginn á púkanum.

Múhameð, qareen og jinn púkar

Uppruni myndmálsins bakvið púka og engla kemur djúpt úr iðrum

Af vefsíðunni www.brotherrahman.net sem að veiti ráð gegn andsetningu púka og djöfla.

Af vefsíðunni www.brotherrahman.net sem að veiti ráð gegn andsetningu púka og djöfla.

fortíðarinnar, úr trúarlegum textum á borð við Biblíuna og Kóraninn þar sem þessir ósýnilegu vættir voru kynntir inn í mannlegt samfélag í upprúlluðum handritum. Kóraninn hefur eftir Múhameð að öllum mönnum fylgi qareen, eða jinn púki sem reyni að afvegaleiða þá. Eðli qareen púkans er umdeilt, sumir vilja meina að púkinn sé vondur en aðrir telja að púkinn lúti stjórn mannsins og geti því orðið góður. Samkvæmt þeirri kenningu ber maðurinn sjálfur ábyrgð á eigin hegðun sem og hegðun púkans og geti þessvegna jafnvel alið púkann upp sem góða og hjálpsama veru.

Gráa svæðið

Við þurfum öll að kljást við okkar innri djöfla eins og segir í málshættinum. Skiptir engu hvort þeir séu af íslamsku, kristnu eða trúarlausu bergi brotnir. Sumir reyna aldrei að horfast í augu við neikvæðar hvatir sínar, á meðan aðrir berjast við þær alla sína ævi. Enn aðrir virðast hafa fæðast í heiminn jákvæðir og uppbyggilegir. Kannski kemur hugmyndin um eðlishyggju hins góða og illa frá þeim. Til að mynda virðist Jesú hafa verið án lasta eða illsku. En hver veit, kannski voru uppvaxtarár Jesú jafn brösug og uppvaxtarár Siddharta Búdda sem fór frá konu og barni til að finna sjálfan sig og skilja heiminn.

Sjálf var ég var haldin mikilli mótþróaröskun á unglingsárum, með dass af mikilmennskubrjálæði og vænan skerf af minnimáttarkennd. Ég hélt ég vissi allt, hlustaði ekki á kennarana og reifst við þá. Samt sem áður grunaði mig innst inni að ég væri hræðilega óheppin, glötuð og hæfileikalaus. Öll rifrildin og allar útistöður stöfuðu af því að ég var að reyna hvað mér fannst ég vera hræðileg manneskja

En loks rann upp fyrir mér himneskt ljós (afsakið trúarlega orðaleikinn) og ég áttaði mig á því að mögulega gæti ég lært eitthvað af kennurunum. Í fyrsta skipti á menntaskólaárum mínum varð námið skemmtilegt. Ég hætti að vera í vörn og tók mið af skoðunum og uppástungum kennarana. Auðvitað fór ég ekki eftir öllu sem þeir stungu uppá en ég lagði mig allaveganna fram. Og viti menn, ég tók gífurlegum framförum. Ég hugsa oft með vorkunn til gömlu kennaranna minna en vonandi varð breytt hegðun mín síðasta námsárið til þess að þeir minnast mín ekki lengur með hryllingi.

Það er erfitt að kasta af sér margra ára æfingu í egóisma, mikilmennskubrjálæði, minnimáttarkennd og samanburðaráráttu. Á hverjum degi þarf ég að taka afstöðu gagnvart neikvæðum hugsunum og taka réttar ákvarðanir. Hvort sem það er að brosa og sýna jákvætt viðmót, skrifa uppbyggilega pistla eða keyra niður Miklubrautina á háannatíma án þess að hanga á flautunni í einhverju reiðikasti. Það er þessi togstreita milli reiði og æðruleysi sem gerir okkur mannleg. Spurningin er bara hvort við setjum ábyrgðina í hendur ósýnilegra engla eða púka, eða hvort við tökum öxlum hana sjálf. Manneskjan er ekki teiknimyndapersóna og ólíkt Andrési Önd eru það nefnilega við sem sitjum við stjórnvölinn en ekki einhver púki í rauðri skikkju.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone