Drusla, kona, meyja – Leikverkið Samfarir Hamfarir

samfarir hamfarir 1

Sviðslistaverkið Samfarir Hamfarir var sýnt á dögunum í Tjarnarbíó af leikhópnum Hamfarir. Handrit verksins er eftir Natan Jónsson og Þórunni Guðlaugs, sem jafnframt leikur aðalhlutverkið. Ásamt Þórunni leikur Ársæll Níelsson einskonar hliðarsjálf Þórunnar í huga hennar og Aðalsteinn Oddsson leikur hinar ýmsu karlpersónur í lífi hennar.

Söguþráður verksins snertir á ýmsum flötum sem hafa verið áberandi í samfélagslegri umræðu hér á landi undanfarið. Má sem dæmi nefna hvernig kynhegðun kvenna fær oft á sig neikvæðan stimpil. Verkið er byggt á persónulegri reynslu höfunda, reynslu fólks í þeirra lífi og skáldskap. Áhorfendur vita því ekki hvað er satt og hvað er skáldskapur.

Ríða. Búið. Bless.

Sagan fjallar um Þórunni, unga konu sem á í svolitlum erfiðleikum að fóta sig í lífinu og þá sérstaklega í tengslum við hitt kynið. Sagan er sögð í fyrstu persónu af Þórunni, aðalpersónunni, sem segir sögu sína í endurminningum. Þórunn missir móður sína 10 ára gömul og elst því upp hjá föður sínum sem tekur missinum illa, snýr sér að drykkju og upp frá því verður samband feðginanna slæmt. Sjálfsmynd Þórunnar er brotin og samband hennar við föður sinn virðist lita samskipti hennar við karlmenn og lendir hún í hverjum drullusokkinum á fætur öðrum. Hún sannfærist um það að hún laði að sér ömurlega karlmenn sem vilja eingöngu sofa hjá henni og hverfa svo úr lífi hennar.

Samfarir hamfarir 2

“Aldrei datt mér í hug að ég myndi sofa hjá Búra”

Þórunn missir meydóminn á fyrsta ári sínu í menntaskóla inni í búri í partýi. Eftir það fær hún viðurnefnið Búri sem loðir við hana æ síðan. Um hana er skrifað í skólablaðinu og aldrei fær hún að gleyma þessu atviki. Drengurinn hins vegar, sem átti í hlut hverfur úr myndinni strax eftir atvikið og ábyrgð hans er engin, á meðan viðurnefnið fylgir Þórunni fram á fullorðinsár og veldur henni miklu sálarangri.

Þetta atriði tengist beint við umræðu frá liðnu hausti, um skólablöð í íslenskum framhaldsskólum sem ýttu undir “druslustimplun” stúlkna í svokölluðum slúðurfréttum. Svo virðist nefnilega oft vera að kynhegðun kvenna sé litin öðrum augum en karla og oftar en ekki fá stúlkur og konur á sig stimpilinn “drusla” ef þær stunda “of mikið” kynlíf með “of mörgum” bólfélögum samkvæmt samfélagslegum stöðlum. Því er mikilvægt að halda áfram að opna umræðuna, líkt og hefur verið gert á undanförnum árum, og stuðla að jafnrétti í samskiptum kynjanna. Sýningin er þannig innlegg sem á vel heima í slíkri umræðu og hefur vonandi vakið áhorfendur sína til umhugsunar.

samfarir hamfarir 3

Meiri fræðsla – betri samskipti

Þó verkið sé ekki lengur í sýningu þá þótti mér sagan vera umfjöllunarinnar virði og vona að leikverkið verði sýnt áfram í fræðslutilgangi fyrir ungt fólk sem er að fóta sig í lífinu. Verkið er þarft innlegg í umræðuna og veltir upp ýmsum verðugum spurningum um samskipti kynjanna og kynlíf ungra kvenna.

Aðspurð þá sagði Þórunn að draumur hópsins væri að halda áfram með verkið með fræðslumöguleika í huga. Þau langar að ferðast með verkið um landið og halda sérstakar menntaskólasýningar. Þannig geta þau haldið áfram að vekja umhugsun og umtal hjá fólki um efni sýningarinnar sem á svo sannarlega heima í samfélagslegri umræðu samtímans.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone