Afdalabarn um Afdalabarn

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Bernskuslóðir mínar á Rangárvöllum eru nokkuð úrleiðis enn í dag þrátt fyrir töluverðar vegabætur síðustu árin. Heklubæirnir sem hýstu forfeður mína voru þó ekki svo langt úr leið að Guðrún frá Lundi bærist ekki þangað. Amma og systkini hennar keyptu Dalalíf í sameiningu jafn óðum og bækurnar komu út og beðið var með óþreyju eftir næsta bindi. Koma hverrar bókar fyrir sig var stórviðburður og litaröðin er enn í minnum höfð. Fyrsta bókin var grænblá, annað bindið blátt, það þriðja grænt. Fjórða bindið Laun syndarinnar skar sig úr, því það var einhvernvegin bleik drapplitað. Náði því samt ekki að vera appelsínugult. Logn að kvöldi var síðan blátt. Þessar bækur gengu á milli bæja við misjafnar aðstæður, líkt og sumar persónur Guðrúnar. Fengu þar margslags meðferð og gengu úr sér með árunum. Þegar blaðsíða 993 úr fjórða bindi fannst eftir mikla leit, var ákveðið að láta binda þær inn uppá nýtt. Í dag eru þær allar rauðar, enda hélt bókbindarinn með Sovétmönnum og keyrði Lödu.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

 

Nágrannar á blaðsíðum bókar

Fólkið í Hrútadal var þannig ekkert minni sveitungar mínir í uppvextinum heldur en þeir sem áttu lögheimili í nágrenninu. Fólkið mitt talar um það eins og fólkið sitt, hefur á því skoðun, segir af því sögur og þykir vænt um það. Eða ekki. Ég var ekkert mjög gömul þegar ég kom að mömmu og systrum hennar í hrókasamræðum um fólkið í Hvammi. Eftir að hafa hlustað í smá stund spurði ég hvort það væri Hvammur í Holtum eða á Landi. Mér var svarað með því að það væri tími til kominn að ég læsi Dalalíf. Til þess væru tvær leiðir. Best er að lesa Dalalíf á útmánuðum, meðfram gegningum þegar minna er að gera. Það er t.d. auðvelt að stilla bókunum upp og prjóna á meðan. Það hefur sennilega haft sitt að segja um endinguna á bókbandinu. Gagga móðursystir hefur bækurnar hins vegar alltaf við hendina. Síðan fylgir hún Hrútdælingum í sömu verk og fólkið á bæjunum stendur í hverju sinni. Fjallreksturinn er skemmtilegastur. Eins er með réttirnar, þá hrópum við stundum „Þóra í Hvammi!“ ef menn eru ekki sammála um hver á markið. Og þó við séum ekki kirkjurækið fólk, þá er samt óborganlegt að fylgja Ella og Helgu til kirkju.

 

Dugandi bændur, siðblindir flagarar, flekaðar meyjar…

OLYMPUS DIGITAL CAMERAMargt hefur verið ritað um svokallaðar erkitýpur í ýmsum bókmenntum. Í munnmælasögum og ævintýrum má til dæmis finna, kolbíta, ljósar og dökkar hetjur, nauðstaddar meyjar og fleira. Hið sama á sér stað í sögum Guðrúnar frá Lundi þar sem persónur og atburðir ganga aftur og aftur og birtast raunar einnig í sögum annarra höfunda. Hvort sem um er að ræða fjöllynda embættismenn, kjaftagleiðar kerlingar eða brothættar blómarósir. Þrátt fyrir að ákveðnar manngerðir séu á ferðinni er hér ekki um neinar formúlubókmenntir að ræða. Bækur Guðrúnar frá Lundi lýsa raunsönnu sveitalífi, ekki bara þessa tíma heldur einnig dagsins í dag. Persónur hennar eiga sér raunverulegar fyrirmyndir úr sammannlegu sveitasamfélagi og þar sem tíminn er hringlaga skjóta þær ítrekað upp kollinum.

 

Fólkið er alltaf eins

OLYMPUS DIGITAL CAMERAÍ greininni ,,Íslenskar afþreyingarbókmenntir og Guðrún frá Lundi” fjallar Árni Bergmann meðal annars um sveiflurnar sem verða í sögusamúð. Hann telur þær stafa af því að Guðrún þekki lítt til söguframvindu atvinnurithöfunda. Eins og hann segir sjálfur: „Aðferð hennar er líkust daglegum sveiflum í rabbi fólks um kunningja og nágranna“ (bls. 34). Þarna tel ég kjarnann að vinsældum bóka hennar liggja. Guðrún frá Lundi var ekki atvinnuhöfundur. Hún skrifaði ekki fyrir markaðinn, hún skrifaði ekki fyrir neinn, nema sjálfa sig. Hún var ekki að finna upp hjólið frekar en við, almúgamenn, sveitafólk og verkamenn. Hún skrifar um venjulegt fólk í venjulegum kringumstæðum sem lendir ekkert í neinu sérstaklega merkilegu. Það verður kannski ástfangið og er síðan svikið. Konur verða ófrískar, karlmenn slást, grasið sprettur á túnunum og börnin vaxa og dafna. Einn kemur þá annar fer. Þetta er einfaldlega fólk eins og ég og þú. Hvorki algott né alslæmt. Þetta er fólkið sem ég kynntist í Dalalífi, en líka á djamminu, í Háskólanum og á hótelinu þar sem ég vinn.

 

OLYMPUS DIGITAL CAMERAVissulega hafa aðstæður breyst. Rómantíkin er kannski ekki eins allsráðandi, landbúnaðurinn er orðinn vélvæddari, húsakosturinn betri, dilkarnir feitari og hrossin kunna fleira en brokk og stökk, og fet fyrir Önnu. En fólkið er alltaf eins. Afkomendur Ketilríðar þurfa ekki að hlaupa á milli bæja lengur. Sveitasíminn hvíldi á sínum tíma fæturna og hefur nú öðlast endurnýjun lífdaga á Facebook. Jón hreppstjóri dagsins í dag óskar sennilega eftir vafasömum myndum af vinnukonum á Snap Chat meðan Anna og Þóra eru metast um hver fær fleiri læk á barnamyndirnar á Instagram.

 

OLYMPUS DIGITAL CAMERAStundum er sagt að við lifum á viðsjárverðum tímum. Allt of oft heyrum við fréttir af minnkandi læsi, ungu fólki þykja bækur leiðinlegar og sækist ekki eftir þeim. Að ógleymdri gömlu tuggunni um að við sem erum um og innan við þrítugt séum gjörsamlega búin að missa tenginguna við forfeður okkar, aðstæður þeirra, líf og leik og þar fram eftir götunum. En það hefur reyndar kannski alltaf verið svo? Á svona tímum eiga bækur eins og Afdalabarn fullt erindi. Þar birtist mynd af horfnum heimi, sem á þó svo margt sameiginlegt með okkar eigin. Ekki of mikið, ekki of djúpt. Satt, rétt, aðgengilegt og fallegt.

 

Að lesa bækur sumra höfunda vekur upp sömu tilfinningu og að koma heim. Fyrir mér er Guðrún frá Lundi einn slíkur. Sagnaheimur hennar hvort sem er í sveit eða þorpi vekur upp þægilega kunnuglega stemningu. Orðfærið er fallegt, hæfilega fornt en þó skiljanlegt. Persónurnar hafa verið sveitungar mínir frá blautu barnsbeini. Ég þekki meira að segja landslagið og myndi sennilega rata á milli bæja. Á hverjum bæ er boðið upp á kaffi. Stundum bara molasopa en á þeim betri er brauð, jafnvel fínt og örugglega heimabakað. Þegar búið er að hella í bollann spyr ég húsráðendur frétta. Kannski vantar af fjalli og ef til vill ber sýslumanninn á góma. Rétt eins og heima á Rangárvöllum.

Harpa Rún Kristjánsdóttir bændadóttir og bókmennafræðinemi.

Áður flutt á Upprisu Afdalabarnsins, málþingi um Guðrúnu frá Lundi í Eymundsson 25. október 2014.

Myndir: Harpa Rún Kristjánsdóttir

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone