Amy Tan á trúnó við fullan sal af fólki

http://upload.wikimedia.org/wikipedia/commons/thumb/8/85/Amy_Tan_Portrait_2_%282704552927%29.jpg/1024px-Amy_Tan_Portrait_2_%282704552927%29.jpg
Amy Tan, tekið af wikimedia commons

„Ég svaf ekki hjá fyrsta kærastanum mínum.“ „Ég missti bæði pabba minn og bróður úr heilaæxli á sama árinu.“ „Ömmu minni var nauðgað.“ „Mamma var óþolandi.“ „Vinur minn var myrtur.“ Þetta er aðeins brot af því sem áheyrendur fengu að vita um amerísk-kínverska rithöfundinn Amy Tan á fyrirlestri hennar í Silfurbergssal Hörpu 19. september síðastliðinn. Fyrirlesturinn var hluti af alþjóðlegu ráðstefnunni Art in Translation sem nú var haldin í þriðja sinn. Ráðstefnan leiðir saman skáld og sjónlistamenn í fjölbreytta umræðu um sameiginlega fleti þessara greina og var þemað í ár listin að vera á milli (the art of being in-between).

Mynd: Steinunn Lilja Emilsdóttir

Mynd: Steinunn Lilja Emilsdóttir

Fyrirlestur Amy Tan byrjaði á hefðbundinn hátt. Hún var kynnt á sviðið af Rúnari Helga Vignissyni sem þýddi frægasta verk höfundarins, Leik hlæjandi láns (The Joy Luck Club). Amy hóf síðan mál sitt á því að dásama íslenska náttúru og gera góðlátlegt grín að framandleika íslenska tungumálsins. Því næst las hún brot úr dagbókarfærslum sem hún skrifaði þegar hún var 24 ára. Af þeim var ljóst að Amy hefur lengi haft sterka frásagnarrödd þótt hún hafi ekki byrjað að skrifa skáldskap fyrr en 33 ára gömul og ekki gefið út bók fyrr en 37 ára gömul.

Hér hefði verið tilvalin stund fyrir Amy til að tala um þróun ferils síns eða vinnuferli. Í þéttsetnum salnum voru margir rithöfundar, bæði lengra komnir og byrjendur, sem hefur sjálfsagt þyrst í vitneskju um það hvernig Amy Tan varð strax við útgáfu fyrstu bókar sinnar að virtum metsöluhöfundi. En í stað þess að fara þessa leið hélt Amy áfram á þeim persónulegu nótum sem hún sló með dagbókarlestri sínum. Hún sagði hispurslaust og óhikað frá sínu persónulega lífi auk þess sem hún blandaði þar inn í átakanlegum frásögum af móður sinni og ömmu. Sambönd dætra og mæðra eru Amy hugleikin og eru þau rauði þráðurinn í flestum hennar verkum.

Þær persónulegu sögur sem Amy rakti í Hörpu hafa flestar, ef ekki allar, komið fram einhvers staðar áður, til dæmis á heimasíðu hennar og í ýmsum viðtölum. Þó fékk áheyrandinn á tilfinninguna að hann væri að hlusta á leyndarmál þessarar opinberu persónu. Það var líkt og hún væri ekki að endurtaka persónulegar upplýsingar fyrir hóp af fólki heldur væri á trúnó við hvern og einn áheyranda. Textinn sem Amy flutti var lesinn af blaði en flutningur hennar og framkoma öll var á þann hátt að það var engu líkara en að orðin flæddu óæfð og náttúrulega af munni höfundarins. Sú tilfinning að Amy vildi skapa náin tengsl við áheyrendur skein í gegn þegar rithöfundurinn tók í lokin við nokkrum spurningum úr sal en þær voru sumar hverjar óvenju persónulegar. Eftir að fyrirlestrinum lauk áritaði Amy bækur fyrir aðdáendur sína.

Ljóst er að fyrirlestur Amy Tan var harla óvenjulegur. Áheyrendur vita til dæmis ekki enn hvort Amy byrji að skrifa sögu frá byrjun, enda eða í miðjunni. Ekki heldur hvort hún sitji við skriftir á hverjum degi eða hvenær dags. Þeir vita aftur á móti að ef Amy væri ekki rithöfundur myndi hún vilja vinna sem tónskáld og að hún á tvo hunda sem leika sér gjarnan undir skrifborðinu hennar þegar hún situr við skriftir. Sjálfsagt hefði verið hægt að læra mun meira á fyrirlestri Amy Tan en hann var samt áhugaverður og umfram allt skemmtilegur… alveg eins og gott trúnó á að vera.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone