Ástin er aðallega aðskilnaðarkvíði – Um „Tilfinningarök“ eftir Þórdísi Gísladóttur

BJ THG5

Ástin er aðallega aðskilnaðarkvíði

Tilfinningarök

eftir Þórdísi Gísladóttur (Bjartur, 2015)

 

Sögupersónurnar í ljóðabók Þórdísar Gísladóttir, Tilfinningarökum, eru margar og virðast við fyrstu sýn nokkuð ólíkar. Þegar betur er að gáð eiga þær eitt sameiginlegt einkenni: Að efast um sjálfa sig.  Ljóðmælandi segir nær alltaf frá í þriðju persónu en með örfáum undantekningum, þegar frásögnin er í fyrstu persónu. Þó er auðvelt fyrir lesanda að skynja líðan sögupersóna vegna þess hve nærri ljóðmælandi stendur persónunum, hvort sem þær eru í ástarsorg eða hafa áhyggjur af hækkandi aldri sínum eða útliti.

Bókinni er skipt í þrjá hluta. Í þeim fyrsta er sagt frá miðaldra, einhleypum manni sem hrífst af konum í heita pottinum og elur í brjóstinu sívaxandi ótta við hálkubletti. Sögusvið frásagnarinnar er strætisvagn á virkum morgni í Reykjavík. Hún hefst í Mjódd og endar á Hlemmi og lesandi fær að vera þátttakandi í hugarheimi aðalpersónunnar meðan á ferðinni stendur. Þetta er skemmtileg framsetning enda getur ýmislegt gengið á í huga manns í einni strætóferð.

Annar hlutinn, Skyndimyndir, inniheldur sextán svipmyndir af lífi sextán ólíkra persóna. Sagt er frá konu sem var vön að svelta sig á föstudögum til að vera mjó um helgar, annarri sem geymir pakkaða íþróttatösku undir rúmi og karli sem pantar sér alltaf sterkasta réttinn á matseðlinum þó það valdi honum svita og tárum. Það kannast sennilega allir við þessa manngerð – eða er ekki alltaf einn í hverjum hóp sem þarf að velja sterkasta réttinn? Ljóðin eru mörg grátbrosleg og sýna vel kaldhæðni raunveruleikans. Aðstæður sögupersónanna eru trúverðuglegar og þær sjálfar svo mannlegar að lesandi á auðvelt með að samsama sig þeim.

Í síðasta hluta bókarinnar er söguhetjan fullorðin kona sem greiðir viðbótalífeyrissparnað og mætir alltaf tímanlega en fær stundum „tómleikatilfinningu og langar að stíga svo þungt til jarðar að gangstéttarhellur molni“.  Hér er sleginn alvarlegri tónn en í fyrri tveimur hlutum bókarinnar og óttinn og öryggisleysið spila stærra hlutverk en áður. Ljóðin í þessum bálki eru áhrifamikil án þess að vera dramatísk eða flókin heldur eru þau einlæg og heiðarleg. Frásögnin er eins, eins og í nær öllum ljóðum bókarinnar, í þriðju persónu en ljóðmælandi er áfram mjög nálægur. Hann skefur ekki utan af neinu í frásögn sinni og persónan stendur því berskjölduð frammi fyrir lesanda.

            Tilfinningarök er þriðja ljóðabók Þórdísar Gísladóttur, en hún hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir Leyndarmál annarra árið 2010 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2014 fyrir ljóðabókina Velúr. Aðdáendur Þórdísar verða ekki sviknir af þessari bók en þó er ég viss um að hún á erindi við alla enda fjallar fyrst og fremst það að vera manneskja. Hún segir frá óttanum við að verða ósýnilegur með aldrinum og tekur á tilhneigingu okkar til að máta okkur sífellt við aðra. Um leið er hún hughreystandi og uppörvandi og auk þess eru ljóðin á köflum meinfyndin. Það að setja sig í spor annarra er einmitt það sem gerir lestur svo gefandi og hér gefast mörg og góð tækifæri til þess. Það er því óhætt að segja að þessi bók hafi mannbætandi áhrif.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone