Ástir og samlíðan Helgu frá Grjótá og Adele

Downloads

Nú er liðið á annað ár síðan ég fyrst sökkti nefi niður í kveðskap Helgu Pálsdóttur á Grjótá. Ástæðan var fyrirhuguð bókaútgáfa. Mér, hálfútskrifuðum bókmenntafræðingnum, var ásamt fleirum falið að kanna hvort ástæða væri til að koma kvæðum þessarar gengnu konu á prent. Áttu þau eitthvað erindi við lesendur ársins 2015?

Þar sem ég sökkti mér einbeitt ofaní ljóð eftir ljóð í ótal skjölum, í leit að gluggum horfinna tíma, vísum að kvenréttindabaráttu, heimildum um glötuð störf hnaut ég skyndilega um kunnuglega þúfu. Hér var stórt skjal uppá margar blaðsíður, ferskeytt  söguljóð sem ég áttaði mig ekki fullkomlega á í upphafi. Draumurinn. Í elleftu vísu finnur stúlka fornan vin, sem dreymir úr brúðarsæng borgarinnar heim á æskuslóðir. Ekki eru endurfundirnir markaðir gleði:

Sá hann koma svanna þá,
sem hann þekkti forðum,
harmasvipur huldi brá
og hagaði þannig orðum:

Þú situr hér við soratjörn
og sýnist yndi sviptur.
Áttu ekki orðið börn?
Ertu ei konu giftur?

Yfir mig helltist hin ókennilega tilfinning sem á íslensku er kölluð því óþjála nafni „séð áður“ sem er þýðing á fallega franska frasanum dejá vu. Ókennileg en ekki ókunnug þeim sem oft les og mikið. En hvar hafði ég rekið mig á þessar línur áður? Svarið barst mér úr útvarpsvekjaranum í eldhúsinu. Harmþrunginni röddu kvaddi stórstjarnan Adele unnustann sinn forna:

I heard that you‘re seattled down,
that you found a girl and you‘re married now.
I heard that your dreams came true
guess she gave you things
I couldn´t give to you.

Í raunverunni aðskilur himinn og haf þessar tvær konur. Þær eru fæddar með hundrað og ellefu ára millibili, andlát Helgu er fimmtán árum fyrir fæðingu Adele. Uppeldisskilyrði í koti í Fljótshlíðinni nokkuð önnur en í Tottenhamhverfinu í London. Þegar kemur að tilfinningunum, ástinni og ástarsorginni, bergmála þessar konur þó hvor aðra, þvert á tíma, rúm og almenn kennsl.

Mundu mig, ég man þig. Lifðu í lukku en ekki krukku….

Við tölum oft um textatengsl í skáldskap, þar sem ein saga hefur áhrif á efni annarrar. William H. Gass fjallar um hugtakið sögusagnir (e. metafiction) þar sem saga birtist inní sögu, sögu sem endurritar sig í sífellu. Gass tengir þetta meðal annars skrifum argentínska rithöfundarins Jorge Luis Borgesar, sem einkennast meðal annars af speglum, völundarhúsum og frumlegri textaendurvinnslu. Þetta má t.d. sjá í smásögunni „Pierre Menard, höfundur Kókíta“. Þar segir Borges af uppdiktaða rithöfundinum Pierre Menard sem hyggst endurrita Don Kíkóta. Menard telur bestu leiðina til þess vera að skrifa bókina upp orð fyrir orð. Þannig muni merkingin skila sér til nýrra lesenda. Þetta muni síðan hafa áhrif á lestur og túlkun nýja textans, en einnig ljá frumtextanum nýja merkingu.

Nú er ljóst að ljóðagerð Helgu á Grjótá hefur ekki haft áhrif á textasmíði Adele, né heldur öfugt. En innblástur þeirra er sá sami. Í „Drauminum“ rekur Helga raunir sínar í samskiptum við æskuástina, sem nú er giftur maður í Reykjavík. Í ljóðinu birtist hún honum í draumi, rifjar upp þeirra sælustu stundir, auk sársaukans við aðskilnaðinn. Skilnaðarstundin kallast sterklega á við bæn Adele í margendurteknu viðlagi kvæðisins „Someone like you“.

Ég bað, mundu eftir mér,
arm um háls þér lagði.
Aldrei gleyma eg skal þér,
ansaðir þú að bragði. (H)

En Adele segir;

Don´t forget me, I beg,
I´ll remember you said,
sometimes it lasts in love, but sometimes it hurts instead.

Já, stundum endist ástin en stundum særir hún í staðinn og sársaukinn er Helgu Pálsdóttur ofarlega í huga. Líkt og í tilfelli Adele hefur slitnað uppúr hjá henni og unnustanum. Hún minnist sælustundanna, tímans þegar lífið var í blóma, sem nú er fölnaður. Karlmannstryggðin var hverful þessum konum og ástmögurinn lét drauma sína rætast í örmum annarrar. Engu að síður eru þær ástinni trúar og óska honum einskis annars en hins besta. Hrepptu yndi allstaðar/ auðarhrundu fjærri, segir vinnukonan á Grjótá.

Tímarnir breytast, en mennirnir með?

Ástin talar alheimsmál og ástarsorgin líka. Þó samhljómur þessara tveggja tregaljóða sé svo hreinn að furðu vekur, skilur lokatónninn þau að. Hjartasár Helgu greri seint og illa og lýkur hún ljóði sínu með varnaðarorðum til kynsystra sinna.

Fagurgala, flærð og tál
forðast heims hjá sonum,

…segir hún og varar þær við veigakvistunum. Niðurstaða Adele er á nútímalegri nótum, hún ætlar ekki að sitja Guði vígð kona heldur leita aftur út á miðin. Lesendur ættu þó að setja örlítinn varnagla, því elskhuginn sem hin særða kona leitar, er einhver eins og sá sem hún nú syrgir.

 

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone