Auða lóðin (El baldío)

elbaldio

augusto-roa-bastos-6Augusto Roa Bastos var einn af þekktustu rithöfundum Paraguay á 20. öld og var hluti af Boom-kynslóðinni sem kom rómönsk-amerískum bókmenntum á kortið á seinnihluta 20. aldar. Roa Bastos fæddist 13. júní 1917 í Asunción, Paraguay og hefði því orðið 100 ára gamall í dag. Hann lést hins vegar 26. apríl árið 2005, þá 87 ára að aldri.

Hann tók þátt í Chaco-stríðinu 15 ára gamall sem hjúkrunarmaður og nýtti reynslu sína þar til að skrifa bókina Hijo de hombre (Sonur manns*), sem kom fyrst út 1960. Bókin er sú fyrsta í þríleik hans um Paraguay, en hinar bækurnar eru Yo, el supremo (Ég, hinn mikli*) og El fiscal (Saksóknarinn*). Hann eyddi bróðurparti rithöfundaferlis síns í útlegð, fyrst í Buenos Aires, Argentínu og síðar Toulouse, Frakklandi. Hann hlaut Cervantes-verðlaunin árið 1989 fyrir ritverk sín, og auk þess hlaut hann fjöldann allan af öðrum verðlaunum. Loks sneri hann aftur til Paraguay árið 1996 og þar lést hann 2005.

Skáldsögur hans hafa ekki verið þýddar á íslensku en ein smásaga eftir hann var þýdd árið 1981. Það er sagan Göngin í þýðingu Guðbergs Bergssonar sem birtist í Tímariti Máls og menningar. Sagan Auða lóðin* (El baldío) er því önnur smásagan eftir Roa Bastos sem birtist á íslensku.

*Þýðingar mínar.

Auða lóðin (El baldío) eftir Augusto Roa Bastos í þýðingu Vignis Árnasonar

Þeir höfðu ekkert andlit, flekkóttir, étnir upp af myrkrinu. Ekkert annað en tvær útlínur sem minntu örlítið á menn, líkamarnir runnu aftur saman við skugga sína. Eins, og þó svo ólíkir. Annar óvirkur, á ferð rétt fyrir ofan jörðina með saklausu aðgerðaleysi eða algjöru afskiptaleysi. Hinn hokinn, másandi af áreynslu við að draga hann í gegnum runnaflækjuna og ruslið. Hann stoppaði við og við til að ná andanum. Síðan beygði hann sig aftur yfir byrðina. Lyktin af stöðnu vatninu í læknum hlýtur að hafa verið alltumlykjandi, nú enn frekar vegna dísætu brælunnar sem lagði frá auðu lóðinni, illa þefjandi af ryði og dýraskít. Þessi megna lykt boðaði vont veður, svo að maðurinn bandaði hendinni í sífellu til að bægja henni frá. Brot úr gleri eða málmi rákust saman í illgresinu, þó var víst að hvorugur þeirra myndi heyra þennan lágværa, draugalega, taktfasta söng. Ekki heldur daufar raddir borgarinnar sem þarna virtust titra undir fótum þeirra. Og sá sem hann dró ekki heldur, mögulega heyrðu þeir einungis þetta lágdaufa hljóð er líkaminn dróst eftir jörðinni, sussið frá pappírsafgöngum eða hljóð frá skóm sem rákust í dósir og rusl. Stundum rak hann öxlina í hart kjarr eða einhvern stein. Hann kippti honum upp, muldraði eitthvað einkennilegt og við hvern kipp blés hann frá sér og gaf frá sér andstutt ha… hljóð hafnarverkamannsins þegar hann lyftir upp á axlirnar óþægri byrði.

Það var ljóst að byrðin varð sífellt þyngri. Ekki einungis vegna þessarar óvirku andspyrnu sem birtist í hindrunum öðru hverju. Heldur vegna óttans sjálfs, ógeðsins eða flýtisins sem dró úr honum máttinn og rak hann til þess að ljúka verkinu sem fyrst. Í fyrstu dró hann búkinn á eftir sér á höndunum. Ef nóttin hefði ekki verið svona dimm hefði mátt sjá tvö pör af höndum halda í hvor aðra, öfuga mynd af lífsbjörg á hvolfi. Þegar líkaminn kræktist í eitthvað aftur, tók hann í báða fæturna og dró hann upp og sneri baki í hann, hann hallaði sér mikið fram og gróf sig niður með fótunum. Höfuðið á hinum skoppaði glaðlega og virtist heillað af breytingunni. Gult ljós frá bíl sem beygði varpaði skyndilega birtu í bylgjum yfir ruslahaugana, yfir illgresið og yfir mishæðirnar í jarðveginum. Sá sem dró búkinn teygði sig yfir til hins. Eitt andartak í þessari daufu birtu, mátti sjá glitta í föl andlit, annað þeirra skelkað, hitt fullt af mold, þeir hreyfðu sig ekki. Myrkrið gleypti þá strax aftur. Hann reisti sig við og hélt áfram að draga hinn aðeins lengra, en núna voru þeir komnir á stað þar sem runnaflækjan gnæfði yfir öllu. Hann kom honum fyrir eins vel og hann gat, svo huldi hann búkinn með rusli, þurrum greinum og steinhnullungum. Það var eins og hann vildi ómeðvitað vernda hann frá lyktinni sem var alltumlykjandi á auðu lóðinni eða frá rigningunni sem fyrr en síðar átti eftir að falla. Hann stoppaði og strauk hendinni yfir svitastorkið ennið, ræskti sig og skyrpti af bræði. Þá heyrði hann þennan grát sem gerði honum hverft við. Gráturinn barst veikur og kæfður frá illgresisblettinum, eins og hinn hefði byrjað að kvarta með því að væla eins og nýfætt barn undir rusladys sinni.

Hann ætlaði að flýja, en stoppaði blindaður af ofbirtu frá eldingarblossa, sem dró einnig málmvirki brúarinnar fram úr myrkrinu. Það sýndi honum hversu stutt hann hafði farið. Hann laut höfðinu í uppgjöf. Hann fór niður á hnén og nálgaðist kæfðan, ágengan grátinn og gat næstum því lyktað af honum. Nálægt haugnum var hvítleitur böggull. Maðurinn stóð lengi kyrr án þess að vita hvað hann ætti að gera. Hann reis upp, skjögraði nokkur skref, en gat ekki haldið áfram. Núna kallaði gráturinn á hann. Hann hörfaði smám saman til baka, varlega og var móður. Hann beygði sig niður aftur hikandi. Síðan rétti hann út hendina. Það skrjáfaði í pappírnum utan um böggullinn. Innan um dagblaðapappírinn mótaði fyrir einhverju smáu og mannlegu. Maðurinn tók það í fangið. Hreyfingar hans voru klunnalegar og viðvaningslegar, hreyfingar einhvers sem veit ekki hvað hann er að gera en getur samt sem áður ekki hætt. Hann stóð hægt upp, líkt og hann fylltist viðbjóði við það eitt að kynnast óvænt slíkri blíðu sem var eins og bjargarleysið uppmálað og hann tók af sér jakkann og vafði honum utan um blautt, grátandi krílið.

Hann fór sífellt hraðar og fjarlægðist illgresisblettinn, næstum því á hlaupum. Hann hvarf inn í myrkrið.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone