Bélier fjölskyldan: Hrífandi fjölskyldusaga eða endurunnin tugga?

klisja_emouvant

Bélier fjölskyldan eða La famille Bélier er nýjasta mynd franska leikstjórans Eric Lartigau. Myndin skartar leikurunum Karin Viard og Francois Damiens ásamt nýstirninu Louane Emera. Sú síðastnefnda hefur nú byrjað að skapa sér orðspor sem poppstjarna í heimalandinu en hún uppgötvaðist í gegnum frönsku útgáfu The Voice raunveruleikaþáttanna.

Ég fór með kærasta mínum, Davíð, á myndina sem sýnd var á nýafstaðinni franskri kvikmyndahátíð í Háskólabíói og Borgarbíói. Eftir sýninguna spjölluðum við svo aðeins saman og í ljós kom að við gátum vart verið meira ósammála um myndina og allt sem henni viðkom. Hérna á eftir mun ég reyna að koma sjónarmiðum okkar beggja sem best til skila, en fyrst koma smá upplýsingar um myndina.

Bélier fjölskyldan er á margan hátt nokkuð dæmigerð saga um raunir unglingsstúlku sem vill verða söngkona. Eins og oft í svona myndum er aðalsögupersónan með draum en þarf að yfirstíga ýmsar hindranir til þess að ná honum. Það lítur ekki út fyrir að það muni takast en fyrir undravert þrautseigi/heppni/hæfileika eða blöndu af öllu þrennu hefst það á síðustu metrunum.

Hin 16 ára Paula Bélier er eini aðilinn í fjögurra manna fjölskyldu sem heyrir;  báðir foreldrar  og yngri bróðir hennar eru heyrnarlaus. Við sjáum fljótt að foreldrarnir eru furðu ósjálfbjarga, lesa greinilega illa af vörum og hafa ekki lært að tala (eða mynda hljóð) nema að mjög takmörkuðu leyti. Þau reka kúabýli og selja mjólkurafurðir á bændamörkuðum þar sem Paula þarf mikið að hjálpa þeim. Hún sér í raun um öll samskipti fjölskyldunnar við hinn ytri heim

Þegar tónlistarkennari uppgötvar svo sönghæfileika Paulu og hvetur hana til þess að sækja um nám í virtum tónlistarskóla í París flækjast málin fyrir hana og hún þarf að velja á milli þess að eltast við ástríðu sína eða halda áfram að styðja fjölskylduna.

Samtalið

Elísabet: Takk fyrir að koma með mér á myndina, ég veit að þetta er kannski ekki mynd sem þú myndir undir venjulegum kringumstæðum velja að fara á.

Davíð: Já, ekkert mál, bara gaman þó svo að ég verði að viðurkenna að ég var nú ekkert sérstaklega hrifinn af myndinni.

Elísabet: Nú! Í alvöru? Mér sem fannst hún svo frábær…

Davíð: Já, mér fannst hún bara svo ófrumleg, ég hef séð þetta allt gert áður.

Elísabet: En er ekki bara allt í lagi að fara eftir ákveðinni formúlu á meðan myndin gerir það vel og þrífst vel innan rammans sem hún setur sér?

Davíð: Þetta voru samt bara klisjur á klisjur ofan. Áheyrnarprufan var beint úr Flashdance eða Billy Elliot og erfiða fjölskyldan sem skilur ekki gáfur unglingsins á heimilinu og allt þetta. Og svo var hún, Paula, nokkuð myndarleg stelpa sem var bara í asnalegum fötum og bar sig illa fyrri helming myndarinnar svo hún gæti svo orðið rosa sæt undir lokin.

Elísabet: Ég sé hvað þú átt við þó ég sé nú samt ekki algerlega sammála. Mér fannst Paula vera svipuð alla myndina, það var ekkert svaka „reveal“ í lokin þar sem við sáum að hún væri í alvörunni rosa falleg þó hún þroskaðist auðvitað eftir því sem sagan þróaðist. En hreif myndin þig ekkert með sér? Fannst þér ekkert átakanlegt að ástríða Paulu hafi verið hlutur sem foreldrar hennar gátu aldrei skilið eða deilt með henni?

Davíð: Mér fannst sagan bara ekki virka nógu vel, hún var of fyrirsjáanleg. Það er helst hægt að segja það myndinni til varnar að hún vissi af klisjunum á einhvern hátt. Öll lögin eru eftir einhvern hallærislegan Frakka sem er ekkert sérstaklega „current“ og er alger klisja í sjálfum sér…

Elísabet: Michel Sardou, já. Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að hann sé svona Björgvin Halldórsson eða Haukur Morthens þeirra Frakka.

Davíð: Já, einmitt, ég ímyndaði mér að þetta væri svona eins og að syngja Til eru fræ – það hefur verið gert rosalega oft og er alveg allt í lagi en ef þú gerir það nógu vel þá verður það æðislegt.

Elísabet: Og hún gerði það einmitt rosalega vel! Ég skil til dæmis ekki hvernig þú fórst að því að gráta ekki þarna í síðasta atriðinu!

Davíð: Nei! Þetta var svo mikil tugga! Gátu þau valið augljósara lag!?

Elísabet: En þegar hún fer að þýða sönginn yfir á táknmál á meðan hún syngur… [þerrar ímynduð tár úr hvarmi].

Davíð: Það var bara verið að ráðskast með áhorfendur þar, fannst mér. Og hvað með þegar hún var að syngja fyrir framan allan skólann og það var slökkt á hljóðinu svo við upplifðum atriðið eins og foreldrar hennar voru að upplifa það?

Elísabet: Já! Mér fannst það einmitt svo áhrifaríkt!

Davíð: Úff! Fyrir mér var þetta dæmi um hvernig myndin hélt alltaf að hún væri að segja manni eitthvað en í rauninni var þetta svo augljóst. Við vorum búin að sjá það á foreldrunum að þeim leiddist, það þurfti ekki að slökkva á hljóðinu til að við áttuðum okkur á því.

Já, en fannst þér samt ekki magnað hvernig við fengum að upplifa það sama og þau?

Elísabet: Já, en fannst þér samt ekki magnað hvernig við fengum að upplifa það sama og þau?

Davíð: Nei, bara asnalegt.

Elísabet: Núna þekkir þú aðeins til í heimi heyrnalausra þar sem mamma þín var heyrnleysingjakennari í mörg ár. Fannst þér myndin ekki sýna okkur þann raunveruleika vel? Hvernig heyrnalausir er miklu einangraðri en fólk gerir sér grein fyrir, að þeir lifa í raun í samfélagi útaf fyrir sig með sitt eigið tungumál.

Davíð: Nei, þetta var ekkert nýtt. Allavega ekki fyrir mér.

Elísabet: Hvað með þegar mamman játar að hafa orðið fyrir vonbrigðum þegar þau komust að því að Paula gat heyrt? Og hún segir við Paulu að hún hati fólk sem heyrir?

Davíð: Mér fannst það aðallega alveg skelfilegt, að segja svona við barnið sitt. Hvers konar móðir gerir það?

Elísabet: Maður hefur þó ekki séð þennan raunveruleika sýndan í kvikmyndum áður?

Davíð: Nei, kannski ekki.

Elísabet: Ég neita því ekki að þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta bara svona feel good mynd en mér finnst hún vel heppnuð sem slík. Hún er ekki að gera neitt nýtt hvað viðkemur kvikmyndagerð eða frásagnarstíl en það þarf ekki alltaf að vera að finna upp hjólið. Það er ástæða fyrir því að formúlur verða til, það er af því að þær virka og fyrir mér virkaði þessi mynd algerlega.

Davíð: Já, þar erum við ósammála [hlær].

Elísabet: Þú ert annars sá eini sem ég hef talað við sem hefur ekki fílað þessa mynd en kannski, til þess að sýna þér sanngirni, er ágætt að það komi fram að hinir eru annað hvort franskar konur eða fólk á sjötugsaldri.

Davíð: Það er ábyggilega rétt hjá þér, ég er ekki í markhópnum fyrir þessa mynd en góð mynd er góð mynd, sama hvort hún er ætluð konum eða körlum. Og þetta er bara hreinlega ekki góð mynd.

Elísabet: Við verðum víst bara að vera ósammála um þetta.

Davíð: Já, svoleiðis gerist stundum.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone