Brúður Frankenstein

Sýnd í Bíó Paradís 12. september klukkan 20.00

The Bride of Frankenstein kom út árið 1935 og var ein af mörgum framhaldsmyndum hinnar löngu klassísku Frankenstein. Boris Karloff endurtók hlutverk sitt sem Skrímslið en það var leikkonan Elsa Lanchester, í stuttu hlutverki sínu sem Brúðurin, sem stal senunni og tryggði kvikmyndinni framhaldslíf.
Myndin er beint framhald forverans og fjallar um tilraun Viktor Frankenstein til þess að skapa maka handa Skrímslinu.

cover
Útkoma hennar er hin löngu klassíska brúður, sem með sínu rafmagnaða útliti hefur skapað sér einstakan sess, bæði í költheimum og ekki síður dægurmenningunni. Nægir að endurskapa hárgreiðslu hennar til þess að tilvísunin sé augljós, líkt og vísað er í Skrímslið með því að endurskapa útlit þess.

Útlit kvikmyndarinnar sjálfrar er undir sterkum áhrifum frá þýskri kvikmyndagerð þess tíma, líkt og allar klassísku Universal hrollvekjurnar. Helsti áhrifavaldurinn hefur einatt verið nefndur Das Cabinet des Dr. Caligari (1920). En þó má sjá áhrif frá fleiri þýskum kvikmyndum þess tíma í hrollvekjum Universal, enda var Þýskaland brautryðjandi í kvikmyndagerð um þetta leyti. Önnur þýsk kvikmynd, Metropolis (1927) í leikstjórn Fritz Lang, er greinilegur áhrifavaldur í Brúður Frankenstein. Einn þekktasti kvikmyndatökumaður Universal kvikmyndaversins var hinn þýski Karl Freund og tók hann upp Metropolis skömmu áður en hann flutti til Bandaríkjanna.

Það tók leikstjórann James Whale langan tíma að samþykkja að gera þessa framhaldsmynd og hugleiddu framleiðendur kvikmyndaversins að gera myndina án hans. Ein af hugmyndum þeirra var að Henry Frankenstein myndi finna upp dauðageisla (e. death ray), við upphaf heimstyrjaldarinnar. Skemmst er frá því að segja að James Whale tók að sér leikstjórn um síðir og fékk algjöra listræna stjórn á verkefninu. Þrátt fyrir það var myndin mikið klippt til eftir fyrstu sýningar og er upprunalega útgáfan 15 mínútum lengri en sú sem var tekin til sýninga í kvikmyndahúsum.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone