Dans fyrir lestur

wtGadi-Dagon

Um dansverkið Walk + talk, eftir Ernu Ómarsdóttur, Margréti Bjarnadóttur og Philipp Gehmacher

Philipp Gehmacher er austurrískur dansari sem hefur verið að vinna með snertiflöt talaðs máls og dans frá árinu 2008. Nú í ár tók hann þátt í Reykjavík Dance Festival og fékk þær Margréti Bjarnadóttur og Ernu Ómarsdóttur til liðs við sig til að skapa sýningu út frá sama útgangspunkti. Verkið samanstóð af þremur sólóum þar sem hver dansari fyrir sig lýsti því hvað væri á bak við hreyfingarnar og velti upp spurningum um hreyfingar almennt og hvað það er að vera dansari.

Það skilur enginn nútímadans

Hlutverk dansarans hefur breyst mjög mikið á undanförnum áratugum og kannski eru hreyfingar þess vegna flóknari fyrirbæri en þær virðast. Hreyfingar eru nefnilega ekki alltaf bara hreyfingar. Á bak við þær liggur eitthvað meira, hvort sem það eru tilfinningar, pælingar eða bæði og hvort sem þær koma frá dansara eða ekki. Hreyfingar geta líka verið ósýnilegar. Þær geta verið innvortis eða útvortis. Svo getur innvortis hreyfing orðið að útvortis hreyfingu o.s. frv.

Í verkinu Walk + talk héldu dansararnir fyrirlestur um eigið vinnuferli og hvernig þeir skynjuðu líkama sinn á hreyfingu. Útkoman varð því  blanda af fyrirlestri og dansi sem virkaði sérstaklega vel sem kynning á þessu listformi.

Sem listgrein er dans svolítið sér á báti hvað varðveislu varðar og þess vegna eru meiri líkur á að dansverk gleymist, glatist eða að sú vinna sem dansarinn hefur unnið sé kannski ekki virt að vettugi. Að vísu er hægt að nota stafræna tækni til að taka verkin upp en dans sem er tekinn upp er ekki eins og dans sem er dansaður í rauntíma, lifandi flutningur er alltaf sterkari en upptaka nema um sérstaka dansmynd sé að ræða. Í verkinu Walk + talk héldu dansararnir fyrirlestur um eigið vinnuferli og hvernig þeir skynjuðu líkama sinn á hreyfingu. Útkoman varð því  blanda af fyrirlestri og dansi sem virkaði sérstaklega vel sem kynning á þessu listformi. Sú nálgun vekur jafnframt upp spurninguna hvernig hægt sé að dansa og halda fyrirlestur á sama tíma. Skilst þá eitthvað af því sem sagt er eða verður dansinn kannski aukaatriði? Vaknar þessi spurning kannski út frá dræmum skilningi á nútímadansi?

Að fara úr húðinni og birtast og hverfa á sama tíma

Þessi blanda vel  tókst upp í verkinu, hvort sem textinn var fluttur á meðan dansað var eða ekki. Með blöndunni komu fram margar útgáfur af svörum, t.d. um hvað það er að vera dansari eða hvað er hreyfitungumál. En svo var þetta líka mjög persónulegt því þarna útskýrðu dansararnir ekki bara hvað þeir voru að gera heldur sögðu líka þroskasögu sína sem listamenn. Sólóin voru þess vegna mjög ólík.

Erna Ómarsdóttir útskýrði til dæmis hvernig hún fer úr húðinni í einni hreyfingunni og þegar hún sagði það sáu áhorfendur það líka. Samkvæmt henni dansar hún auk þess betur þegar hún öskrar. Svo lýsti hún kynnum sínum af hryllingsmyndum frá því hún var 8 ára. Hún útskýrði hvaða hreyfingar fengju hana til að finnast eins og hún flygi, vitnaði í verkin sem hún hefur gert og útskýrði uppáhalds hreyfinguna sína. Slamm. Hvernig það er bæði andlegt og róandi. Hvernig hægt er að fá útrás fyrir óargadýrið sem verður stundum brjálað og þarf að komast út. Og sem mallar bara leiðindi í okkur ef það fær ekki sitt pláss.

Mynd eftir Gadi Dagon

Mynd eftir Gadi Dagon

Philipp var allt öðruvísi. Uppáhaldshreyfing hans er útréttur handleggur, aðallega vegna þess að í hreyfingunni teygir hann sig út að endamörkum líkamans. Vangaveltur hans sneru sem sagt mikið að líkamanum í rýminu, að sjálfinu, heiminum og tengingunni þar á milli. Hann velti fyrir sér hugsuninni og ljóðrænunni á bak við hreyfingar, t.d. að með því að snúa sér í hringi hverfi maður og birtist nánast á sama tíma og hvernig það er að vera með vitundina inni í sér og utan við sig.

Margrét lýsti ferli sínu sem dansara, hvernig dansnám mótar manneskjuna sem geimveru á margan hátt og í einni hreyfingunni var eins og hún sneri bæði fram og aftur á sama tíma. Hún tók það fram í upphafi að hún ætlaði að dansa nákvæmlega eins og henni liði á meðan hún héldi fyrirlesturinn og það framkallaði þau áhrif að allt sem hún gerði varð mjög áhugavert. Í sólóinu hennar kristallaðist einna best hvernig dansarar hugsa á hreyfingu og hvað það er í rauninni skrýtið að tileinka sér þetta listform.

… í rauninni var hún bæði fyrir dansnörda og fyrir þá sem skilja alls ekki nútímadans

Afhjúpun og endurnýjun

Hér verður ekki farið út í að bera verkin sérstaklega saman en þau voru öll ólík. Erna vitnaði í fyrri verk, var persónuleg, rosaleg og sjarmerandi inn á milli eins og venjulega. Samt sem áður hefði verið gaman að sjá nýjar nálganir eða nánari útskýringar, kannski ennþá meiri afhjúpun. Philipp var með mjög ljóðrænan fyrirlestur um hreyfisvið og umhverfið sem líkaminn getur spannað sem kveikti á áhugaverðum vangaveltum um mannlega tilvist. Samtal Margrétar við áhorfendur var sérstaklega vel heppnað því það var bæði frumlegt og einlægt á sama tíma. Þessi afhjúpun, eða persónulega fórn fyrir listina gerði það að verkum að maður hélt áhuganum allan tímann og eitthvað í áhorfandanum endurnýjaðist eða óx.

Mynd eftir Gadi Dagon

Mynd eftir Gadi Dagon

Þessi sýning er án efa mikilvæg fyrir dans sem listgrein vegna þess að í rauninni var hún bæði fyrir dansnörda og fyrir þá sem skilja alls ekki nútímadans. Verkið gaf á sama tíma áhugaverða innsýn í dans sem listform og mannlega tilvist dansara. Heildarútkoman var sterk og skildi eftir margar vangaveltur. Það er greinilegt að Reykjavík Dance Festival er orðinn ómissandi þáttur í íslenskri dansmenningu.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone