Dans, spuni og pólitík í Tjarnarbíó – Viðtal við Juliette Louste

DSCF2612

Það er mikið um að vera í Tjarnarbíói þessa dagana þar sem franska sviðslistakonan Juliette Louste hefur aðsetur. Hún hefur starfað sem húslistamaður og tæknistýra Tjarnarbíós undanfarna mánuði, en hún er dansari að mennt og kemur hingað til lands frá Barcelona. Hún vinnur nú að sínu þriðja verki hérlendis, áður hún heldur heldur áfram með sýninguna til Evrópu.

Sýningin, eða öllu heldur verkefnið, Dracula’s Pack, er sérstök sýning. Louste gengur til verks með pólítískan boðskap á hjarta, og er ætlunin að vekja áhorfendur til vitundar um áhrifamátt sinn í lýðræði nútímans. Verkið byggir að stórum hluta á spuna, og er í stöðugri þróun, og verða því engar tvær sýningar eins. Louste hefur fengið til liðs við sig fjölmennan hóp alþjóðlegra tónlistarmanna, dansara og leikara til að taka þátt í uppsetningu sýningarinnar hérlendis, og verður Dracula’s Pack frumsýnt í Tjarnarbíói 23. júní næstkomandi.

DSCF2653

Juliette Louste á sviði Tjarnabíó

Röð stórfenglegra tilviljana að ég endaði á Íslandi

Aðspurð um komu sína til Íslands segir Louste að það hafi verið röð stórfenglegra tilviljana sem réð því að leið hennar lá hingað:

,,Ísland var aldrei inni á kortinu hjá mér. Ég var að vinna fyrir stóra danshátíð í Barcelona þegar ég kynntist Shalala-danshópnum, Ernu Ómarsdóttur og Valdimari Jóhannssyni eitt kvöldið. Þau buðu mér að koma með sér til Íslands og vinna þar, sögðust hafa sambönd sem ég gæti unnið áfram með. Þannig lá leið mín á Reykjavík Dance Festival og skyndilega var ég farin að vinna fyrir Tjarnarbíó.”

Louste segir Ísland hafi á þeim tíma vakið lítinn áhuga hjá henni ,,Ég hélt að Ísland væri bara svona túristastaður og hafði í raun frekar lítinn áhuga. En Erna og Valdimar sögðu mér að hér væri mikið og feykiöflugt listalíf og hef ég ekki orðið fyrir vonbrigðum með það. Úr því spratt síðan traust og gott samstarf við Tjarnarbíó”

Louste hefur frá ársbyrjun séð um tæknistjórn hjá Tjarnarbíói, og gegnir hún fyrst kvenna því starfi.

Allt byrjar og endar í spuna

Sýningar Louste eru listfengnar og dularfullar, en Louste leitast við að sameina spunaaðferðir mismunandi listgreina í sýningum sínum, allt frá tónlist yfir í leiklist og yfir í dans. Í Tjarnarbíói teflir Louste nú saman tónlistarfólki og dönsurum erlendis frá, í bland við innlenda listamenn.

DSCF2647

,,Ég hef unnið mikið með djasstónlistarfólki í áranna rás og það hefur haft mikil áhrif á það hvernig ég vinn. Þannig vinn ég með stef, eins og í djassi, sem verða síðan að lífrænu samtali listafólksins á milli. Mér finnst ekki að ég sé að skapa, í sjálfu sér, en að ég sé mikið frekar að leiða saman ólíkar raddir í heilsteypt verk. En allt byrjar þetta og endar í spunanum og samtalinu.”

Louste segir enn fremur að það séu mikil forréttindi að fá að vinna með alþjóðlegum hópi listafólks, en það sé ekki alltaf auðvelt ,,Það er krefjandi að vinna með spunaverk í stórum hópi, það eru alltaf margar skoðanir uppi á borðunum. En ég er heppin að hafa með mér gott fólk sem er mjög fagmannlegt og hefur mikla reynslu.”

Fyrir Louste fjalla sviðslistir fyrst og fremst um það, að fólk skiptist á þekkingu og reynslu. ,,Listir eru ekki sápukúlur, heldur lífræn heild tjáskipta. Það á við bæði um áhorfendur og listafólkið sjálft. Ég læri af því að vinna með öðru listafólki en líka af því að sýna verkin mín fyrir áhorfendur.”

Við getum öll verið boðberar samfélagslegra breytinga, ef okkur langar. Margt smátt gerir eitt stórt.

Sýningarnar eru líka sköpun

Louste segir það snaran þátt í sinni vinnu að sýningarnar verða þáttur af sköpunarferlinu: ,,Vissulega! Sýningarnar eru óaðskiljanlegur hluti af ferlinu. Þar verða áhugaverðustu samtölin til. Undir þessum aðstæðum, þegar áhorfendur eru komnir í salinn, verða til hreyfingar og samtöl listafólksins á milli sem hefðu aldrei átt sér stað í æfingarsalnum.”

DSCF2644

Louste segir það að skapa í hópi sé skemmtilegt ferli og afar lærdómsríkt: ,,Veistu, mér finnst ég alltaf læra meira og meira um sjálfa mig, því meira sem ég skapa með öðrum. Það að búa til verk með öðrum er minn stærsti skóli. Ég fæ fleiri hugmyndir um hvað mig langar að gera í framtíðinni þegar ég vinn með öðru listafólki.”

Heimurinn er ruglaður og ég ákvað að gera eitthvað í því

Í Dracula’s Pack í Tjarnarbíói, segist Louste takast á við hugðarefni sem hafi fylgt henni lengi, en hún segir verkið í grunninn vera pólítískt upphróp.

,,Veistu, mér finnst heimurinn okkar bara vera orðinn svo ruglaður að ég ákvað að gera eitthvað í því!”, segir Louste og hlær. Hún heldur áfram og segir að Í listinni getum við varpað nýju ljósi á þau mál sem okkur eru hugfólgin. ,,Í þessu tilviki er erindi okkar pólítískt – mig langar að vekja fólk til umhugsunar um hvaða mátt það hefur í raun og veru. Við getum öll verið boðberar samfélagslegra breytinga, ef okkur langar. Margt smátt gerir eitt stórt.”

DSCF2658

Louste segir áhorfendur hafa sérstaklega mikil áhrif í Dracula’s Pack en þeim sé boðið að taka þátt með mjög beinum hætti.

,,Ef við viljum hafa áhrif þá verðum við að byrja einhvers staðar. Svo við ákváðum að bjóða áhorfendum að hafa áhrif á það hvernig komandi sýningar verða með kosningaseðlum. Við vonum að þetta muni leggjast vel í Íslendinga, sérstaklega þegar forsetakosningar eru rétt handan við hornið”

Sýningin Dracula’s Pack verður sýnd í Tjarnarbíói  23. júní, 29. júní, 2. júlí og 5. júlí. Frekari upplýsingar um sýninguna má nálgast á Facebook og á heimasíðu Tjarnarbíós og miða má kaupa á midi.is

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone