Dreifbýlistúttur og dramatík: Jómfrúarferð í óperuna með pabba á Don Carlo

_D1J1684

Ég læsi bílnum og fer þegar að skima eftir útgönguleið. Ég geng upp nærliggjandi tröppur og þegar ég nálgast dyr sem vísa mér út teygi ég mig í átt að hurðarhúninum. Hurðinni er rykkt upp og mér dauðbregður. Brosandi andlit blasa við mér, ferðamenn. Ég glotti með sjálfri mér. Sennilega hef ég horft á aðeins of margar bíómyndir sem tengjast skuggalegum bílakjöllurum. Ég þramma upp Vesturgötuna og þegar ég nálgast hús föður míns sé ég hvar hann stendur prúðbúinn á tröppunum. „Ég lagði í bílakjallara hér fyrir neðan. Förum við ekki bara á mínum bíl,“ segi ég og hann svarar „Nei, við göngum bara. Þetta er svo stutt.“ Við röltum niður Vesturgötu og í átt að sjónum. Harpan blasir við okkur í bleiklitum skrúða og mynd hennar speglast í tjörninni sunnan hennar. Ég smelli af mynd. Við göngum inn fyrir og komum okkur fyrir í sætum okkar, á næstfremsta bekk í Eldborgarsal. „Góð sæti,“ segi ég og faðir minn samsinnir því. Þetta er fyrsta skiptið okkar beggja í óperu og við erum að vonum fremur spennt, dreifbýlistútturnar, bæði fædd og uppalin í sveit. Auk þess er stórfrænka okkar, Helga Rós frá Hvíteyrum, í einu af aðalhlutverkum og erum við töluvert hreykin af því.

Örvinglaður Don Carlo

Við fyrstu sýn virðist sviðsmyndin fremur einföld, rauðlitir veggir í bakgrunni og stærðarinnar kross sem hangir úr loftinu örlítið skakkur nokkurn veginn fyrir miðju sviði. Altaristafla hinnar konunglegu kirkju blasir við fyrir aftan krossinn og það er lítið rimlahlið fyrir neðan hana. Heiti óperunnar, Don Carlo, stendur skrifað á tveimur skjáum sitthvoru megin sviðsins ofan veggjanna rauðlitu. Hljómsveit Íslensku óperunnar hefur upp tóna sína, dyr opnast beggja vegna sviðsins, til hliðanna og að framan.  Inn á sviðið gengur örvæntingarfullur karlmaður, Jóhann Friðgeir í hlutverki Dons Carlos. Hann ráfar um í svolítinn tíma og að lokum streyma tvær fylkingar manna inn á sviðið úr sitthvorri áttinni. Annars vegar eru karlmenn klæddir rauðum og hvítum kuflum með krossi framan á, munkar, en hins vegar svartklæddir karlmenn. Ég rek augun í kunnuglegt andlit meðal svartklæddu mannanna, hnippi í pabba og hvísla að honum: „Hey, er þetta ekki Ásgeir frændi?“ Faðir minn pírir augun bak við gleraugun, horfir um stund og svarar að lokum játandi.

Don Carlo

Helga Rós Indriðadóttir og Oddur Jónsson sem Elisabetta og Rodrigo

Upphafsatriðið virðist vera jarðarför sem skyndilega breytist í brúðkaup en sagan sjálf hefst árið 1556 þegar Karl V keisari hefur sagt af sér. Hann skipuleggur eigin jarðarför og sest í helgan stein í San Jeronimo-klaustrinu í Yuste. Sonur hans Filippus II tekur við völdum og ræður ríkjum á Spáni við upphaf óperunnar. Til að halda frið við Frakkland kvænist Filippus Elisabettu af Valois, dóttur Hinriks II Frakklandskonungs, en hún var áður lofuð Don Carlo, syni Filippusar. Don Carlo er eðlilega fremur svekktur yfir brúðkaupi föður síns og heitmeyjar sinnar og nær Jóhann Friðgeir Valdimarsson að túlka sorg hans afbragðsvel þar sem hann ráfar örvinglaður um sviðið á meðan á brúðkaupinu stendur. Á einum tímapunkti teygir Don Carlo hönd sína út til móts við hönd Elisabettu, hinnar nýju drottningar, en þá slær brúðguminn á hönd hans og leiðir brúði sína upp að altarinu. Þá er föður mínum skemmt og mér sömuleiðis en líklega á þetta ákveðna atriði ekki að vekja upp hlátur enda hádramatískt verk með eindæmum, líkt og gjarnan er með óperur.

Góð sæti en lítill skilningur

Fyrst um sinn sitjum við feðginin dáleidd og njótum söngsins en þegar líður á fyrsta þáttinn skynja ég að okkur þyki báðum verra að skilja ekki um hvað hann fjallar. Þá verður mér litið upp rauðlita vegginn; á skjáina þar sem áður stóð heiti óperunnar og kemst að því að þar birtist söngtextinn. Ég bendi föður mínum hróðug á uppgötvun mína en fljótlega rek ég mig á annað vandamál; sætin eru ekki þau bestu í salnum þótt framarlega séu því þaðan sést textinn ekki nógu vel og eru einstök orð hans hulin. Það kemur þó ekki að sök því þau orð sem vantar á skjáinn vinstra megin er hægt að greina til hægri. Við feðginin erum ákaflega lausnamiðuð og snúum því höfðum okkar í sífelldu til vinstri og hægri til að fanga hvert orð en það skapar enn annað vandamál, nefnilega heilmikinn hálsríg. Þegar fram í sækir finn ég ágæta lausn á því, ég halla mér einfaldlega örlítið aftur í sætinu og læt höfuðið hvíla á stólbakinu þegar ég sný því til hliðanna. Enn síðar uppgötvum við að óperan gengur út á sífelldar endurtekningar.

Til að mynda deyr einn söngvaranna um það bil sjö sinnum í röð og því þurfum við ekki að lesa textann nema einu sinni til að vita hvað er að gerast hverju sinni. Þegar við síðan áttum okkur á því hvernig óperan virkar; áttum okkur á töfrum hennar, getum við farið að njóta sýningarinnar til fulls. Ég varð  fyrir sömu hughrifum og vændiskonan Vivian Ward í Pretty Woman, þegar hún sat á óperusýningu, hlæjandi og grátandi í senn. Sviðsmyndin breytist úr því að vera grafreitur í kirkju, í konungshöll, hallarsali, hallargarð. Rauðlitu veggirnir færast til og breytast í háar hallartröppur sem gliðna og koma saman til skiptis eftir því hvað á við hverju sinni. Sviðsmyndin er mjög glæsileg og áhrifarík, þótt hún virðist við fyrstu sýn einföld býður hún upp á ótal möguleika.

Skærir litir og svik

Búningarnir eru látlausir og yfirleitt stílhreinir og kallast gjarnan á við hugarástand persóna. Þannig birtist Don Carlo sjálfur tötraralegur í ósamstæðum fötum, teinóttum buxum, hvítri fráhnepptri skyrtu og síðum rykfrakka og velti ég því fyrir mér hvort hér sé virkilega á ferðinni „Rómeó“ sögunnar. Útgangurinn á þó líkast til að endurspegla innri líðan en snyrtilegur kórinn bætir upp fyrir subbulegan klæðnað Don Carlo; íklæddir svörtum jakkafötum, hvítum skyrtum og svörtum nýpússuðum skóm. Elisabetta drottning er hins vegar ætíð hvítklædd til marks um hreinleika sem og flestar hirðmeyjar hennar; að frátalinni Eboli prinsessu en hún er sú eina sem raunverulega klæðist skærum litum. Lengi framan af er hún í appelsínugulum kjól og ber litaðar slæður; hún er fáguð, snyrtileg og með öllu óaðfinnanleg. Ég velti því fyrir mér hvort útlit Eboli endurspegli þá persónu sem hún hefur að geyma og að þar sé hún að reyna að klæða af sér og hylja sín réttu einkenni. Þó þykir mér litavalið reyndar gefa það ágætlega til kynna enda virkar appelsínugulur litur fremur smekklaus á svo glæsilegri konu. En kannski á hún bara að vera litblind! Hver veit. Grunur minn reyndist réttur: Eboli prinsessa er eins konar Júdas sögunnar, hún svíkur drottninguna, en þegar hún hefur viðurkennt svik sín og sýnt sitt rétta andlit klæðist hún svörtum kjól og hár hennar flaksar villt og úfið um herðarnar. Það finnst mér töff.

Eboli

Hanna Dóra Sturludóttir sem Eboli

Vantar lófatak í óperuna?

Þegar líður á sýninguna gerum við faðir minn okkur grein fyrir að sjálfsagt verður ekki gert hlé á henni. Við sitjum því áfram eins og sönnum óperugestum sæmir og fylgjumst grafalvarleg með. Dramatíkinni vindur fram með senum sem fjalla um ást sem ekki fær að blómstra milli Spánardrottningar og hins nýja fóstursonar hennar, Don Carlos. Eboli prinsessa er ástfangin af Don Carlo en þegar hún uppgötvar að hann ber ást til drottningarinnar hótar hún hefndum. Konunginn grunar að eitthvað misjafnt sé í gangi milli sonar síns og konu sinnar og lætur fylgjast með þeim. Undir lokin er Don Carlo varpað í fangelsi og sviðið stendur í ljósum logum. Flottur endir hugsa ég. Tveir tímar eru liðnir af sýningunni og sýningargestir rísa úr sætum sínum. Okkur föður minn undrar að söngvararnir og aðrir sem tekið hafa þátt í sýningunni séu ekki hylltir með ærlegu lófataki eins og gjarnan er í lok sýninga og við höfum orð á því þegar við göngum út. „Þetta er sennilega ekkert eins og í leikhúsi,“ verður föður mínum á að segja og ég kinka kolli. Við skellum okkur á barinn og fáum okkur að drekka. Ég smelli einni sjálfu (e. selfie) af okkur pabba honum til mikillar armæðu og festi kaup á sýningarskrá, sem ég náði ekki að gera í upphafi. Ég splæsi einni skrá á pabba og við tölum um sýninguna og hve stórkostlega Helga Rós syngi og hve vel hún taki sig út í hlutverki drottningarinnar. Okkur þykir báðum verra að hafa ekki fengið að heyra almennilega í Ásgeiri en hann mun fá sitt tækifæri síðar, enda frábær söngvari.

Af hverju fer fólk ekki heim til sín?

Við flettum í gegnum skrána og tökum eftir því að enginn virðist á förum úr Hörpunni. Við ætlum að fara að tygja okkur aftur af stað heim þegar ég rek augun í söguþráðinn. Ég les hann yfir og uppgötva mér til skelfingar að ástæða þess að ekki var klappað í lok sýningar er sú að sýningunni er einfaldlega ekki lokið. Það er rétt komið að hléi. Já, en það kviknaði í sviðinu hugsa ég. Tveir tímar í viðbót! Ég velti því fyrir mér hvernig ég eigi að tilkynna föður mínum þetta. Fjórar klukkustundir, nei það er nú fullmikið af því góða. Ég stend í rökræðum í höfðinu á mér og kemst að lokum að þeirri niðurstöðu að réttast sé að harka af sér. Athyglisbrestur minn býður ekki upp á svona langa setu í einu en ég get notað tímann og æft mig í þolinmæði. Mér finnst bara að það eigi að vera hægt að segja hlutina einu sinni og þá skýrar, ekki sjö sinnum. Við erum ekki það treg að það þurfi að margtyggja þetta ofan í okkur. Þegiðu! Öskra ég á þessa rödd í höfði mínu. Vertu þakklát fyrir að fá að eyða tíma með föður þínum og njóta stórkostlegrar sýningar. Hvað eru tveir tímar til eða frá? Njóttu þín hér og nú og reyndu að hugsa um aðra en sjálfa þig, til tilbreytingar.

Ég set upp bros og flyt föður mínum fréttirnar. Við göngum inn í salinn og sýningin hefst á ný. Dramað heldur áfram milli Don Carlos, föður hans og drottningarinnar. Konungurinn finnur skartgripaskrín drottningar en þar ofan í geymir hún mynd af Don Carlo sem hún var áður lofuð. Eboli er sú sem færir konunginum skrínið en í framhaldi þess lætur konungur fangelsa son sinn og hyggst láta ráða hann af dögum. Rodrigo er einnig færður í fangelsi en sýningunni lýkur með sömu sviðssetningu og í upphafi og á því að Karl V, sem allir töldu af, talar úr klaustrinu. Blóð streymir niður rauðlita veggina og þannig lýkur sýningunni á svipaðan hátt og fyrir hlé, nema hvað að nú er klappað.

Ég fylgi föður mínum heim á leið, þakka honum fyrir kvöldið og finn mig aftur fyrir framan bílakjallarann á Vesturgötunni. Þetta er skrítið hugsa ég. Þar sem áður var gult hlið hefur nú verið dregið fyrir með stórum hvítum hlerum. Ég tek í hurðarhúninn og kemst að því að dyrnar að innganginum eru læstar. Ég geng að hleranum sem skilur á milli mín og bifreiðar minnar og les á skilti á hurðinni. Opið frá kl 7:00 – 00:00. Klukkan er 00:20. Frábært hugsa ég og tek upp símann. Enn dramatískari endir á dramatísku kvöldi. Jæja, þetta verður einhvern tímann góð saga hugsa ég og slæ inn númerið. „Pabbi, fæ ég að gista hjá þér í nótt?“

Myndir birtar með góðfúslegu leyfi Íslensku óperunnar.
Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone