Drómasjúkir dátar, draumar og daglegt líf

11737_CEMETERY_OF_SPLENDOUR_3

Ást í Kohn Kaen verður sýnd í Bíó Paradís þann 19. ágúst næstkomandi.


Ást í Khon Kaen (2015) er nýjasta kvikmynd tælenska leikstjórans Apichatpong Weerasethakul. Myndin gerist í Khon Kaen héraði í Tælandi þar sem gamalli skólabyggingu hefur verið breytt í bráðabirgðaspítala fyrir hermenn sem þjást af dularfullri svefnsýki. Mennirnir sofa nánast linnulaust alla daga og nætur og þiggja því aðstandendur mannanna aðstoð sjáandans Keng til að hafa samband við þá. Aðalpersóna myndarinnar, Jenjira, heillast af unga sjúklingnum Itt og gerist sjálfboðaliði á spítalanum til að sinna honum.

Kaldhæðnisleg notkun á fagurfræði borgarljósa og næturlífs í sjúkrastofu sofandi soldátana.

Töfrum þrunginn hversdagsleiki

Apichatpong Weerasethakul er nafntogaður leikstjóri í alþjóðlegu listabíósenunni og myndir hans sýndar á kvikmyndahátíðum víðsvegar um heiminn. Þær eru gjarnan sveipaðar töfraraunsæi þar sem hið yfirnáttúrulega fléttast saman við tælenskan hversdagsleika. Þessi mynd sver sig í ætt við fyrri myndir að þessu leyti og heimur myndarinnar áþekkur þeim sem við kynntumst í verkum á borð við Boonmee frændi sem man sín fyrri líf (2010) og Hitabeltissótt (2004).

Í myndinni lifna gamlar þjóðsögur við og fortíðin á greiða leið inn í nútímann. Glefsur úr tælenskri sögu og þjóðsagnahefð eru á hverju strái og ekki er gert upp á milli draumheima, raunheima og hvaða annarra vídda sem kunna að fyrirfinnast. Innan myndarinnar gera allir sér grein fyrir að þessir ólíku heimar geta skarast og þeir eru allir jafn raunverulegir. Lífið er flæði sem enginn einstaklingur getur raskað, fólk á sér fyrri og seinni líf og þeir sem eru sérstökum hæfileikum gæddir geta munað fyrri líf sín og skynjað fleiri heima en þann sjáanlega.

Konur í forgrunni

Á yfirborðinu er Ást í Khon Kaen ekki pólitísk mynd en á köflum má greina vísanir í átakatímabili í tælenskri sögu, auk þess sem deilt er á árekstur hins vestræna heims við hinn austræna með skemmtilega lymskulegum hætti. Hið síðarnefnda birtist ljóslega í einu atriði þar sem við sjáum auglýsingaskilti með stórri ljósmynd af ljómandi brúðhjónum, hvítum karlmanni og tælenskri konu. Skiltið auglýsir brúðkaupsþjónustu sem kallast European Wedding Studio. Vísast hafa margir vesturlandabúar óbeit á slíkum sambandsþjónustum þar sem andi mansals svífur yfir vötnum og álitið að menn sem kaupa sér tælenskar eiginkonur séu að nýta sér neyð fátækra kvenna.

Jen og Itt í náttúrulegri lýsingu

Konurnar í Ást eru hins vegar ekki í neinni neyð, þær eru sjálfstæðar og þarfnast engrar aðstoðar karla. Jen og allar hinar konurnar í myndinni eru dásamlega skemmtilegar og raunar eru konur, sambönd kvenna og sögur þeirra eitt aðalviðfangsefni myndarinnar. Þá birtist allt önnur sýn á áðurnefnd hjónabönd, en aðalpersónan Jen er gift bandarískum manni sem hún kynntist í gegnum stefnumótavef. Samband Jen og eiginmanns hennar Richard er fremur hversdagslegt og virðist ekkert sérlega náið, þau eru bara sæl að hafa samförunaut á efri árum. Þá er Richard engan veginn ráðandi aðilinn í sambandinu, ef eitthvað þá er Jen duglegri að ráðskast með hann. Henni finnst hann afskaplega góður maður en kannski svolítið vitlaus og hún gerir ekki miklar kröfur til þess að hann skilji tælenska þjóðarsál. Eins og til að undirstrika að hið vestræna er jaðrað í þessum heimi veltir Itt því fyrir sér, í samtali við Jen, hvort eiginmaðurinn útlenski kunni að vera hryðjuverkamaður eða amerískur njósnari. Þetta er vitanlega spaugilegt spark í rassinn á vestrænum áhorfendum sem vanir eru að horfa á bandarískar kvikmyndir þar sem hvítir Kanar lúskra á hörundsdökkum hryðjuverkamönnum.

Fegurð augnabliksins

Líkt og í öðrum myndum sínum kýs Apichatpong að stilla myndavélahreyfingum í algjört lágmark. Myndin einkennist af kyrrstæðum römmum þar sem gjarnan er dvalið lengi við sama sjónarhornið og klippingar eru fáar en úthugsaðar. Hver rammi er hrein og klár listasmíð án þess þó að vera óþolandi samhverfur eða uppstilltur. Þessi aðferð minnir mikið á handbragð Yasujiro Ozu en hann reiddi sig nánast einungis á kyrrstæða myndavél og leyfði rammanum að njóta sín.

Altari

Altari.

Ást í Khon Kaen er listræn kvikmynd eins og þær gerast bestar. Stígandi myndarinnar er fremur hægur en hún er ekki langdregin því að hún er ekki erfið áhorfs, ljóðræn framvindan gerir einfaldlega kröfu um tempraðan skriðþunga. Hún er ægifögur, sagan er dásamleg og allt er þetta framsett með einkar áreynslulausum hætti þannig að fegurðarskyni áhorfandans er aldrei ofboðið; það er engin tilraun gerð til að ögra með listrænum flugeldasýningum. Apichatpong veitir einfaldlega innlit inn í ofurfallegan heim sem áhorfandinn sekkur inn í og vildi helst geta dvalið í löngum stundum.

Þýðingar á erlendum titlum:

Ást í Khon Kaen – enska: Cemetery of Splendor – upprunatitill: Rak ti Khon Kaen

Boonmee frændi sem man sín fyrri líf – enska: Uncle Boonmee Who Can Recall His Past Lives – upprunatitill: Lung Bunmi Raluek Chat

Hitabeltissótt – enska: Tropical Malady – upprunatitill: Sud pralad.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone