Duga eftir Brynjar Jóhannesson

skaldverk

Duga

 

Nú er að duga

nú er að duga

nú er að duga

 

að hlusta ekki á

ekkert kaffi eftir klukkan tvö

engir skjáir eftir tíu

ekkert rafmagn í svefninum

 

ég ætla ekkert að hætta

ég ætla að duga.

 

Ég drekk bara meira kaffi

og fer á flug,

nýt þess að vera fastlega til,

harkalega,

að komast á flug

að vera meira en bara kvíðabúnt í buxum

nýt þess að vera gerandi

vera ekki bara að reyna að líða vel,

líða beinlínis illa.

 

Munurinn á kaffi og kvíða er að ég hringi sjálfur á kaffivélinni.

 

Dyrabjallan gling glóir

og í stað þess að hrökkva við

stekk ég upp á nærbuxunum

kem til dyra eins og ég er

dugandi

og rek íþróttafélagsbetlarana á dyr,

þau eru farin

og ég er enn að duga og duga.

 

Klukkan gling glóir á veggnum

og ég ritúalísera núið

anda í mig gervimaníu

byrja að titra og svitna og tapa eyrðinni og hlæ

 

og það er svo gott að ganga fram og til baka

hugsa og hugsa að nú

núnú

sé ég lifandi loksins

sé í gegnum móðu í gær og í gær gær

 

og þótt ég þurfi að liggja í alla nótt titrandi eyrðarlaust tár

þá skiptir það engu máli

því ég titra og hugsa

 

og eini munurinn á kvíða og kaffi er að ég get hætt þegar mér sýnist

 

og ég geng um gólf

og ég titra.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone