Eftir eigin höfði: spuna- og skásögur á netinu 2/2

"Teen Wolf: Derek/Stiles" eftir NinaKask á Deviantart
"Teen Wolf: Derek/Stiles" eftir NinaKask á Deviantart
Teen Wolf: Derek/Stiles eftir NinaKask birt með skilyrðum CC BY 2.0

 

Á hinsegin dögum í ágúst 2013 sótti ég tvo bókmenntaviðburði í Ráðhúsi Reykjavíkur á vegum grasrótarsamtakanna Hallongrottans vänner þar sem viðfangsefnið var hinsegin bókmenntir á Norðurlöndum.

Þar sem ég sat og hlustaði á höfunda og áhorfendur ræða hlut hinsegin bókmennta í bókmenntaflórunni – sem er örsmár miðað við hlut hinsegin fólks í mannflórunni –og vöntun á fjölbreyttara efni með hinsegin aðalpersónum gat ég ekki annað en þakkað mínum sæla fyrir að hafa kynnst sagnaheimi þar sem kynhneigð persónanna er eins fjölbreytt og viðfangsefnin sem þau takast á við.

 

Slash fiction eða skásögur

Í aðdáendaheiminum eru sögur um tvo karlmenn yfirleitt kallaðar slash og sögur um tvær konur femslash. Nafnið slash kemur frá skástrikinu sem er sett á milli nafna þeirra sem í hlut eiga hverju sinni og á það uppruna sinn í fyrstu opinberu sögunni sem skartaði þeim Kirk/Spock í aðalhlutverki. Þaðan fáum við íslenska orðið skásögur í þýðingu Brynhildar Heiðar- og Ómarsdóttur.

Líkt og aðrar spunasögur flokkast skásögur í marga flokka – drama, rómantík, spennu, o.s.frv. Það sem skásögur eiga þó flestar sameiginlegt er að höfundur reynir að veita lesendanum innsýn í hugarheim persónanna, að sýna það mannlega í hverjum og einum, oft við aðstæður sem eru allt annað en ákjósanlegar. Kynhneigðin spilar þar vissulega oft stórt hlutverk enda erfitt að líta framhjá þeim erfiðleikum sem hinsegin fólk tekst á við daglega. Persónurnar þurfa oft að berjast við fordóma og útskúfun, ofbeldi og misskilning, rétt eins og hinsegin fólk gerir í okkar heimi. En kynhneigðin er yfirleitt ekki í aðalhlutverki, söguþráðurinn snýst um fleira en það.

 

Hvað er í boði?

Sögur sem spanna allt kynsviðið, allar kynhneigðir, allt lífið. Sögur um kennara og rokkstjörnur, háskólastúdenta og grunnskólanema, foreldra og börn, lögfræðinga og stjórnmálamenn, forseta og konungsfólk, dýralækna og bændur, kaffibarþjóna og rithöfunda, geimfara og kúreka, geimkúreka … Bara svona til að nefna eitthvað. Og hvernig sögum ertu að leita að? Glæpasögum? Vísindaskáldsögum? Grínsögum? Fantasíum? Dramatík? Rómantík? Erótík? Klámi? Ekki málið. Það er allt til.

En hvað með sögurnar sem þér þykir þegar vænt um en höfða takmarkað til þín? Ertu orðin leið/ur á gagnkynhneigðu, hvítu karlhetjunni? Við reddum því. Hvað með lesbíska Harriet Potter? Gerðu svo vel. Sögu byggða á sjónvarpsþáttunum Friends þar sem Chandler og Joey búa saman, giftast og eignast börn? Að sjálfsögðu. Svarta tvíkynhneigða transkonuútgáfu af James Bond? Ja, hugsanlega. Ef svo vill til að þitt óskaviðfangsefni finnst ekki er alltaf hægt að biðja um það á stöðum sem safna hugmyndum fyrir spunahöfunda sem langar að takast á við eitthvað nýtt og spennandi. Hver veit nema einhver svari beiðninni.

 

Tökum dæmi

Vinsælt sjónarsvið fyrir skásögur er t.d. háskólaumhverfið. Ungur maður byrjar í háskóla, kynnist nýju fólki og þorir loks að vera hann sjálfur. Hann hittir annan strák, við fylgjumst með lífi þeirra og samskiptum við kennara og aðra nemendur, á einhverjum tímapunkti ná þeir saman og sagan endar yfirleitt á því að þeir eru par. Ef litið er á fjölda slíkra skásagna (þær eru 4957 talsins á spunasagnasarpinum AO3 er þetta er ritað) segir sig sjálft að þetta er bara beinagrindin, enginn myndi nenna að lesa nær fimm þúsund sögur um nákvæmlega sama efnið. Hér eru nefnilega margir möguleikar í boði. Þetta gæti t.d. verið íþróttatengd saga þar sem þeir eru í sama eða gagnstæðu liði eða kannski hatar annar íþróttir á meðan hinn elskar þær. Eða þá nördasaga þar sem annar er eðlisfræðinemi og hinn í lögfræði og þeir kynnast þegar þeir eru að LARP-a Game of Thrones. Eða hugsanlega er annar í hljómsveit, hinn er bókabéus sem vinnur á kaffistofunni þar sem sá fyrri kemur að kaupa sér morgunmat. Og svo fram eftir götunum.

Sögusviðið er heimurinn og viðfangsefnið er lífið. Þessi heimur er ekki alltaf okkar heimur, hann getur verið Miðgarður Hringadróttinssögu eða Gothamborg Leðurblökumannsins, og lífið er ekki endilega okkar líf, það getur verið líf galdrastráks eða veru frá annarri plánetu. Því sama hvar við erum, hver við erum, þá er hið mannlega í tilverunni það sem allt snýst um. Tilfinningar, tengsl og samskipti, hversdagur og hörmungar, gleði og sorg, einsemd og ást. 

 

Skáskot og brómantík

En hvað verður til þess að spunahöfundur ákveður að spyrða saman tvær persónur umfram aðrar? Útlitið skiptir vissulega máli en það fellur þó í skuggann af því sem í daglegu tali er kallað chemistry. Chemistry er nokkuð sem er ekki endilega hægt að útskýra en samt er augljóst ef það vantar. Þessi tenging þarf ekki að vera kynferðisleg, þannig geta tveir leikarar spilað vel saman en á þeim nótum að fáum dettur í hug að sjá samband þeirra sem annað en vináttu. Jafnvel ekki okkur sem erum eiginlega alltaf með skágleraugun á nefinu. Á hinn bóginn þarf stundum ekki nema eitt náið augnatillit í einni senu til að hugmyndaflugið fari af stað.

Það er til dæmis ekki að undra að Kirk og Spock eru svona vinsælt par í skásögum. Þeir eru algjörar andstæður en verða samt bestu vinir. Spock beitir rökfræði á allt sem hann upplifir en missir sig trekk í trekk þegar kemur að Kirk; þeir horfast djúpt í augu, klappa hvor öðrum vingjarnlega og haldast jafnvel í hendur. Hvorugur getur hugsað sér lífið án hins. Jafnvel í nýju myndunum þar sem Spock á í ástarsambandi við Uhuru virðist hann tilfinningalega mun tengdari Kirk. Ef Kirk og Spock væru af sitt hvoru kyni hefðu þeir að öllum líkindum orðið par fyrir lok fyrstu seríunnar.

Annað gott dæmi um sígilt par skásagna eru Sherlock Holmes og John Watson. Þeir eru einstaklega nánir í bókum Arthur Conan Doyle og það samband hefur flust yfir á ýmsar útgáfur sem gerðar hafa verið af ævintýrum þeirra félaga. Þegar Sherlock „deyr“ í lok annarrar þáttaraðar Sherlock BBC brotnar John t.d. algerlega niður og grátbiður hann um að koma aftur. Í nýjustu Hollívúdd myndunum með Robert Downey Jr. og Jude Law er sambandið frekar kómískt en dramatískt en engum dylst þó afbrýðissemi Holmes þegar Watson dirfist að trúlofast konu. Hinsvegar fer lítið fyrir kynferðislegri spennu í Elementary þáttum CBS en þar er Watson kvenkyns. Það eru einungis 263 slíkar sögur á AO3 miðað við 28.935 sögur tengdar karlkyns útgáfunum.

Síðustu ár hefur hugtakið  „bromance“ rutt sér til rúms. Átt er við náið vináttusamband milli karlpersóna eða karlkyns leikara en oft á tíðum haldast þessar tvær hliðar í hendur. Fyrrnefndir Robert Downey Jr. og Jude Law eru til dæmis ófeimnir við að sýna hversu nánir þeir eru, sama má segja um þá Chris Hemsworth og Tom Hiddleston sem leika Þór og Loka í ofurhetjuútgáfu Marvel af okkar gömlu Ásum. Vinsældir brómantíkur hafa ekki farið framhjá Hollívúddframleiðendum  en í stað þess að taka af skarið og bjóða áhorfendum upp á hinsegin persónur, söguþráð og ástarsambönd, er skotið inn setningum, aðstæðum og samskiptum í söguna sem mætti túlka sem vísbendingar um að eitthvað slíkt sé í vændum. Aðdáendur eru ginntir með gylliboðum en þegar á hólminn er komið eru verðlaunin afhend enn einu gagnkynhneigða parinu.  Margir vilja flokka þetta undir svokallað „queerbaiting“ því fyrir hinsegin aðdáendur er þessi meðferð á persónunum sérlega niðurdrepandi. Svo vitnað sé í Junot Diaz, höfund The Brief Wondrous Life of Oscar Wao: „If you want to make a human being into a monster, deny them, at a cultural level, any reflection of themselves.“ Hinsegin aðdáendur er með þessari framkomu enn og aftur minntir á að litið sé á þá sem skotspón en ekki sjálfsagðan hluta af samfélaginu.

 

Hvert á að leita?

Stærsta safn spunasagna er vissulega á Fanfiction.net. Ef gúglað er „fanfiction“ kemur það fyrst upp í leit, sem útskýrir af hverju oftast er vísað til þess þegar rætt er um spunasögur. Magn segir hins vegar lítið um gæði. Persónulega þykir mér flestar sögur FF.net bera þess merki að aldur og þroski höfunda sé í lægri kantinum enda setur FF.net hömlur á hvað megi birta þar. Á þessum áratug sem ég hef verið hluti af fandom hef ég líklegast lesið hundruðir ef ekki þúsundir spunasagna. Innan við tíu þeirra voru á FF.net, þar af þótti mér ekki helmingurinn þess virði. Minn smekkur er þó augljóslega ekki allra.

Lengst af var Livejournal eða LJ helsta miðstöð spunahöfunda, enda býður bloggið upp á þægilegt lesumhverfi og tækifæri til umræða í athugasemdum. En vefheimurinn er síbreytilegur, með auknum erfiðleikum LJ og ýmsum stefnubreytingum sem notendur áttu erfitt með að sætta sig við ákváðu margir að flytja sig, eða a.m.k. sögur sínar, um set; t.d. á aðdáendastýrðu vefsetrin Dreamwidth, sem er bloggumhverfi svipað LJ, og AO3.

Archive Of Our Own, eða AO3 í daglegu tali, er spunasafnvefur rekinn af samtökunum Organization for Transformative Work sem einnig starfrækir akademíska vefritið Transformative Works and Cultures og Wiki-síðuna Fanlore en allt tengist þetta fandom. Fjöldi spunasagna á AO3 náði nýlega milljón, notendur eru, er þetta er ritað, að nálgast 300 þúsund og sögurnar eru hluti af yfir 14.800 mismunandi aðdáendaheimum. Sögurnar eru auðvitað misjafnar að gæðum, rétt eins og á öllum sviðum sagnamiðlunar, en lesendum til glöggvunar er hægt að raða þeim eftir hversu oft hver hefur verið lesin, hversu margar athugasemdir hún hefur fengið eða hversu margir hafa gefið henni „kudos“ sem er svipað og „like“ á Fésbókinni. Þessar tölur eru auðvitað engin vísindi, enda eru margar þessara sagna birtar og lesnar annars staðar, eins og á LJ og DW og hafa jafnvel náð miklum vinsældum þar áður en þær voru skráðar á AO3. Tumblr er líka að koma sterkt inn sem deilisvæði fyrir spunasögur þó umhverfið sé ekki jafn notendavænt hvað varðar athugasemdir og umræður. Það er hins vegar, ásamt Deviantart, gósenland fyrir aðdáendalist eða fanart.

 

Verið velkomin

Nýjum fjölskyldumeðlimum er yfirleitt tekið opnum örmum því þrátt fyrir mergðina eru hinir skapandi, hvort sem þar um ræðir höfunda, listamenn, tónlistamenn eða aðra, alltaf glaðir að fá nýja fylgjendur og aðdáendur alltaf ánægðir að fá nýja skapandi liðsmenn.

Vert er þó að hafa varnagla á: Léttur áhugi breytist fljótt í þráhyggju, persónur sem þér þóttu áður áhugaverðar verða þér skyndilega kærari en jafnvel fjölskyldumeðlimir. Tilfinningaflóðið drekkir þér reglulega, þú áttar þig allt í einu á að klukkan er sex að morgni og augun eru orðin ferningslaga af því þú varðst að lesa bara einn kafla enn. Og Guð hjálpi þér ef þeir ákveða að hætta að framleiða uppáhaldssjónvarpsþáttinn þinn. Spurðu bara aðdáendur Firefly, 11 árum síðar þurfa sumir þeirra enn áfallahjálp. Það er nefnilega þannig með fandom, þegar það nær einu sinni tökum á þér er erfitt að slíta sig lausa.

Góða skemmtun!

 

Heimildir

Ásta Kristín Benediktsdóttir. (2013). Hinsegin bókmenntir á Hinsegin dögum. Sótt 5. mars 2014 á http://spassian.is/greinar/2013/08/hinsegin-bokmenntir-a-hinsegin-doegum/

Brynhildur Heiðars- og Ómarsdóttir. (2013). Kynlífsspunar kvenna og 50 gráir skuggar. Sótt 5. mars 2014 á http://knuz.is/2012/09/11/kynlifsspunar-kvenna-og-50-grair-skuggar-2/

Chrestomanci, Olivia. (2008). Fight Them Hellhounds, Dean. Sótt 5. mars 2014 á http://esbeani.livejournal.com/648.html

Davies, Morgan. (2013). A Brief History of Slash. Sótt 18. mars 2014 á http://the-toast.net/2013/09/19/brief-history-slash/

Grossman, Lev. (2011). The Boy Who Lived Forever. Sótt 5. mars 2014 á http://content.time.com/time/arts/article/0,8599,2081784-1,00.html

Hesychasm. (2006). In lieu of life. Sótt 5. mars 2014 á http://hesychasm.livejournal.com/187818.html

Howell, Dan. Fandom. Sótt 5. mars 2014 á http://www.youtube.com/watch?v=oqYkERuoMN8

Idvo. (2013). On Canon, Authorial Authority and Queer Representation. Sótt 5. mars 2014 á http://idvo.tumblr.com/post/39494835623/on-canon-authorial-authority-and-queer-representation

Kinsey’s Heterosexual – Homosexual Ratin Scale. (Án árs). Sótt 5. mars 2014 á http://www.kinseyinstitute.org/research/ak-hhscale.html

Larsen, Katherine og Lynn S. Zubernis. (2013.) Fangasm: Supernatural Fangirls. Iowa City: University of Iowa.

Lim. (2007). Us. Sótt 5. mars 2014 á http://www.youtube.com/watch?v=_yxHKgQyGx0

Lulu. (2013). Heterosexual Female Slash Fans. Sótt 5. mars 2014 á http://centrumlumina.tumblr.com/post/63112902720/heterosexual-female-slash-fans

Melannen. (2010). Science, y’all. Sótt 5. mars 2014 á http://melannen.dreamwidth.org/77558.html

Pincus-Roth, Zachary. (2013). Slash Fiction: A Fantasy World in Which Male TV Characters Find Romance – With Each Other. Sótt 5. mars 2014 á http://www.laweekly.com/2013-10-31/news/slash-fan-fiction/?showFullText=true

Romano, Aja. (2010). I’m done explaining why fanfic is okay. Sótt 5. mars 2014 á http://bookshop.livejournal.com/1044495.html.

Wolfson, Sam. (2012). Fanfiction allows teenagers to explore their sexuality freely. Sótt 18. mars 2014 á http://www.theguardian.com/commentisfree/2012/oct/07/fan-fiction-teenagers-explore-sexuality

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone