„Ég er bara að lifa lífinu“ – Sjálfsvald og hedónismi í íslensku rappi

aroncan

Íslenska rappsenan er afar fyrirferðamikil. Það er strax búið að gera Rapp í Reykjavík, eins og gert var við rokkið og poppið í þeirri sömu borg. Íslenskir rapparar spiluðu á Hróarskeldu. Íslenskt rapp er á Rás 2. Íslenskt rapp er í vatninu sem við drekkum.

Eins og allsstaðar annarsstaðar má sjá vensl milli tónlistafólksins í þessari senu. Allir tengjast, allir eru „featuring“ hjá öllum. Litla sjávarþorpið Ísland skiptir aldrei um þann búning. Við erum fá, smá, en samt svo nett. Eiginlega ógeðslega nett.

Ég fíla rappið jafnvel þó að minn bakgrunnur, mitt uppeldi, sé rokkið. En hvað er rokk? Tónlist sem byrjaði með Chuck Berry og Elvis en endaði einhvern veginn með Creed og Slipknot. Það þarf reglulega að lofta út í rokki eins og í allri annarri tónlist. Fólki fer að leiðast, fólk sér í gegnum hluti og hættir að gefa þeim merkingu. Ég hef ekki kennt mig við ákveðnar tónlistarstefnur síðan ég var í menntaskóla. Nú er ég bara svona „free-thinker“ eins og háskólamenntuðum manni sæmir. Ég tilheyri menntaelítunni.

politicsMargt hefur verið skrifað um íslensku rappsenuna í dag; að hún sé nýja pönkið og ýmislegt í þeim dúr. Pönk er einhverskonar orð yfir andspyrnu. Tónlistarformið skapar ekki alltaf andspyrnuna heldur finnur andspyrnan sér farveg í forminu. 5. sinfónía Beethovens var pönk og margir djassarar þóttu pönkarar. Ég er ekki að reyna að útvatna pönkið sem ákveðna stefnu með því að segja að allt sé pönk. Aftur á móti er sami kraftur sem býr að baki rappinu og pönkinu, sem spyrnir við ríkjandi hefðum, öflum og formum. Kraftur til þess að segja: „Mér er alveg sama hvað telst eðlilegt, því það er blekking og ég ætla að eyðileggja hana fyrir þér“. Þetta er ekkert nýtt og ekki bara í tónlist.

Ég vaknaði um daginn og fékk mér morgunmat. Í morgunútvarpinu var verið að spila Emmsjé Gauta:

„Til í hvíld en ætla fyrst að lifa.
 Ég ætla að lifa, já ég ætla að lifa“.

Ég gekk út úr húsinu með þessar línur í hausnum. „Djöfull ætla ég að lifa!“ hugsaði ég. Lifa og síðan hvíla mig. Ekki öfugt. En er það pönkið? Er þetta allt og sumt? Nei. Þar að auki er afar ósanngjarnt að taka tvær línur út fyrir sviga og segja að það sé samnefnari fyrir Emmsjé Gauta, enn síður rappsenunnar í heild. En því meira rapp sem ég kynni mér, því hærra bergmálar þessi hugmyndafræði. Það þarf að lifa rosalega mikið. Skilyrðislaust, alveg eins og Aron Can:

„ég er bara að lifa lífinu.
 Og lifi því með engum fokkin móral!“ punk

Hér er augljóslega ekki verið að tala um „að lifa“ sem andstæðu við „að deyja“. Aron Can er ungur og ætlar að njóta lífsins áður en … áður en hvað? Þarna fannst mér kjarninn vera fundinn. Pönkið í rappinu er andspyrna gegn þrýstingi samfélagsins á þegnana um að eyða lífinu í að sinna skyldum. Við höfum ekki tíma til að lifa, því við þurfum að skila 40 tímunum, við þurfum að fara í heimabankann, við þurfum að skreppa, við þurfum að versla. Hvenær eigum við eiginlega að lifa? Að fara í bústað í viku er ekki að lifa, það er einungis þvingað frí frá rútínunni. Svona eins og þegar fullorðnir segja við börn: „Jæja, farðu nú út og leiktu þér,“ en barnið er kannski algjörlega óinnblásið, dagsformið er einfaldlega þannig.

Úlfur úlfur eru pólitískir, stóískir „hómies“ en vita að það er ekki skynsamlegt að sóa þessu eina stutta lífi, og vilja njóta. Það sama ættu aðrir að gera, enda líf þeirra ekkert lengra:

„Lífið er endalaust. 
En lífið er stutt,
 ég nýt þess á meðan ég get,
 þangað til að ég gefst upp“.

En þurfum við ekki kúpla betur frá, ef við ætlum okkur að lifa í alvöru? Okkur þarf að vera í alvörunni sama um allt og alla. Níhílisminn verður að skína í gegn. 101 Boys er skítsama og „sippa bara vino“. Reykjavíkurdætrum er drullusama, „banga“ bara fullt af gaurum og eru ógeðslegar – eða ekki; allt eftir því hvort angrar þig meira. Shades of Reykjavík standa líka algjörlega á sama:

„mér er alveg sama, þú fórnar þínu lífi 
fyrir alltof lítið,
 ég er bara chillin’,
 chilla alltof mikið“.

„Ég er með stíl. Fokk þú og þínir,“ segir Gísli Pálmi og ég verð kjaftstopp. Hann staflar pappír, keyrir um á stífbónuðum kagga og lifir lífinu í botn. Hvað get ég sagt við því, annað en að fyllast öfund og skrifa svona pistil?

Ok.

0prosentSamkvæmt mínum útreikningum er íslenskum röppurum skítsama um flest, rappa um sjálfa sig og ætla ekki að gera það sem aðrir biðja þá um. Rapparar gera ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn. Þetta hljómar eins og andspyrna: Ég um mig frá mér til mín. Fokk þú og þitt krú.

En af hverju rappa rapparar allir um sjálfan sig? Af hverju ekki: „Power to the people“ eða „We are volunteers of America“ eða „Times they are a changin“? Syngja um heildina, ást og frið eins og hipparnir? Svarið við því er einfalt: Fyrir það fyrsta leystist hin eiginlega hippakynslóð upp í ofbeldi og sukk. Hipparnir voru lítill en áhrifamikill hópur óheflaðra hedónista með hugsjónir sem leiddu margt mjög gott af sér en fyrst og síðast vildu þeir bara chilla með jónu og elskast. Það virkaði greinilega ekki sem algjört byltingarafl því það sem var gegn þeim var of rótgróið og ljótt.

„Ef guð er ekki til, má allt,“ er tilvísun fræðimanns í einhvern annan fræðimann. Skeytingarleysi og sjálfhverfa er pönk íslenska rappsins. Þótt það hljómi þversagnarkennt að einhverju leyti er það andspyrna gegn hinni perralegu einstaklings- og afrekshyggju kapítalismans. Íslenskt rapp bítur hendina af kapítalismanum, þó svo hann hafi ekki einu sinni boðið þeim litla fingur. Níhílisminn dregur bitið úr kerfinu, tönn fyrir tönn.

Fyrst allir eru svona einstaklingsmiðaðir ætla ég bara að fara með það alla leið. Mér er sama um allt og alla svo lengi sem þú mismunar ekki, nauðgar ekki, lemur ekki, drepur ekki og reynir að vera siðmenntaður. Ef hugmyndin er: „allt má og eina sem skiptir máli er ég og mín afrek“, þá set ég þá hugmynd ekki í einhverja nefnd, stofna fyrirtæki eða kaupi mér jeppa. Ég set hana í djúsvélina á Joe & the Juice og hendi vélinni svo út á götu. Kveiki í kofanum og brenni allt.


Pistillinn birtist fyrst á facebook síðu Jóhannesar og birtum við hann hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone