Eitt eilífðar stundarblóm – Um Mómó eftir Michael Ende

Mono copy

Uppáhaldsbækur eru eins og gamlir vinir, manni þykir býsna vænt um þær og það getur reynst afar erfitt verkefni að gera upp á milli þeirra. Enda er ansi erfitt að svara því hvað það er sem gerir bók að uppáhaldsbók og hvers vegna lestur sumra þeirra verður upphaf ævilangrar vináttu og annarra ekki. Fáar bækur eru manni þó jafn kærar og uppáhaldsbækur æskunnar, því þær tóku þátt í manns persónulega þroskaferli og hafa fortíðarljóma eilífðarinnar hjúpaðan um sig í minningunni.

Mómó eftir Michael Ende er slíkur æskuvinur minn. Ég las hana í tætlur sem barn og það eru alveg ábyggilega þrjátíu ár síðan ég las hana í fyrsta skipti. Nú er ég orðin fullorðinn íslensku- og bókmenntafræðingur og sérhæfi mig í fantasíum og barnabókmenntum, svo þegar ég var beðin um að fjalla um Mómó fannst mér ég hafa höndlað himininn. Tilefni umfjöllunarinnar er endurútgáfa Forlagsins á bókinni en hún var síðast gefin út árið 1982, báðar útgáfurnar í þýðingu Jórunnar Sigurðardóttur. Það var þó með kvíðablandinni gleði að ég hóf lesturinn, því enginn gagnrýnandi er jafn grimmur og sá sem les gamla uppáhaldsbók sem eldist ekki vel. Og ég vildi ekki skemma mína elskulegu Mómó.

 Barnabækur og umræða um samfélagsmál

Michael Ende (1929-1995) var þýskur rithöfundur, ef til vill best þekktur hér á landi sem höfundur Sögunnar endalausu en hún var fyrst gefin út á frummálinu árið 1979. Ende skrifaði allnokkrar

Kápa Mómó í íslenskri útgáfur frá árinu 1982

Kápa Mómó í íslenskri útgáfur frá árinu 1982

barnabækur og flestar þeirra mætti án mikilla málalenginga flokka sem fantasíur. Tilgangur hans var þó ekki að skrifa eingöngu fyrir börn, heldur að ræða áríðandi samfélagsvandamál við fólk á öllum aldri. Það fór því í taugarnar á honum þegar hann var afskrifaður sem barnabókahöfundur. Hann deildi hart á bókmenntasamfélagið vegna þessa og spurði af hverju þessi undarlega fyrirlitning á barnabókum stafaði.

Mómó var fyrst gefin út á frummálinu árið 1973 og er því eldri en Sagan endalausa. Mómó er stúlka á óræðum aldri, líklega 8-12 ára, sem sest að í rústum gamals hringleikahúss í borg nokkurri. Fullorðna fólkið í nágrenninu hefur áhyggjur af þessu barni sem engan á að en eftir að hafa rætt málið við Mómó ákveða þau að laga til vistarverur hennar og sjá henni fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Mómó er afar ánægð með þetta fyrirkomulag og eignast marga vini á öllum aldri. Hún er ekkert venjulegt barn því hún býr yfir þeim eiginleika að geta hlustað svo djúpt og vandlega á fólk að það kemur auga á eigin vitleysu og tekst að leysa eigin vandamál. Þessi fyrirmyndarheimur tekur þó enda um síðir því grámenni herja á borgina, fá fullorðna fólkið til að spara tíma og soga til sín allar aukamínútur sem fólk sparar með því að vinna hraðar, auka afköst og hætta að gefa sér tíma til að leika við börnin sín eða sinna vinum sínum. Þetta hefur þær afleiðingar að fólk verður ríkara og ríkara af veraldlegum auði en um leið óhamingjusamt og ófullnægt. Mómó er sú eina sem sér í gegn um grámennin og hún reynist þeim erfiður ljár í þúfu. Með aðstoð vina sinna, Meistara Secundus Minutus Hora og skjaldbökunnar Kassiopeiu ræðst Mómó til atlögu, til þess að geta fært vinum sínum söng stjarnanna að launum.

Nostalgískur fortíðarljómi

Mómó reyndist ekki glata neinu af fortíðarljóma sínum. Þó það sé auðvelt fyrir fullorðinn lesanda að koma auga á frásagnartæknina og klisjurnar hefur þessi bók engu tapað af töfrunum og ádeilunni sem gera hana þess virði að vera sönn uppáhaldsbók. Þannig hefur höfundi tekist ætlunarverk sitt, að skrifa bók sem hentar öllum aldri.

Frásögnin er hringlaga, eins og gjarnt er um ævintýri og fantasíur, sem hefjast gjarnan heima, snúast um einhvers konar ferðalag og enda svo aftur heima. Mómó sest að í hringleikahúsinu og býr sér til fullkominn lítinn heim og frásögnin endar á því að Mómó er aftur komin heim í heiminn sinn eftir bardagann við grámennin, þó ferðin sé öll innan sömu borgarinnar og að nokkru leyti inn á við.

Ádeila bókarinnar er á neyslusamfélagið og hún inniheldur viðvörun dystópíunnar, sem felst í því að við megum ekki glata sjálfum okkur í ofurhraða nútímans. Peningar koma ekki í staðinn fyrir ást og umhyggju og þolinmæði er ein af stærstu dyggðum mannsins. Þetta sést bæði í Mómó sjálfri sem á óendanlegan tíma fyrir alla sína mörgu vini og í götusóparanum Beppó sem er mikill heimspekingur en fæstir gefa sér tíma til að uppgötva speki hans og afskrifa hann sem klikkaðan gamlingja.

Mómó minnir okkur á þetta og segir okkur að leggja frá okkur snjallsímana og rækta garðinn okkar.

Hreinn barnaleikur

Í bókinni er líka mikið rætt um leik barna. Börn þurfa ekkert annað en umhverfið og ímyndunaraflið til þess að búa til stórkostlega leiki og dýr leikföng eru tilgangslaus og leiðinleg. Þannig sér Mómó til dæmis fjarstýrðan bíl sem eitt barnið kemur með í hringleikahúsið – hann gerir ekkert annað en að keyra fram og til baka og er þess vegna ekkert skemmtilegur. Talandi dúkkan (Bíbí-girl) sem grámennin reyna að múta henni með er sömuleiðis bæði geld og leiðinleg vegna þess að hún segir alltaf sömu setningarnar aftur og aftur og Mómó fær ekkert svigrúm fyrir ímyndunaraflið.

Mómó er að ýmsu leyti óþægileg lesning fyrir hið upptekna foreldri, áminning um að það sem skiptir mestu máli er að gefa börnunum sínum tíma og ást, og gefa sjálfum sér tíma til að njóta lífsins. Mómó minnir okkur á þetta og segir okkur að leggja frá okkur snjallsímana og rækta garðinn okkar.

Viðtöl og ýmsar upplýsingar um höfundinn:

http://www.michaelende.de/autor/biographie/michael-ende-und-die-kritik

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone