Eitt sumar á landinu bláa – Hundadagar eftir Einar Má Guðmundsson

Flag_of_Jørgen_Jørgensen_(1809)

 

HundadagarJörundur hundadagakonungur lifir í minningu þjóðarinnar sem einhvers konar jóker. Hann kom til Íslands og gerði sjálfan sig að konungi í eitt stutt, íslenskt sumar, læsti landsstjórann inni og var langt á undan sinni samtíð með lýðræðishugsjónir og sjálfstæðishugmyndir. Í Hundadögum fer Einar Már yfir viðburðaríka ævi þessa greinda og gallaða manns. Saga hans er áhugaverð og maðurinn sjálfur ekki síður.

Sögumannsrödd frásagnarinnar er slitrótt til að byrja með. Sögumaður er í þriðju persónu, alvitur og þekkir nútíð, fortíð og framtíð. Hann er gagnrýninn og setur sig í dómarasæti, bæði yfir samfélagi fortíðarinnar, sem myndar sögusvið bókarinnar, og samfélagi nútímans. Sögu Jörundar hundadagakonungs, eða Jörgens Jörgensens, eins og hann er kallaður í bókinni, er fléttað saman við sögu Jóns Steingrímssonar eldklerks. Sögumaðurinn veður úr einu í annað, úr frönsku byltingunni, yfir í æskuár Jóns Steingrímssonar, yfir í fullorðinsár Jörgens. Þessar samtvinnuðu ævisögur tengjast þó sáralítið og eru að auki ekki sagðar í neinni sérstakri tímaröð, heldur grípur sögumaður niður í frásögnina þar sem honum þykir henta hverju sinni. Og alltaf af og til ávarpar sögumaðurinn lesandann beint.

 

Alvitur sögumaður og misvitur Jörundur

Alvitur sögumaður er stílbragð sem getur gengið upp en gerir það ekki hér. Sögur Jörgens og Jóns tengjast ekki og eiga ekki að tengjast. Þessi blanda virkar alls ekki nægilega vel, lesandinn á erfitt með að komast inn í líf persónanna og það er afskaplega ruglandi að vera svipt fram og til baka á milli landa, heimsálfa og tímasviða. Það er erfitt að muna eftir aukapersónum á milli kafla (þó stuttir séu) og því næst eiginlega ekki að móta þær nægilega vel til þess að hægt sé að lifa sig inn í þær.

Þrátt fyrir þessa ágalla eru kaflar og setningar sem taka andann frá lesandanum, svo góðir eru þeir. Þegar sögu Jóns Steingrímssonar lýkur og saga Jörundar tekur við gerir margt það að verkum að frásögnin verður mun heilssteyptari. Sagan er eftir það nokkurn vegin í tímaröð. Sögumaðurinn minnkar talsvert predikanir sínar til lesandans og það fæst meiri dýpt í persónusköpun. Lesandinn nær að staðsetja sig í frásögninni og fær betri heildarsýn á Jörund sem persónu, bæði sögulega og skáldsögulega. Það færist einnig líf í aukapersónurnar og saga Finns Magnússonar sem blandað er saman við seinni hluta bókarinnar virkar miklu betur með sögu Jörundar en saga Jóns klerks, því þar eru tengsl á milli.

 

Klofinn lestrarpersónuleikiEinar Már_Hörður Ásbjörnsson_Ljósm yndari-HiRes

Eftir lestur bókarinnar sat ég eftir með einhvers konar klofinn lestrarpersónuleika í garð þessarar bókar. Hún var erfið aflestrar og það gekk illa framanaf að halda athyglinni við hana. Hún var hins vegar líka skemmtileg og áhugaverð. Sögur Jóns og Jörgens eru athyglisverðar og spennandi þegar lesandinn hefur púslað þeim saman, nánast upp á sitt einsdæmi, en ég skil alls ekki þá ákvörðun höfundar að flétta sögu Jóns inn í sögu Jörundar. Saga Jörundar; kóngs, fanga, landkönnuðar og rithöfundar er mun margbreytilegri en ég hef nokkurn tíma gert mér grein fyrir og henni eru að mörgu leyti gerð góð skil í frásögninni. Að mörgu leyti má nota sömu lýsingarorð fyrir Hundadaga og aðalpersónu bókarinnar. Þunglyndisleg, á ýmsan hátt gölluð bók, en leiftrandi snilld hér og þar sem tekst þó ekki alveg að bæta upp fyrir erfiðleika í samskiptum. Mér finnst stærsta brotalömin í frásögninni vera misheppnuð tilraun til að blanda ólíkum, ótengdum sögum Jóns Steingrímssonar og Jörgens Jörgensens saman við alvitran, tímaflakkandi sögumann. Það gengur illa upp með annars áhugaverðri frásagnaraðferð og verður til þess að sagan verður brotakennd og erfið í lestri.

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone