„Ekkert plebbalegt að vera í öngum sínum“

Picture-30-300x197

Hvað gerir rithöfundur þegar útgefandinn segir honum kurteisislega að handritið hans sé ómögulegt? Í þessari stöðu var Úlfar Þormóðsson ekki alls fyrir löngu. Saga Úlfars er ekki einsdæmi í hinum harða heimi bókaútgáfu. Það sem er óvenjulegt eru viðbrögð hans við þessari höfnun.

Úlfar er síður en svo nýgræðingur í faginu. Hann hefur unnið sem ritstjóri og blaðamaður til fjölda ára og gefið út ótal bækur síðan hans fyrsta bók Sódóma Gómorra kom út árið 1966. Niðurstaða útgefandans að nýja handritið væri ónothæft kom því Úlfari nokkuð á óvart. „Ég hélt ég væri ónýtur,“ segir hann hreinskilningslega. Í kjölfar höfnunarinnar fylgdi verkkvíði og ritstífla. Til að koma sér aftur á stað í skrifum útbjó Úlfar áætlun. Hann ákvað að rita niður hugsanir sínar og vangaveltur næstu 69 daga. Úr varð bókin Uggur sem kom út í sumar hjá bókaforlaginu Veröld.

Í Uggi kemur vel fram sú tilhneiging hugans að vera eilíft á reiki og þurfa minnsta áreiti til að skjótast úr einu horni til annars. Þrátt fyrir að ómögulega handritið sé Úlfari ofarlega í huga blandast áhyggjur hans auðveldlega við gloppóttar minningar, gamansögur samferðamanna, athuganir á samtímamálum og því sem hann er að lesa hverju sinni. Úr verður frásögn gerð úr óteljandi örsögum sem tengjast ekki endilega innbyrðis eða falla að línulegri söguframvindu enda segist höfundurinn ekki hafa haft aðra lesendur í huga en sjálfan sig þegar hann skrifaði Ugg. Raunar var ekki markmiðið að þessi 69 daga áætlun yrði að bók yfir höfuð en Úlfar segist gjarnan eiga það til að skrifa aðrar bækur en hann leggur upp með í byrjun.

Aðspurður hvort honum finnist ekki örlítið plebbalegt að skrifa bók um að geta ekki skrifað bók segir Úlfar það vera betra en að skrifa bók um að geta skrifað bók og bætir við: „Það er ekkert plebbalegt við að vera í öngum sínum. Ég er ekki að þykjast, svona var líf mitt í 69 daga.“ Eftir þessa 69 daga segist Úlfar aftur hafa fundið þörfina til að skrifa. Framtíð hins ómögulega handrits er þó enn óráðin.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone