Ekki móðgast – Jimmy Carr í Hörpu

By Albin Olsson (Own work) [CC BY-SA 4.0 (http://creativecommons.org/licenses/by-sa/4.0)], via Wikimedia Commons

Breski uppistandarinn Jimmy Carr var með uppistand fyrir fullu húsi í Eldborgarsal Hörpu síðastliðið sunnudagskvöld. Íslenskir aðdáendur hans voru fljótir að tryggja sér miða á viðburðinn þegar miðasala hófst síðasta haust. Carr er tiltölulega nýbúinn að halda uppistand hér á landi en hann skemmti landanum í Háskólabíó í vor á síðasta ári, að undirritaðri meðtalinni.

Það er á vissan hátt rangt að hlæja, en í þessu rými, á þessari stund og á þennan hátt er það í lagi.

Líkt og eflaust margir þekkja, þá er Carr þekktur fyrir hárbeittan og grófan húmor sem getur og hefur í gegnum tíðina farið fyrir brjóstið á sumum. Uppistand gærkvöldsins var engin undantekning og gerði stjarnan óspart grín af „tabú“ málum á borð við fatlaða og kynlíf þeirra, barnaperrum, ósmekklegum kynlífsstellingum, nauðgunum og fleira. Það er því ekki að undra að Carr þyki umdeildur og hafi oft vakið sterk viðbrögð með gríni sínu.

Uppistandarinn gerir sér vel grein fyrir hvers konar húmor hann vinnur með og hvernig viðbrögð hann vekur. Þess vegna gerir hann út á það að hneyksla fólk og vekja oft á tíðum „cringe worthy“ viðbrögð hjá fólki. Carr tekur fyrir viðkvæm umræðuefni af jaðrinum og skellir þeim framan í fólk í formi gríns. Húmorinn sem Carr notast við er hreinræktaður lausnarhúmor (sbr. lausnarkenninguna – e. relief theory) en þannig húmor gerir fóki kleift að ræða um og varpa ljósi á erfiða eða „tabú“ atburði, viðfangsefni og hugarefni í formi gríns. Fólk finnur þannig farveg eða lausn fyrir slík umræðuefni og léttir á sér með því að gera grín að því og hlæja. Það er á vissan hátt rangt að hlæja, en í þessu rými, á þessari stund og á þennan hátt er það í lagi.

Áður en Carr var kynntur á svið rúlluðu myndir af honum á stórum skjá auk skilaboða til áhorfenda þar sem þeir voru hvattir til að senda skilaboð á ákveðið símanúmer ef þeir hefðu einhverjar spurningar, eitthvað að segja honum eða annað slíkt. Þegar litið var yfir salinn mátti sjá marga með símann á lofti, eflaust í þeim erindagjörðum að segja eitthvað nógu sniðugt svo stjarnan myndi taka það fyrir í uppistandinu. Sömu skilaboð voru uppi á skjánum í hléinu og eftir hlé sýndi uppistandarinn sín uppáhalds skilaboð og grínaðist með þau. Einna áhugaverðast voru skilaboðin frá manni í salnum sem mætt hafði á uppistandið með fyrrverandi kærustu sinni. Miðana höfðu þau keypt síðastliðið haust og hætt saman viku fyrir sýninguna – vandræðalegt fyrir þau en stórfyndið fyrir aðra áhorfendur og uppistandarann sjálfan.

Íslendingar – ákjósanlegir áhorfendur?

Carr byggir yfirleitt stóran hluta uppistanda sinna á samskiptum við áhorfendur og spyr salinn spurninga. Auk þess sigtar hann út einstaklinga til að spyrja spurninga og gera grín að um leið. Gærkvöldið var engin undantekning og tók salurinn spurningum Carr eftir bestu getu. Það virtist þó ekki virka eins vel og á sýningum hans í enskumælandi löndum. Eflaust er þar um að kenna tungumálaörðuleikum, þó Íslendingar skilji vel ensku og tali hana, þá er ekki þar með sagt að þeir séu eins snöggir að hugsa upp hnyttin tilsvör á öðru tungumáli. Kannski eru Íslendingar líka ekki vanir því að vera dregnir í sviðsljósið þegar þeir eiga að vera ósýnilegir áhorfendur í fjöldanum. Því var stundum vandræðaleg þögn í nokkrar sekúndur í salnum áður en salurinn leystist upp í hlátur yfir vandræðalegheitunum og uppistandarinn greip orðið á ný.

Áhorfendur kunnu þó vel að meta grín í sinn garð af landi og þjóð enda elska Íslendingar alla þá athygli sem landið þeirra fær frá slíkum Íslandsvinum. Tala nú ekki um ef útlendingar reyna að bera fram íslensk orð eða nöfn, en afskræming Carr á nafninu Guðmundur var stórskemmtileg og uppskar mikinn hlátur.

Á sviðinu voru tveir stólar á móti hvor öðrum, sem gaf til kynna að Carr ætlaði að taka einhvern áhorfanda í viðtal, líkt og hann hefur stundum gert í uppistandi sínu. Tungumála- og/eða samskiptaörðugleikar við íslenska áhorfendur hafa mögulega valdið því að ekki varð af þeim dagskrárlið. Farsæll uppistandari verður að geta lesið áhorfendahóp sinn og skynjað hvað virkar og hvað ekki fyrir slíkan hóp hverju sinni. Carr hefur metið sem svo að ekki hafi þótt skynsamlegt fyrir flæði sýningarinnar að fá hikstandi Íslending upp á svið til sín.

Ekki fyrir alla

Húmor er persónubundinn og ekki höfðar allt sem þykir fyndið, til allra. Í auglýsingu um sýninguna frá Senu, sem stóð fyrir viðburðinum, var sagt að sýningin yrði ruddaleg og móðgandi að því gefnu að viðkomandi væri móðgunargjarn. Í kjölfarið fylgdu svo skilaboðin „Ekki vera fífl.“

Líkt og eflaust flestir uppistandarar þá er Carr meðvitaður um að fólk er fjölbreytt og veit að húmor hans er ekki allra. Í sýningunni sagði hann líka eitthvað á þessa leið: „Ef þér finnst þetta fyndið, þá er það rétt hjá þér. Ef þér finnst þetta ekki fyndið, þá er það líka rétt hjá þér. Ég get ekkert gert til að breyta þinni skoðun. Það er þitt mál ef þú ákveður að nota peningana þína í sýningu hjá mér.“ Þar með var það afgreitt og mál hvers og eins ef viðkomandi móðgaðist.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone