Emjað úr hlátri á Franskri kvikmyndahátíð

02-bondieu-640

Ömurleg brúðkaup (Qu’est-ce qu’on a fait au bon dieu?) eftir leikstjórann Philippe de Chauveron er opnunarmynd Franskrar kvikmyndahátíðar 2015. Myndin fjallar um hjónin Claude og Marie Verneuil og glímu þeirra við eigin fordóma þegar elstu dætur þeirra þrjár ákveða allar að giftast körlum af erlendum uppruna. Þegar fjórða dóttirin tilkynnir þeim síðan að verðandi eiginmaður hennar sé svartur, ættaður frá Fílabeinsströndinni, ætlar gjörsamlega allt um koll að keyra.

Óborganleg fyndni

Ömurleg brúðkaup hefur fengið lofsamlegar viðtökur í heimalandinu og einnig hér heima, ef ég leyfi mér að taka mið af bíóreynslu minni í kvöld. Fimm sekúndum eftir að myndin hófst fóru hlátrasköllin í salnum að dynja og þeim linnti ekki fyrr undir lok myndar. Sumir bíógestir hreinlega grétu úr hlátri, þar á meðal ég.

Það er ekkert sjálfgefið að hlæja svona í bíó, jafnvel á myndum sem eiga að teljast til grínmynda. Allt of oft eru grínmyndir samansafn lélegra brandara, ásamt nokkrum góðum, sem maður er auðvitað þegar búinn að sjá í stiklunni fyrir myndina. Í Ömurlegum brúðkaupum voru gjörsamlega óborganlegir brandarar hins vegar eins og framleiddir á færibandi og ósjaldan voru áhorfendur ennþá hlæjandi að síðasta brandara þegar komið var að þeim næsta.

„Við erum ekki rasistar, en…“

Margir furða sig eflaust á hvernig hægt sé að hlæja sig máttlausan yfir kvikmynd sem hefur svo alvarlegan undirtón; rasismi og menningarárekstrar eru auðvitað sérlega eldfim málefni um þessar mundir. Sagt er að öllu gríni fylgi nokkur alvara en ég leyfi mér ekki að efast um að hægt sé að snúa þessu við; að allri alvöru fylgi nokkurt grín!

Verneuil-hjónin voru dæmigert miðaldra fólk sem í fáfræði sinni óttuðust útlendinga án þess þó að hafa endilega mjög hátt um það. Makaval dætra þeirra reynist þeim algjör martröð en þrátt fyrir það reyndu þau að halda sönsum og kynnast tengdasonum sínum í stað þess að slíta sambandi við dætur sínar.

Þær aðstæður sem skapast þegar fjölskyldan er öll samankomin er grunnforsenda grínsins í Ömurlegum brúðkaupum. Andrúmsloftið er svo óbærilega rafmagnað því þótt Verneuil-hjónin myndu aldrei kalla sig rasista þá skín útlendingahræðsla þeirra samt sem áður í gegn. Reyndar eru tengdasynirnir þrír (gyðingur, múslimi og Kínverji) litlu skárri en í samræðum skjóta þeir í sífellu að athugasemdum er varða uppruna hvers annars og þess á milli kalla þeir tengdaforeldra sína rasista. Fyrir vikið eru allir hálf-óöruggir og hegða sér á kjánalegan hátt – sem er auðvitað drepfyndið!

Stigskiptir kynþáttafordómar

Verneuil-hjónin héldu stíft í þá von að fjórða og yngsta dóttir þeirra, Laure, veldi sér franskan, kaþólskan og „venjulegan“ mann. Því verða þau fyrir sárum vonbrigðum þegar hún kynnir fyrir þeim verðandi eiginmann sinn, Charles, sem fellur þannig séð undir þeirra skilgreiningu á æskilegum maka, nema hvað að hann er svartur. Viðbrögð allrar fjölskyldunnar, bæði gömlu hjónanna, systranna og tengdasonanna verða vægast sagt harkaleg og nú sameinast hún gegn hinni utanaðkomandi ógn, þ.e. svarta manninum.

Hér kemur bersýnilega í ljós að í þeirra veruleika eru kynþáttafordómarnir stigskiptir; þeim finnst slæmt að vera múslimi en ennþá verra að vera svartur! Ætli slíkt eigi sér hliðstæðu í raunveruleikanum?

Hið sammannlega eðli

Þegar Charles heimsækir foreldra sína á Fílabeinsströndinni kemur upp úr kafinu að þau eru síður en svo sátt við ákvörðun hans um að kvænast hvítri stelpu. Þau höfðu séð fyrir sér svarta tengdadóttur, helst frá Fílabeinsströndinni eins og þau sjálf. Hræðsla þeirra við hið fjarlæga og hið óþekkta var engu vægari en hjá tengdafjölskyldunni.

Upp koma átök milli fjölskyldnanna tveggja og hjónabandið er svo gott sem dauðadæmt. En þar sem Ömurleg brúðkaup er kvikmynd í léttari kantinum endar auðvitað allt vel og með nánari kynnum milli sögupersónanna verður hið sammannlega eðli menningarmuninum yfirsterkari.

Niðurstaða: Ömurleg brúðkaup er vel heppnuð grínmynd í alla staði. Viðfangsefnin eru alvarleg en nálgunin spaugileg. Húmorinn er fjölbreytilegur, leikurinn til sóma og tempóið gott.

 

 

 

 

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone