Endanleg hringrás – Um „Það sem áður var skógur“ eftir Valgerði Þóroddsdóttur

thad-sem-adur-var-skogur

Málverkið Maður með stráhatt og rjómaís, eftir Pablo Picasso, hékk lengi vel innrammað á vegg heima hjá mér í æsku. Í dag kallar það í senn fram ljúfar og ókennilegar minningar, ekki síst þegar maðurinn með hattinn gaf manni augnagotur á dimmu kvöldi. Verkið skyggnist inn í líf fátækra bændastétta fyrr á öldum, maðurinn er klæddur í tötra, tennurnar er gular og skeggið rytjulegt. Hann sleikir ís eftir erfiðan vinnudag og allt virðist eðlilegt en á sama tíma svo gríðarlega framandi, ásjóna sem er eins og utan úr geimnum.

Sambærilegri tilfinningu er að lýsa þegar ég sá kápumynd ljóðabókarinnar Það sem áður var skógur eftir Valgerði Þóroddsdóttur. Myndin, sem teiknuð er af Eddu Mac, skapaði kúbísk hugrenningartengsl og að mér læddist tilfinningatvenndin úr æsku, hið ljúfa og hið ókennilega.

Ljóðin í bók Valgerðar eru númerið frá einum upp í tíu og mynda eina heild. Í þeim er gegnum gangandi leikur með tvenndir eða andstæðar myndir. Þar er tekist á við hið endanlega andspænis hringrásinni, forgengileikanum andspænis endurnýjuninni:

 

„þreifum á myrkrinu

og finnum þar eitthvað

til þess eins að tapa því aftur“

 

Fyrsta og auðkennilegasta tvenndarparið sem nefnt er í bókinni er í vökvaformi; blek og vatn. Þessi fyrirbæri eru andstæður og tákna mismunandi stöðu tilverunnar. Blekið sem sekkur ofan í yfirborð og varðveitir endanlega hugsun, s.s. texti á blaði eða húðflúr, en vatnið er það sem viðheldur lífi með því að fara í sitt fræga hringrásarferðalag. Stundum verður skammhlaup á milli virkni þessara tveggja vökva, eins og sjá má í þessu broti þar sem reynt er að skrifa á vatnsyfirborð:

 

„heldur lúmskt

líkt og rökkrið

eins og viðjurnar

sem bíða þess að letra

í kyrrt vatnið“

 

Andstæður bleks og vatns kalla ennfremur fram aðra tvennd af sama eðli, tré og blað. Tréð er hluti af endurnýjanlegu vistkerfi sem drekkur í sig vatn en blaðið (afurð trésins) er endanlegt og drekkur í sig blek.

 

„líkamar hrinda frá sér sýkingu

en pappírinn, forvitinn

drekkur í sig blekið“

 

Bókmenntafræðingurinn í mér hugsaði um túlkunaraðferðir vistrýninnar við lestur ljóðanna. Í því samhengi má helst nefna titillinn, sem gaf mér strax ástæðu til þess að botna hann og það á fremur neikvæðan hátt. “Það sem áður var skógur” myndar ósýnilegan setningarskugga og glymur í höfðinu án þess að að segja orð: “er nú í eyði”. Titillinn felur í sér fortíðina eða fyrrum ástand sem nú er gjörbreytt. Lokalínur bókarinnar renna stoðum undir þessa hugsun, þar sem verið er að reykja pípu. Tóbakið í henni var “áður skógur”, lauf sem áður var hluti af vistkerfi en brennur nú upp í tímabundið ástand, reyk fyrir nautnir mannsins:

 

„hann reykir pípu eða kannski er það ég

og reykurinn ilmar eins og arinn

eins og það sem áður

var skógur“

Titill bókarinnar er með þessu ekki að kveikja neina nostalgíu, heldur hvetja til gagnrýnni lesturs en ekki aðeins svar við því hvað „það“ er og hvert ástand þess er. Lesturinn verður óróleg, jafnvel örvæntingafull leit að merkingu, og það strax í fyrstu línunni: „ríf upp svörðinn“. Með þessu er gefið í skyn að leitin feli óhjákvæmilega í sér fórn, „vitandi að sköpun líkist í fyrstu / niðurrifi“. Jafnvel þótt sú fórn sé hluti af jörðinni.

Í Það sem áður var skógur stígur hið endanlega dans við endurnýjunina og skilur eftir sig samruna (eða splundrun) beggja í huga lesandans; hið ljúfa og hið ókennilega, lífið og dauðann. Með öðrum orðum, ljóðabókin sjálf sem hlutstærð í heiminum (sem áður var skógur) og hins vegar hugsunina. Það er írónía Valgerðar, að takast að festa hringrásarflæði ljóðsins endanlega niður á blað.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone