Er heimurinn einn stór Súperkúkur?

supremium

Súperkúkursuperkukur
Hugleikur Dagsson og Árni Jón Gunnarsson
Ókeibæ, 2016.


Vissulega gætu sakleysislegar ömmur (eða Kertasníkir) vaðið gegnum jólabókaflóðið og fætt börnin á sóðalega skemmtilegum sora sem beinir sterku ljósi á siðferðislega bresti, hræsni og fáránleika mannkynsins, úrkynjun samtímans og hvers manns gaman. Textinn er löðrandi í svörtum húmor og kaldhæðni, eins og búast má við af höfundi sem helst er þekktur fyrir meinfyndnu spýtukallaskrítlurnar og teiknimyndaþættina Hulla.

Hér er um að ræða Súperkúk, fimmtu bók Hugleiks Dagssonar í syrpu sem tekur fyrir mismunandi mögulega heimsenda, og er það Árni Jón Gunnarsson sem teiknar. Söguþráðurinn er einfaldur á yfirborðinu. Sjö mannverum af mismunandi þjóðerni er boðin díll aldarinnar, ef svo mætti að orði komast. Grallaralegur guð birtist þeim í upphafi sögunnar og býður hverri og einni þeirra að éta skít í skiptum fyrir ofurkrafta. Flestar þeirra sjö sem guðinn leitar til falla fyrir freistingunni og finna leiðir til að gangast við samningnum og eftir sólarhring af algjöru valdi ánetjast þær eitrinu líkt og fordæmdir fíklar.

Í persónusköpun nýta höfundar sér staðalímyndir mismunandi menningarheima. Fulltrúa Vestursins er til að mynda að finna í verðbréfabraskara, holdgervingi auðhyggju og valdagræðgi sem flýgur um og runkar sér bókstaflega yfir almúgann. Svo annað dæmi sé nefnt, þá má sjá táknmynd prestastéttarinnar í gömlum skarfi sem skapar eigin Eden í Bretlandi, byggða á afturhvarfi til fortíðar, kristilegra gilda og tilfallandi útilokun á óæskilegum hælisleitendum.

Súperkúkur hverfist um gamla siðferðislega vangaveltu. Hvað myndirðu gera ef þú fengir vald guðs eða ofurkrafta eða hvaðeina? Það er tilvalin spurning fyrir höfunda að vinna úr og varpa ljósi á hversu glatað mannkynið er í raun og veru. Hvert mannsbarn fæðist kannski saklaust en samfélag og menning gera að skíthæl og algjört vald mun ekki breyta því heldur aðeins efla, veita vettvang fyrir hið skítlega eðli til að blómstra og þá breytir engu af hvaða kyni, þjóðflokki eða kynhneigð það hrynur í gegnum sköpin.

Um er að ræða ákaflega svarta sýn á tilveruna og Súperkúkur er í grunninn grimmilega meinhæðinn satíra með sannleikann að vopni. Fyrst og fremst hefur sagan siðspilltan samtímann sem skotspón og að auki vegur hún á skemmtilegan hátt að stærstu bókmenntagrein myndasöguhefðarinnar. Þá er átt við ofurhetjusöguna sem riðið hefur sem eldibrandur yfir menningu dagsins í dag, en eiga rætur sínar í hetjudýrkun sem hefur loðað við mannkynið frá örófi alda. Arfinn er að sækja til grískra og rómverskra goðsagna, til Norrænnar goðafræði og síðast en ekki síst til frelsarans sem gat labbað á vatni.

Eins og áður sagði er hér að finna sóðalega skemmtilega sögu sem stiklar á siðspillingu, úrkynjun og skítlegu eðli mannsins. Umbrot er virkilega vandað og listamennirnir hafa lagt allt í sölurnar til að fanga kjarna sögunnar og auðga. Stílnum mætti lýsa sem klúrum, hákómískum og barnalegum og öll formleg vinna bendir til gífurlegs metnaðar og bendir til grósku og bjartrar framtíðar í íslenskri myndasögugerð. Eftir allt saman gætu Kertasníkir og Amma Gamla valið mun síður þegar kemur að skógóðgæti þetta árið, þó efnið henti kannski helst í skó eldri lesenda, því klósetthúmorinn er vissulega í blárri kantinum.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone