„Ertu viss um að þú viljir gera þetta?“

photo-35386-33692-p1380752-2

Enginn vill vera eins og Balzac

Nathalie Sarraute fæddist um aldamótin 1900 í Rússlandi. Foreldrar hennar skildu þegar hún var aðeins barn að aldri og eyddi Natalie fyrstu árum ævi sinnar í að ferðast milli heimili föður síns í Frakklandi og móður sinnar í Rússlandi.

Sarraute var í hópi frönsku nýskáldsagnahöfundanna ásamt Claude Simon, Robbe-Gillet og Duras svo að nokkur nöfn séu nefnd. Rit Sarraute The Age of Suspicion ásamt riti Alain Robbe-Gillet For a New Novel eru stefnuyfirlýsingar nýskáldsagnahöfundanna. Þar kemur fram að hver kynslóð nýrra rithöfunda þurfi að endurskapa skáldsöguna útfrá sinni eigin reynslu. Þessi nýja kynslóð verður ekki aðeins að finna sína eigin rödd, heldur einnig sinn eigin stíl. Gagnrýni nýskáldsagnahöfundanna beindist hvað harðast að raunsæum skáldskap 19. aldarinnar og að því hvernig borgaralegt raunsæi Balzacs var orðið að einhvers konar mælistiku sem nútímaskáldsögur voru bornar saman við. Uppreisnin var ekki endilega gegn raunsæi sem bókmenntastefnu heldur gegn því hvernig birtingamyndir raunæis komu fram. 19. aldar raunsæið var einfaldlega ekki nógu raunsætt. Sarraute var til dæmis þekkt fyrir það að ljá skáldsögum sínum litlar sem engar persónulýsingar, í staðinn gaf hún persónunum orðið og leyfði þeim að koma smám saman í ljós, á sínum eigin forsendum. Alveg eins og þegar maður kynnist manneskju í fyrsta sinn. Það þótti því sæta tíðindum þegar Sarraute tók upp á því að skrifa sjálfsævisögu, bókmenntaform sem grundvallast töluvert á persónulýsingum.

 

Nýskáldlega sjálfsævisaganSarraute-Enfance1

Bókin heitir Childhood og kom út árið 1983. Sarraute stillir sögupersónunni Nataliu upp við hlið eins konar tvífara eða yfirsjálfs. Saman fara þær hönd í hönd í gegnum árin sem þær eyddu á flakki milli Rússlands og Frakklands. Það kemur fram strax í byrjun sögunnar að það er einhver efi til staðar. Sjálfið spyr Nataliu: „Ertu viss um að þú viljir gera þetta?“ Hvað er það sem vekur óvissu yfirsjálfsins? Er það hugmyndin um að minningarnar staðni, verði fastar og hætti sinni endalausu óræðni? Eða er þetta merki um einhvers konar áfall sem hamlar Nataliu og yfirsjálfið í að komast að sannleikanum? Sama hvað líður ástæðunni fyrir efanum þá er greinilegt að þær halda gætilega af stað. Í raun eru fyrstu blaðsíður bókarinnar einstaklega mikilvægar fyrir það sem á eftir kemur. Þar ræða þær saman, Natalia og yfirsjálfið um hver sé raunverulegur tilgangur frásagnarinnar. Í ljós kemur að þær eru að leita að einhverju sem þær vilja í raun ekki finna. Í samræðum Nataliu og yfirsjálfsins kemur í ljós að eitthvað er ósagt, sem er aldrei kyrrt og því aðeins séð í óræðni. Það er greinilegt að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þær þræða minningarnar. Í þetta skiptið er hræðsla við stöðnun, að þetta ósagða, síbreytilega, ólýsanlega og óorðanlega, sé núna orðið kyrrstætt og sjáanlegt. Hræðsla við að þurfa að horfast í augu við gleymda minningu eða áfall sem þær vita að er til staðar en leynist í skugganum.

Í bókinni er það Natalia sem ræður ferðinni, fer með lesandann til Rússlands og Frakklands, inn í Lúxemborgargarðinn og út í sveitasæluna. Henni hættir oft til að missa sig í dagdrauma eða búa til ævintýralegar tengingar, þá sérstaklega milli sín og Veru stjúpu sinnar. Yfirsjálfið er hinsvegar aldrei langt undan til þess að veita ráð og leiðbeina.

 

Dori Laub

Dori Laub er sálgreinir og sálfræðingur og einn af fjórum stofnendum Fortunoff Video Archive for Holocaust Testimonies við Yale háskólann í Bandaríkjunum. Skjalasafnið inniheldur yfir 4.400 vitnisburði eftirlifenda helfararinnar sem spanna rúmlega 10.000 klukkustundir af efni. Laub hefur skrifað fjölmargar greinar um vitnisburði eftirlifenda og rannsakað efnið ítarlega. Í greininni „Truth and Testimony: The Process and the Struggle“ sem birtist í bókinni Trauma: Explorations in Memory nefnir Laub þrjú stig vitnisburðar. Þessi þrjú stig eru samkvæmt Laub mikilvæg til að komast yfir áfallið sem viðkomandi hefur lent í. Fyrsta stigið er að vera sitt eigið vitni þ.e. að verða vitni að sínum eigin upplifunum og tilfinningum sem koma upp við atburðinn. Annað stigið er að verða vitni að vitnisburði annarra þ.e. að einhver utanaðkomandi heyri, meðtaki og staðfesti áfallafrásögnina. Með því að hlusta tekur hlustandinn þátt í atburðinum, endurupplifir hann með þolandanum og er með í baráttunni við að komast yfir atburðinn, sjá hann í víðara samhengi og láta hann ekki ná yfirhöndinni. Þriðja og síðasta stigið felur í sér að einhver annar sé vitni að manns eigin vitnisburði þ.e.a.s. frásagnaraðilinn og hlustandinn skiptast á að færa sig nær og fjær áfallinu. Þeir þurfa að staldra við og ígrunda þær minningar sem koma fram, til þess að staðfesta á ný sannsögli fortíðarinnar og búa til nýjar tengingar svo að hún geti samlagast nútímanum á nýjan leik.

sarraute1

 

Vitnisburður Nataliu

Það er einkar áhugavert að líta á þriðja stig vitnisburðar Laub út frá sambandi Nataliu og yfirsjálfsins. Þær eiga í einskonar samræðum út alla bókina og hjálpast að við að feta braut hinna „réttu“ minninga. Nataliu er stillt upp sem barnslegri sögupersónu, sýn hennar er einföld og hreinskilin en einnig glopótt, full af eyðum og óregluleg, eins og hugur barnsins. Þegar Natalia vill flýja sjálfsævisöguna og fara á vit ævintýranna tekur yfirsjálfið í hönd hennar og leiðir hana aftur á rétta braut. Yfirsjálfið læðir einnig að Nataliu vel völdum hugvekjum til að draga upp ákveðnar minningar. Það minnir til dæmis Nataliu á gömlu fóstruna sem bjó á heimili föður hennar. Í bókinni er Natalia búin að gleyma endurfundum sínum við þessa gömlu fóstru en yfirsjálfið vísar henni í rétta átt og minningin finnst. Fóstran virðist allt að því hissa þegar hún hittir Nataliu og segir Veru, stjúpu Nataliu, enn bregða fyrir í martröðum sínum. Fóstran fellur vel í annað stig vitnisburðar Laubs, einhver utanaðkomandi sem verður vitni að og staðfestir áfallafrásögnina. Í endurfundum þeirra Nataliu og fóstrunnar er gefið til kynna að Vera hafi verið vond án þess að það sé sagt beinum orðum. Undir yfirborðinu liggur þessi ýjun að einhverju áfalli sem aldrei er nefnt á nafn.

Natalia nær ekki að uppfylla fyrsta stig vitnisburðar samkvæmt Laub, að vera vitni að sínum eigin upplifunum og tilfinningum, sem gerir það að verkum að áfallið fellur inn í eyðu. Þessi eyða myndast ef atburðurinn sjálfur eða þær tilfinningar sem hann vekur eru bældar. Natalia er enn föst í tvískiptingu sjálfsins, hins týnda barns sem man ekki leiðina heim og yfirsjálfsins sem reynir eins og það getur að leiða veginn. Saman fara þær hring eftir hring, fram og aftur milli Rússlands og Frakkland í leit að minningum sem þær vilja helst ekki finna. Ég vona að þær finnist aldrei, því ef svo verður staðnar frásögnin, samræðan hljóðnar og óræðnin hverfur. Að geta í eyður og ráða gátur er lífsbrauð mannshugans. Í Childhood veit enginn svarið og enginn veit spurninguna. Lesandinn fær í hendurnar tvær ókunnar verur sem tala saman um týndar minningar sem mega helst ekki finnast. Undir yfirborðinu er allt falið og það er í höndum lesandans grafa það upp og fylla í eyðurnar.

 

Heimildir

  • Laub, Dori, „Truth and Testimony: The Process and the Struggle“, í Trauma:  Explorations in Memory, ritst. Cathy Caruth, (Baltimore: Johns Hopkins University  Press, 1995), bls. 61-75
  • Robbe-Grillet, Alain, For a New Novel, (Illinois: Northwestern University Press, 1989)
  • Sarraute, Nathalie, Childhood, (London: Calder, 1984)

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone