Eva Magnúsdóttir skiptir engu máli

Viðtal-Eva01

Undanfarnir dagar hafa einkennst af uppglenntum augum og samsæriskenningum. Bókmenntaheimurinn skelfur. Ástæða þessa skjálfta og undrunarópa er ung kona, Eva Magnúsdóttir, sem ekki virðist vera til. Ekkert er vitað um uppruna Evu, annað en það að saga hennar sem birtist í Fréttatímanum virðist vera uppdiktuð. Háværustu raddir samsærismanna hafa hrópað nafn rithöfundarins Steinars Braga. Líkindi einhverra kafla Lausnarinnar við bók hans Konur frá árinu 2009 þykja þó nokkur. Sjálfur þvertekur Steinar Bragi fyrir slíkar aðdróttanir en í frétt á Nútímanum neitar hann að vera Eva, en segist vera Steinunn Sigurðardóttir.

Bókmenntir almennt eru uppfullar af tilviljunum, textatengslum og vísunum, sem eiga sér stað á meðvitaðan eða ómeðvitaðan hátt. Hvernig svo sem tengslum þeirra Steinars Braga og Evu Magnúsdóttur (séu þau einhver) er háttað má hér draga fram í dagsljósið gildishlaðna staðreynd og æpandi textatengsl. Aðalpersóna bókarinnar Konur eftir Steinar Braga, ber nefnilega nafnið Eva. Í ljósi þess er ekki úr vegi að rifja upp persónu Steinars Braga og virkni hennar innan verksins.

 

Illskugáttin Eva

Það er kannski orðum aukið að kalla Evu Magnúsdóttur illskugátt. Hennar skáldaða persóna hefur hins vegar fengið fjölmiðlafólk og aðra áhugamenn um bókmenntir til þess að bíta í forboðið epli og sjá hlutina í nýju ljósi.

87494983Skáldsagan Konur er hrollvekja sem sækir styrk sinn til kláms. Hún segir frá konu/konum sem karlar setja í hræðilegar aðstæður og beita valdi og pyntingum. Þetta kallast á við hugmyndir Carol Clover um kvenlíkamann sem gátt sem hleypir illskunni inn í heiminn. Þekktasta dæmið um slíka illskugátt er sú Eva sem át af skilningstrénu með alvarlegum afleiðingum. Bak við píndu konuna í forgrunni (e. female „cover“) er þó ævinlega saga af karli í krísu, eins og Clover bendir á. Í Konum gerir Steinar Bragi upp við karla sem hata konur, samhliða hinu karllæga efnahagshruni íslensku útrásarvíkinganna. Það er kannski orðum aukið að kalla Evu Magnúsdóttur illskugátt. Hennar skáldaða persóna hefur hins vegar fengið fjölmiðlafólk og aðra áhugamenn um bókmenntir til þess að bíta í forboðið epli og sjá hlutina í nýju ljósi. Hvort sem um er að ræða ill kapítalísk markaðsöfl eða listrænan gjörning.

 

Latar litlar listakonur

konurNafn skáldsögunnar Konur skapar strax ákveðna dýnamík. Hér er karl að skrifa um konur, sjaldgæft og áhugavert út af fyrir sig. Karlpersónur sögunnar standa sífellt í valdatafli, sem konum er markvisst haldið utan við. Eva stendur fyrir eitt og annað sem konur eru „farnar að leyfa sér“ og getur ekki gengið í samfélagi karla. Þetta viðhorf kemur víða fram, jafnvel úr munni annarra kvenna sem eru ofurseldar ríkjandi hugmyndarfræði.

Eva stendur fyrir „lata listamanninn“ sem er baggi á samfélaginu og það er ennþá verra vegna þess að hún er líka kona sem stendur ekki undir væntingum samfélagsins um hin hefðbundnu kvenhlutverk. Hún er hvorki fyrirmyndar móðir né hið ljúfa og undirgefna ástarviðfang karlsins. Auk þess að umbylta hinni gamalgrónu húsmæðrahugmyndafræði neitar Eva að taka þátt í hinum hefðbundna vinnumarkaði og skapa tekjur. Hún er holdgervingur ógnar við hefðbundnar karlmennskuhugmyndir. Sem andstæða hennar birtast síðan „bankastrákar auðvaldsins“ sem fóru í fararbroddi íslensku útrásarinnar. Þessar andstæður koma berlega í ljós í samskiptum Evu við Emil, manninn í lífi hennar. Meðan hún er ofurseld tilfinningalegu uppnámi hefur hann stjórn á sér, er metnaðarfullur, gerandi í eigin lífi, á hraðri leið upp metorðastiga kapítalismans.

Þetta minnir óneitanlega á þá Evu Magnúsdóttur sem birtist í Fréttatímanum. Ung menntakona sem þvælist um heiminn og gerir það sem henni sýnist. Óháð ríkjandi kröfum um þátttöku í vinnumarkaði, barneignir og hjónabönd. Jafnvel hennar eigin uppruni er þvert á viðteknar venjur þar sem hún er slysabarn getið á skemmtiferðaskipi, alið upp af einstæðri móður.

Hvaða máli skiptir höfundurinn hvort sem er?

Steinar Bragi

Eva Magnúsdóttir, hver/hverjir/hverjar svo sem á bakvið hana standa, er skálduð persóna. Skálduð persóna ungrar listakonu sem fetar ekki troðna slóð kynbundinna hlutverka í lífinu og skapar umdeild listaverk. Það er áhugavert hvernig nafn hennar kallast á við þessar bókmenntasystur, Evu „hans Adams“ og Evu hans Steinars Braga. Getgátuleikurinn um uppruna hennar er einnig áhugaverður í ljósi kynhlutverka og samfélagsumræðu. Fæstir þeir sem hafa skoðun á og velta þessu fyrir sér hafa lesið nýútkomna bókina sem hefur nafn Evu á kápunni. Efni bókarinnar er skyndilega orðið aukaatriði í dauðaleit okkar að höfundinum, sem Roland Barthes var þó búinn að reyna að drepa.

Kannski skipta textatengsl Kvenna og Lausnarinnar öllu máli. Ef til vill engu. Persóna Evu Magnúsdóttur gæti verið lykilatriði í lestri skáldsögu hennar. En kannski skiptir hún ekki nokkru einasta máli. Hitt er ljóst að sköpun hennar hefur hrist upp í bókmenntaheiminum, skapað umræðu og vangaveltur, verið elskuð, hötuð, talin óæskileg, óheppileg og jafnvel dónaleg. Eftir stendur spurningin um hver hún sé? En líka hvort það skipti nokkru máli?

Viltu vita meira?

Clover, C. J. (1992). Men, Women and Chainsaw. Gender in the Modern Horror Film. Princeton: Princeton University Press.

Mulvey, L. (1975). Visual Pleasure and Narrative Cinema. Screen(16.3 Haust ), 6-18.

Rubin, G. (1975). The Traffic in Women: Notes toward a Political Economy og Sex”. Í R. R. Reither, Towards an Anthropology of Women (bls. 157-210). New York: Monthly Review Press.

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone