Fagrar konur?

foto-Birgir1-382x270

 

 

Birgir Snæbjörn Birgisson: Ladies, Beautiful Ladies. Crymogea, 2014.

Birgir Snæbjörn Birgisson hefur gert ljóshærðar konur að efnivið myndlistar sinnar í fjölda ára. Bókin Ladies, Beautiful Ladies inniheldur verk Birgis úr myndaröð sem hann vann á árunum 2011–2014 og ber heitið Blonde Musicians. Bókin var gefin út í tengslum við sýningu Birgis í Listasafni ASÍ síðasta haust þar sem áðurnefnd verk voru sýnd og bar sýningin sama titil og bókin.

Myndirnar eru allar vínylplötuumslög sem listamaðurinn hefur málað á með olíumálningu. Umslögin eiga það sammerkt að þau prýðir ljóshærð kona (eða ljóshærðar konur) sem er ýmist tónlistarkonan sem leikur á viðkomandi plötu eða utanaðkomandi fyrirsæta. Listamaðurinn málar þó aldrei yfir ljóskuna heldur fær hún að njóta sín á olíumáluðum bakgrunni.

Þar sem vínylplatan hvarf af sjónarsviðinu fyrir allmörgum árum er iðulega um að ræða plötuumslög í eldri kantinum. Ljóskurnar eru því ekki klæddar samkvæmt nýjustu tísku, heldur endurspegla þær tískustrauma síns tíma, allt frá sjötta áratugnum til þess níunda. Fyrir vikið er yfirbragð verkanna óhjákvæmilega dálítið „kitsch“ enda er það ætlun listamannsins; til að mynda er titill bókarinnar ritaður með hippalegu letri, bleiku með glimmeri. Letrið á það sameiginlegt með ljóskunum að hafa einhvern tímann verið í tísku, einhvern tímann þótt fagurt.

Titill bókarinnar, Ladies, Beautiful Ladies, er einmitt vísun í þessa fegurð, þá fagurfræðilegu skynjun okkar sem er alltaf í mótun, hverful og breytileg. Afstæði fegurðarinnar kristallast í tískustraumum sem koma og fara, en samfélagið upplýsir okkur um hvað telst fallegt hverju sinni. Slík samfélagsleg viðmið verða að trú sem síðar verður að skoðun – og ferlið endurtekur sig í sífellu. Verk Birgis eru leikur að þessari tegund af fagurfræði og ljóskurnar, ætíð klæddar eftir ríkjandi tískustraumum, gera henni rækilega skil. Fegurð kvennanna hefur dofnað því hún er ekki lengur í tísku.

Ef fegurð er annað lykilviðfangsefni verka Birgis, þá er hreinleiki vafalaust hitt. Ljóst hár kvennanna er áhrifaríkt tákn fyrir hina ríkjandi og stöðluðu fagurfræði en það felur einnig í sér hugmyndir um hreinleika og sakleysi. Hin staðlaða fegurð hefur að mörgu leyti  skrumskælt hreinleikann en það sést hvað gleggst í viðteknum hugmyndum um að ljóst hár sé kynþokkafullt. Það sem táknar sakleysi táknar einnig kynþokka og því hefur hreinleikinn verið flekkaður. Þetta samband ríkjandi fegurðar og hreinleika er viðvarandi í verkum Birgis en hin ljóshærðu viðfangsefni hans eru oft fáklædd, jafnvel nakin eða í kynþokkafullum stellingum. Jafnframt hefur listamaðurinn umbreytt upprunalegu umhverfi kvennanna, eins og áður sagði, með því að mála í kringum þær með daufum litum og því eru þær á einhvern hátt „rangt staðsettar“, út úr kú. Hugmyndir mannfræðingsins Mary Douglas um hreinleika eiga hér ágætlega við; Mary skilgreindi hið óhreina sem „það sem er rangt staðsett“ (e. out of place). Í raun hafa hinar ljóshærðu konur glatað hreinleika sínum með tvennum hætti; fyrst með því að vera gerðar að kyntáknum og síðan þegar listamaðurinn málar umhverfis þær og „endurstaðsetur“ þær.

Það má fá ýmiss konar svör við þeim spurningum varðandi fegurð og hreinleika sem Birgir Snæbjörn spyr  í verkum sínum. Spurningarnar eru áleitnar og krefjandi og þannig öðlast verk hans dýpt, dýpt sem erfitt er að koma auga á í fyrstu því hin litríka umgjörð listlíkisins villir sýn. Umgjörðin spillir þó síður en svo fyrir, hún spilar öllu heldur mikilvæga rullu í þeim hugmyndum sem verk Birgis byggja á. Í heildina litið er Ladies, Beautiful Ladies athyglisverð listaverkabók og umgjörðin er stórkostlega viðeigandi fyrir efniviðinn þótt eflaust þyki einhverjum útlit bókarinnar fráhrindandi fyrir vikið.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone