Femínistar frá frumbernsku

10805450_10153300173911124_208151963_n

Hljómsveitin Eva spilar og syngur um konur. Sveitin gaf nýlega út plötuna Nóg til frammi, þar sem beittur, femínískur slagkraftur er bundinn hugljúfum tónum. Þær Sigríður Eir Zophoníasardóttir og Vala Höskuldsdóttir gáfu sér tíma í viðtal á veitingahúsi á milli þess sem þær spiluðu á ráðstefnu um jafnréttismál. „Það er svo frábært að fá að tala í alvörunni, ég er þreytt á of stuttum og innantómum viðtölum“, segir Vala og heldur áfram að krota á servéttu á borðinu. Sigga situr mér á hægri hönd; sönglandi sömu laglínuna aftur og aftur og ég leyfi mér að efast um að hún sé meðvituð um það sjálf. Ég byrja á að spyrja þær að því hvaðan þær komi.

Vala: Ég er frá Akureyri, alin upp á Eyrinni, í ghettóinu þar, af mjög femínískri móður og yndislegum föður sem var á undan sinni samtíð og sá um þvottinn á heimilinu, og mamma var öfunduð af vinkonum sínum fyrir hvað hún átti „hlýðinn“ og liðlegan mann. Ég er alin upp sem femínisti. Hún var mikið í kvennabaráttunni, í Kvennalistanum og var einn af stofnendum hans á Akureyri. Ég er alin upp við að hlusta á Áfram stelpur. Það er svona soldið minn bakgrunnur.

Sigríður Eir: Ég er alin upp á Hallormsstað, það er svona smá samhljómur með uppeldi okkar Völu. Pabbi minn sér líka um þvottinn. Það var stundum sagt um mömmu að hún færi soldið illa með hann. Það var þá verið að meina að hann tók þátt í heimilishaldinu. Greyið hann Onni, eða eitthvað svona. Að hann væri greinilega ofsalega undirokaður, eins og engum dytti í hug að það væri sjálfviljugt samstarf á milli þeirra. Ég er alin upp í skóginum. Elst þarna upp þangað til ég er fimmtán ára og fer svo í menntaskóla á Egilstöðum. Ég veit ekki hvort ég sé alin upp sem feminísti, og þó, það var bara aldrei komið beinum orðum á það.

Vala: Var mamma þín ekki með ákveðnar hugmyndir um gjafir handa börnum? Eins og það að hún neitaði að gefa stúlkum bleikt og drengjum blátt?

Sigríður Eir: Jú, einmitt. Hún er alltaf með smá aktívisma. Allar stelpur fá í eins árs afmælisgjöf fjarstýrða bíla og strákar dúkkur. Hún var með fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hvernig hlutunum ætti að vera háttað. Hún var mikið í þessum pælingum. Þannig að hugmyndafræðilegi bakgrunnurinn var mótaður snemma.

Vala: Það er einmitt þetta með hlutverkin. Ég hef stundum upplifað það að ég hef ekki vitað hvernig ég eigi að vera kona. Ég er alin upp af mömmu sem er femínisti, svo er ég yngsta barn af þremur, á tvo eldri bræður. Það var svo mikið lagt upp úr því að allt eigi að vera eins. Þannig að ég lærði bara að vera eins og þeir. -Ég hef því þurft að læra að hegða mér eins og kona. Þið vitið, þetta hlutverk; fyrirgefið, afsakið. Ég held að við systkinin séum öll frekar örugg og þorðum að vera plássfrek sem börn. Ég var talin frek og hortug en þeir sjarmerandi, sterkir og kunnu að taka pláss. Ég held samt að við höfum hagað okkur á svipaðan hátt. Svo hef ég fundið fyrir því í seinni tíð, eftir að ég fór út í lífið, þó svo ég hafi fengið þetta uppeldi, þá hef ég smátt og smátt, án þess að hafa ætlað mér það, lært að vera kona og taka aðeins minna pláss.

ég er kona, er það ekki bara fínt? nei ég segi svona
ég er kona, er það ekki allt í lagi? nei ég segi svona
þetta var nú bara eitthvað svona upp úr mér, óútpælt
afsakið ég veit ég þarf að æfa mig
situr einhver hér? er ég fyrir þér?
ekki dæma mig
ég þarf að æfa mig

 

-Já, en þú kemur að því úr annarri átt, á öðrum tíma. Breytir það ekki einhverju?

Vala: Jú, þá er ég einmitt meðvitaðri um þau augnablik þegar ég stend sjálfa mig að því að taka minna pláss því ég er kona. Ég er meðvitaðri um þegar litla röddin inni í mér segir: Nú þori ég ekki að taka frekari þátt í umræðunni vegna þess að ég er kona.

 

-Platan ykkar, Nóg til frammi, -tónn hennar er í takt við þessar umræður okkar. Við höfum kannski kjarnað hana. Hún er lágstemmd en frek, krefjandi og hún heimtar pláss og hlustun á krúttlegan hátt. Það er eins og hún sé pökkuð inn í rómantíska tóna en röddin er frek og ögrandi, finnst ykkur hún vera það?

Vala: Já, hún er kvenlega frek.

10388062_864300873609597_2020056123633515813_nSigríður Eir: Ég er alveg sammála. Við höfum lent í vandræðum með að skilgreina hvernig hljómsveit við erum eða hvernig tónlist við gerum. Í hugmyndafræðinni er þetta andóf og pönk gagnvart norminu og svo er tónlistin einmitt ótrúlega rómatísk og hugljúf og auðveld í hlustun. Það var kannski ekki endilega meðvitað í upphafi, en ég held þetta sé, þó ég segi sjálf frá, bráðsnjöll leið til að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri á þann hátt sem fólk er tilbúið að hlusta á.

 

 -Og var þetta á engan hátt meðvitað, rómanslegin pakkningin með beittu innihaldi?


Vala: Jú, kannski. Eða öllu heldur, við settumst ekki niður og sögðum, jæja, nú skulum við finna bráðsnjalla leið til að skrifa meðvitað einhvern boðskap. Heldur settumst við niður því við erum báðar listakonur, elskum að syngja og þykjumst hafa eitthvað fram að færa. Við ætlum að semja tónlist, hvernig viljum við gera það og hvað við viljum syngja um? Við vildum taka það efni sem okkur finnst áhugavert. Þess vegna syngjum við um okkar reynsluheim, -konur.

Sigríður Eir: Þá lögðum við líka upp með að syngja um hluti sem ekki hefur verið sungið um og eiga sér ekki stað í tónlist, en þurfa að eiga það.

Vala: Já, akkurat, þá er það oft eitthvað lítið, sem verður stærri boðskapur. Þú tekur eitthvað mikró eins og viðbein og út frá því er sögð stærri saga.

Vala: Við höfum stundum sagt að þetta sé hálfgerð tilraun, sem við föttuðum eftir á út frá femínismanum. Við teljum okkur hlutgera konur, en á jákvæðan hátt. Þetta er svo leiðinlegt því við erum svo sammála karlmönnum sem syngja um kvenlíkamann, að hann sé svo ofboðslega fallegur að það hlýtur að mega syngja um hann. Og hvernig ætlum við þá að gera það út frá okkar forsendum?

hey ástin mín veistu hvað?
ég þarf að játa
ég á mér uppáhalds part af þér

ég ætti kannski að láta vera að skipta þér
upp í hluti í huganum og gera upp á milli
en ég get bara ekki hamið mig

 -Hvað hafið þið starfað saman lengi?

Sigríður Eir: Það er nú bara mjög stutt. Fyrstu tónleikarnir voru í júní í fyrra, þannig að það er eitt og hálft ár síðan. Þá höfðum við samið eitt lag saman því Völu vantaði lag fyrir performans.

Vala: Ja, ég vann að performans um tíðarblóð út frá hugmyndum um gyðjumenningu og þeim heimildum sem við höfum um hefðir kvenna,  hátíðarhöldum í tilefni af því að stúlka verður kona. Mig langaði að halda veislu til heiðurs öllum þeim konum sem við höfðum gleymt að halda veislu fyrir. Mig vantaði lag, eitthvað fallegt lag um blæðingar. En það var bara alls ekki til, ekki nema gargandi pönklög um að fara á túr. En engin falleg lög. Og þá leitaði ég til Siggu.

Sigríður Eir: Þá komu við saman í og sömdum Blóð, svo einu og hálfu ári seinna hófum við samstarf. Við erum bara nokkuð nýjar.

mánablóð, móðurblóð, töfrablóð, tíðarblóð
bæta mínar kverkar rauðu víni blóð
rauðan dregil dreg ég þér til heiðurs blóð
tíbrá varpar gliti á þína rauðu slóð

 

-Var erfitt að tjúna ykkur saman?

Sigríður Eir: Nei. Það var bara ekkert erfitt, það hefur aldrei reynst mér jafnauðvelt að tjúna mig inn á neina samsköpun eins og þessa.

 

-Eru þið með tónlistarlegan bakgrunn?

Sigríður Eir: Nei, en ég lærði á fiðlu sem barn og svo prófaði ég klassískt söngnám og það var alveg gaman en það hentaði mér ekki, það var of tæknilegt og ég hætti að syngja með hjartanu.

Vala: Ég líka, og á Akureyri, en þar var ekki mikið í boði. Það var ekki í boði að fara í jazzsöng heldur var það bara klassískt nám. Þar átti maður bara að fara í klassískt nám. Það var mikið unnið í því að taka allan karakter úr manni áður en hægt var að byggja mann upp. Eitt er að læra réttar stöður og raddbeitingu. En að standa alltaf með hendur fyrir aftan bak tók gleðina úr söngnum. Manni var bannað að brosa og allt var bara einhvern veginn bannað.

Sigríður Eir: Já einmitt, hakan aftur og maginn á ákveðin hátt og þar fram eftir götunum. Þú færð ekki tækifæri til að hugsa um það sem þú ert að flytja, heldur einungis líkamann. Við hugsum aldrei um þetta núna en auðvitað erum við með leiklistarmenntun að baki þar sem við lærðum alls konar öndunaræfingar og raddþjálfun, það nýtist okkur vissulega. En í kjarnann snýst þetta um að koma einhverju til skila, en þú gerir það ekki með líkamsstöðu. Þú gerir það bara með hjartanu.

Vala: Einhvers staðar finnst mér þetta vera innrás eða ‘violation’ mér finnst söngurinn, performansinn það allra persónulegasta og tærasta sem þú getur gefið. Klassíkin getur þannig bara verið helgispjöll!

 

-Svo er þetta er líka bara eitthvað allt annað!

Sigríður Eir: Já, einmitt, þetta er allt annað og svo hentar það bara misvel. Pressan á röddina tók líkamlega á mig þar sem ég fékk einhverja hnúta á raddböndin og var heilt ár að jafna mig. Þess vegna var þetta svo mikið frelsi þegar við byrjuðum að spila og syngja. Við vorum akkurat á pari hvað þetta varðar, við höfðum báðar sungið með öðrum áður, en aldrei fundið þennan samslátt, við vorum bara að leita að því sama.

Vala: Já, við vildum finna einhvern farveg til að geta sungið á verðugan hátt…

Sigríður Eir: …um hluti sem skipta máli, í gegnum okkar eigin tónlist á einfaldan hátt.

Vala: Ég tók þátt í Idol fyrir tíu árum, það var hræðileg upplifun. Ef klassíkin er helgispjöll þá er Idol margfalt verra. Það er svo langt frá því að það sé pláss fyrir einhver hjartans mál, þú syngur lög sem þú velur ekki sjálf, klæðist fötum ákveðinna fyrirtækja. Það er allt svo mikið ‘sellout’. Þetta fældi mig frá því að vilja fara inn í tónlistarheiminn aftur. Þannig að þetta varð að gerast á mínum eigin forsendum. En ég kunni ekki á neitt hljóðfæri, en ég hafði reynt að spila með einhverjum öðrum gítaristum en þeir höfðu bara of mikið ‘know-how’. Á meðan Sigga pikkaði bara einhverja tóna upp með þeim þremur gripum sem hún kunni og það var bara fullkomið fyrir einföldu lögin mín.

Sigríður Eir: Já, ég kunni ekkert að spila á gítar þegar við byrjuðum, ég kunni bara þessi þrjú grip.

 

-Það sem er flókið við tónlistina eru textarnir en melódían sjálf er lágstemmd og einföld og má kannski ekki vera flóknari svo maður hætti ekki að heyra?

974441_10153300172911124_1053305232_n

Sigríður Eir: Já, þá verður þetta bara brauð ofan á brauð og engin pælir í textunum. Það mátti ekki vera neitt meira. Það er hægt hlusta á hana sem tónlist á einhverjum „levelum“ og fara ekki ofan í hitt, en textinn er þarna og auðvelt að heyra hann. Tónlistin er marglaga.

 

-Hvernig verður lag til?

Vala: Það er kemur hugmynd, hey við verðum að semja lag um þetta!

 

Og hvernig gerist það?

Sigríður Eir: Í mörgum tilfellum hefur það gerst hálfpartinn óvart. En við notum svolítið leiklistaraðferðir sem við höfum lært í skólanum. Stillum klukku á nokkrar mínútur og skrifum í frjálsu flæði um allt sem okkur dettur í hug um efnið. Svo veljum við úr atriðin sem við tengjum báðar við að sé kjarni textans. Svo sest ég með gítarinn og byrja að glamra. Það sem við erum búnar að ákveða hvað við viljum skrifa um og textinn er kominn og þá syngur hann sig hálfpartinn sjálfur inn í lagið, það kemur bara.

Vala: Já, það er best. Þetta er uppáhaldsaðferðin mín. Maður er ekkert endilega að skrifa texta í grunninn, heldur bara hugmyndir um efnið sjálft.

Sigríður Eir: Einmitt, eins og: „Má ég taka mynd af þér á þegar þú teygir þig eftir töskunni þinn á gólfinu.“ Þetta er engin ljóðlína, en hún söng sig inn í þetta lag einhvern veginn.

Vala: Maður leyfir sér að fara annað, fara lengra og lendir þá á einhverjum ófyrirséðum stað.

 

Eru þið fyrst og fremst tónlistarkonur eða aktívistar?

Sigríður Eir: Þetta er rosa erfið spurning því við tengjumst líka leiklist og alls konar hreyfiafli. En ég finn alltaf að þegar ég bý til tónlist að það sé kjarninn minn. Mig langar að verða tónlistarkona, í framtíðinni er það sem ég mun segjast vera. Og get vel sagt það í dag.
Það skemmtilegasta sem ég hef gert var að vinna við tónlistina fyrir Gullna hliðið í fyrra, að fá að vinna inni í leikhúsi með skapandi fólki að einhverju svona stóru listaverki, en að mitt hlutverk væri tónlistin. En ég er aktivisti auðvitað líka í gegnum textana.

Vala: Mér finnst söngurinn vera kvikan, þar set ég hjartað á borðið. Ég þarf að skapa list, annars bara dey ég sem listakona og söngurinn er mitt uppáhaldsverkfæri til þess.

Sigríður Eir: Við erum listrænir aktivistar!

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone