Frelsun geirvörtunnar – Pirrandi nauðsyn

freethenipple

Í inngangi að riti sínu Hitt kynið, sem kom út árið 1949, segir Simone de Beauvoir að öll sú umræða sem hefur skapast um jafnréttismál sé pirrandi, sérstaklega fyrir konur. Hún segir umræðuna hins vegar alls ekki nýja og þótt margir telji að henni sé svo gott sem lokið þá hafi lítið sem ekkert áunnist. Á þeim 67 árum sem liðin eru frá því Beauvoir skrifaði bók sína hafa vissulega ýmsir sigrar unnist í réttindabaráttu kvenna. Enn hefur þó ekki tekist að koma á fullu jafnræði kynjanna. Það er vissulega pirrandi eins og Beauvoir bendir réttilega á.

Það er athyglisvert að velta fyrir sér baráttumálum kvenna á Íslandi nú á dögum með tilliti til orða Beauvoir. Hvað myndi hún segja við druslugöngu okkar daga? Eða frelsun geirvörtunnar? Það er ekki ólíklegt að henni þætti slíkir gjörningar pirrandi. Enda er það pirrandi að konur þurfi að halda sérstaka göngu til að krefjast þeirra sjálfsögðu réttinda að fá að klæða sig eftir eigin höfði og stíl, burtséð frá því hvað öðrum finnist um klæðnaðinn. Óneitanlega er það líka pirrandi að brjóst kvenna séu á einhvern hátt talin frábrugðin brjóstum karla. Kynferðisleg hlutgerving kvenlíkamans hefur þó gert það að verkum að mjólkandi mæður eru jafnvel skammaðar fyrir að gefa ungviðinu brjóst á almannafæri.

 

Drusluskammandi karlar

Tilefni druslugöngunnar og frelsun geirvörtunnar voru einstaklega pirrandi. Druslugangan var fyrst haldin í Toronto árið 2011 í kjölfar þess að lögreglumaður sagði á opinberum fundi að konur gætu forðast nauðganir með því að klæða sig ekki eins og druslur. Ummælin vöktu hörð viðbrögð sem urðu til þess að tvær konur ákváðu að efna til göngu í mótmælaskyni við ummæli lögreglumannsins. Fyrsta gangan var farin að höfuðstöðvum lögreglunnar í Toronto en stofnendurnir töldu mikilvægt að breiða út þann boðskap að þolendur ofbeldis bæru aldrei ábyrgð á ofbeldinu. Druslugöngur hafa verið haldnar víða um heim og á Íslandi hefur hún verið haldin árlega frá 2011 og stækkað að umfangi með hverju árinu.
Tilurð byltingarinnar á Íslandi um frelsun geirvörtunnar er hægt að tímasetja nákvæmlega. Verslunarskólanemandinn Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir setti brjóstamynd inn á Twitter, 24. mars 2015, í tengslum við umræður sem höfðu átt sér stað í skólanum. Notaði hún kassamerkið #freethenipple sem hafði áður rutt sér til rúms á Twitter í tengslum við kvikmynd með sama nafni. Adda tók myndina út nokkrum mínútum seinna og daginn eftir fékk hún neikvæð ummæli frá karlkyns notanda á Twitter. Í kjölfarið birtu aðrar stúlkur brjóstamyndir af sér til að lýsa yfir stuðningi við Öddu og málefnið frelsun geirvörtunnar. Fljótlega birtu innlendir og erlendir fjölmiðlar fréttir af íslensku byltingunni sem varð á Twitter þennan dag. Má því ljóst vera að hvort um sig upphaf Druslugöngunnar og frelsun geirvörtunnar á Íslandi megi rekja til niðrandi ummæla sem karlmaður viðhafði um konur. Þessi ummæli sýndu að baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna er hvergi nærri lokið.

 

Kynslóðin sem elskar feðraveldið

Frelsun geirvörtunnar hefur ekki átt upp á pallborðið hjá eldri kynslóðum landsins. „Frelsum geirvörtuna-dagurinn er alveg hámark plebbismans“ sagði Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknarflokksins en rökstuddi þó ekki hneykslun sína. Ef til vill áttar hún sig ekki á því hversu mikla þýðingu þetta málefni hefur haft fyrir yngri aldurshópa. Hún hefur kannski misskilið og haldið að hún þyrfti sjálf að bera sig til að geta stutt málstaðinn? Ummæli Guðfinnu bera með sér að Beauvoir hafi haft á réttu að standa um konuna en hún segir hvítu konuna samsama sig með hvíta karlinum en ekki með svartri kynsystur sinni. Sem betur fer eru flestar konur í dag ekki jafn fornar í hugsun.
Það má ímynda sér að ákveðið kynslóðabil geri það að verkum að það voru helst ungar menntaskólastúlkur sem beruðu sig á internetinu í krafti málstaðarins. Þetta er kynslóðin sem hefur alist upp með internetinu frá blautu barnsbeini og sú kynslóð sem verst hefur orðið úti þegar kemur að hefndarklámi. Þessi kynslóð hefur mátt reka sig á það að það sem fer inn á netið verður þar um ókomna tíð. Vægi samskiptamiðla í daglegu lífi er sífellt að aukast sem gerir það að verkum að auðveldara verður að deila efni með öðru fólki. Stúlkur af þessari kynslóð hafa jafnvel upplifað sjálfar að brjóstamyndir af þeim hafi farið í umferð á netinu. Það er því ekki eins auðvelt að kúga stúlkur sem hafa tekið völdin í sínar hendur og birt myndirnar sjálfar.

 

Hversu pirrandi?

Það er nauðsynlegt að við pirrum okkur á því að konur njóti ekki sömu réttinda og karlar. Hversu óendanlega pirrandi er það að við séum ekki komin lengra í réttindabaráttu kvenna en svo að það sé ekki sjálfsagt mál að konur ráði því hvaða fatnaði þær kjósa að klæðast, eða kasta, allt eftir því sem við á? Með frelsun geirvörtunnar erum við vonandi einu skrefi nær jafnrétti og því frelsi sem fylgir að klæðast fatnaði að eigin vali. Það er þó nokkuð ljóst að enn er langt í land miðað við athugasemdirnar við fréttir af frelsun geirvörtunnar. Hreinlega er hægt að efast um að nokkru sinni verði hægt að búa við fullkomið jafnrétti, í það minnsta fyrir þau okkar sem eru á lífi í dag. Það er sannarlega ekki líklegt þegar ungir menn sjá ekki lengra en nef sér í baráttu kvenna, telja sig hafa dottið í lukkupottinn og ætla að njóta þess að horfa á brjóst með popp og kók í hendi „á meðan þær eru enn með þennan áhuga að gera sig að fífli þegar þær eru að flassa brjóstin sín fyrir framan alþjóð.“ Ungu mennirnir gerast svo sekir um yfirlætislega drusluskömmun þegar þeir vona að „þessar dúllur með dúllubrjóstin hafi ekki fengið kvef eftir þessa lífsreynslu.“ Í kjölfar brjóstabyltingarinnar fannst mörgum líka sniðugt að stinga upp á að frelsa á sér punginn. Eins og það væri hægt að leggja kynfæri karla að jöfnu við brjóst kvenna. Brjóst eru hins vegar ekki kynfæri.
Beauvoir talar um afturhaldssömu borgarastéttina sem á hennar tíma leit á kvenfrelsisbaráttu sem ógn við siðferði sitt og hagsmuni og að sumir karlar hafi óttast samkeppni frá konum. Tekur hún dæmi úr tímariti þar sem námsmaður kvartar yfir því að hver sú kona sem taki við stöðu læknis eða lögmanns sé að stela af þeim starfi. Hljómar fáránlega ekki satt? 67 árum seinna virðist námsmaðurinn þó eiga skoðanabræður í athugasemdakerfum fréttamiðlanna þar sem frelsi kvenna truflar þá alla á einhvern hátt.

freethenipple

Mynd: nutiminn.is

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone