Fröken Langsokkur

Mynd: Grímur Bjarnason
Mynd: Grímur Bjarnason

Lína Langsokkur bernsku minnar er „barnið sem þorði”. Þannig upplifði ég Línu þegar ég var sjálf barn. Hún er barn sem stígur út fyrir rammann, hún býr ein, á pening, er sterkasta stelpa í heiminum. Hún er í ósamstæðum fötum og sefur öfugt í rúminu sínu. Sjálf var ég (eins og við flest, trúi ég), ígildi Önnu eða Tomma, hinna bráðvenjulegu barna sem Astrid Lindgren stillir upp við hlið Línu í þeim tilgangi að draga fram það sem ekki er venjulegt við Línu.

Mynd: Grímur Bjarnason

Mynd: Grímur Bjarnason

Lína er mörgum, börnum og fullorðnum, afskaplega dýrmæt persóna, og þess vegna er vandaverk að setja hana upp á leiksviði. Allir eiga sínar hugmyndir um Línu Langsokk og þess vegna voru afar ólíkar væntingar í brjóstum beggja leikhúsfaranna að þessu sinni, en þrjátíu ár skilja þá að.

Sýning Borgarleikhússins er afar vönduð og flott sýning, með Ágústu Evu Erlendsdóttur í hlutverki Línu. Ágústa Eva er þaulvön í hlutverki kvenpersóna sem eru á skjön við samfélagið, eftir stórfenglega, satíríska túlkun hennar á Sylvíu Nótt. Nafna hennar, Ágústa Skúladóttir, leikstýrir sýningunni. Það var mikið fjör og sprell, tónlistin var stórfín og góð hugmynd að hafa þessa mögnuðu hljómsveit á sviðinu, staðsetta á stórum vörubíl í garði Sjónarhóls. Lögin voru þó fullhávær, bæði fyrir minn smekk og þeirrar fimm ára, sem hélt fyrir eyrun þegar þau byrjuðu.

Þrátt fyrir að sýningin væri nokkuð þétt var ég ekki alveg nógu ánægð með tóninn sem gefinn var. Mér fannst eins og Lína væri sýnd í gegn um linsu fullorðinssamfélagsins, það var óskaplega mikið gert úr því að hún væri lítil, einmana og óþekk. Krafturinn sem felst í því að hún sé barnið sem þorir komst ekki til skila í sýningunni, í staðinn var áhersla lögð á það hlutverk hennar að vera barnið sem passar ekki inn í samfélagið, barnið sem er óþægilegt og hentar ekki. Sjónarmið hinna fullorðnu, þessara sem klæða sig í jakkaföt og ganga með skjalatöskur, varð þannig ríkjandi og miðlægt í sýningunni.

Mynd: Grímur Bjarnason

Mynd: Grímur Bjarnason

Það er því kannski ekki skrítið að það var frú Prússólín (Maríanna Clara Lúthersdóttir) sem sló í gegn í sínu hlutverki. Hún er mjög skemmtilegur fulltrúi hins fullorðna einstaklings og ótrúlega mikið af sögusamúðinni liggur hjá henni. Herra Níels (Gríma Valsdóttir/Mikael Köll Guðmundsson) var einnig stórskemmtilegur en við mæðgur vorum sammála um það að hesturinn (Magnús Guðmundsson) hefði verið skemmtilegasta persónan, þó það skyti kannski eilítið skökku við að hann væri settur í eins konar foreldrahlutverk gagnvart Línu.

Sýningin var afskaplega fyndin og karnivalísk, þar sem hefðbundnum hlutverkum var snúið á haus og sprellið réði ríkjum. Dansatriðin voru sérlega íburðarmikil og vel út færð og sviðsmyndin var rustík og flott. Í meginatriðum er þetta hressandi sýning sem er vel þess virði að fara og sjá til þess að leita að Línu okkar allra, sem er ef til vill fyrst og fremst þekkt fyrir aðlögunarhæfni sína. Til þess að finna hina heilsteyptu Línu sem tengist barninu í okkur öllum gæti þó verið nauðsynlegt að leita í frumtextann og blása rykið af gömlum uppáhaldsbókum.

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone