Heimurinn breytist þegar barn hlær

Gunnar Helgason og Felix Bergsson hafa lengi framleitt úrvals barnaefni fyrir íslensk börn á öllum aldri. Þeir félagar standa nú fyrir fjölskyldufarsanum Bakaraofninn – þar sem matargerð er lyst í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði. Fyrir þessa sýningu undirbjuggu leikdómarar sig vel og vandlega með því að horfa á þætti úr Stundinni okkar sem var í umsjá Gunna og Felix á árunum 1994-1996.

Við komuna í leikhúsið mættum við Felix sem tók á móti áhorfendum og heilsaði þeim hjartanlega þegar þeir gengu inn í salinn. Allir fengu ráðrúm til að koma sér vel og notalega fyrir og leikstjóri sýningarinnar (Björk Jakobsdóttir) gekk á milli og passaði að allir sæju vel og hefðu það gott. Sýningin hófst á fjörugu titillagi í flutningi Gunna og Felix.

20150217-211043-2Gunni og Felix ætla að opna veitingastaðinn Bakaraofninn og mæta fullir bjartsýni á staðinn. Það reynist þó vera erfiðara en þeir gerðu sér í hugarlund, því staðurinn er í rúst, karlaklósettið bilað og kóngulóarvefir í krönunum. Iðnaðarmaðurinn Pavel (Ævar Þór Benediktsson) er kallaður til, en hann reynist svo vera íslenskur meltingaskurðlæknir sem lítið kann til verka og getur ekki með nokkru móti talist handlaginn.

Mikið liggur við því Felix hefur sent út fréttatilkynningar og Úlfynjan úr Asparfellinu, matargagnrýnandinn Halla Fjellreven (Elva Ósk Ólafsdóttir) er á leiðinni til að dæma lifendur og dauða. Sú er þekkt fyrir að „drepa“ veitingahús og þeir félagar eru að vonum stressaðir, þó allir hnútar leysist að lokum, eins og góðum farsa sæmir.

Sýningin er hröð, bráðfyndin og skemmtileg. Gunni og Felix kunna sitt fag og eru stórskemmtilegir, með brandarana á hraðbergi. Hvergi er hnökri eða hrukka á hinni hröðu atburðarás og leikstjórnin í góðum höndum Bjarkar Jakobsdóttur. Elva Ósk Ólafsdóttir og Ævar Þór Benediktsson standa sig bæði firnavel.

Í inngangi að leikskrá stendur að það sem heilli þá félaga fyrst og fremst við að búa til fyndið efni fyrir börn sé að heimurinn breytist þegar barn hlæi. Ekki dreg ég þessa yfirlýsingu í efa og sé hún rétt er víst að þessi sýning er sannarlega umbreytandi, því áhorfendur veltust um af hlátri svo að segja allan tímann og ekki minnkaði gleðin í stórskemmtilegu lokaatriði þar sem allur salurinn stóð, hoppaði, dansaði og klappaði.

Ég mæli sterklega með þessari sýningu fyrir alla þá sem eru hrifnir af góðu, skemmtilegu fjölskylduefni þar sem umhyggja aðstandenda fyrir markhópi sínum skín í gegn á hverju augnabliki.

 

Hildur Ýr Ísberg
Doktorsnemi í íslenskum bókmenntum

 

IMG_1719Mér fannst gaman á sýningunni. Gunni og Felix voru fyndnir. Bakaraofninn – þar sem matargerð er lyst var skemmtileg sýning. Það var fyndið þegar Gunni fékk kóngulóarvef í sig og reyndi að stríða Felix og fékk vef í sig aftur. Þið verðið að koma á sýninguna, vonandi skemmtið þið ykkur vel ef þið farið. Ævar vísindamaður var að leika í þessu. Og það er amma engill líka. Gunni er fyndinn og tvíburinn hans og Felix.

Svanborg Ásta Hjartardóttir
Grunnskólanemi í 2. bekk

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone