Heiti potturinn er enginn staður fyrir skáld!

Pottar í Vesturbæjarlaug. Mynd fengin frá Reykjavíkurborg.
Pottar í Vesturbæjarlaug. Mynd fengin frá Reykjavíkurborg.

Rithöfundurinn sest fyrir framan bjartan skjáinn og tekur niður grímu sína. Hann slær inn orðin sem krauma í höfði hans, staf fyrir staf, eins og hann er vanur að gera í vinnunni. Grímulaus rithöfundurinn hefur óheflaðar skoðanir, líkt og flest fólk. Hann er jú borgari í þessu samfélagi, líkt og flest fólk.

Þetta var Einar Kárason að tjá sig um flugvallarmálið. Ekki alls fyrir löngu komst Facebook-færsla Einars í hámæli og æsti hún upp ósýnilegan hernað milli íbúa Reykjavíkur og landsbyggðarinnar. Í kjölfar færslunnar, sem var beitt og að sumu leyti óvarlega orðuð, spruttu snarpar deilur og fékk Einar hótanir og illyrði í kjölfarið. Sum ummælin hljómuðu eins og sígild vers úr trúarritum þeirra sem tala gegn starfi listamannsins:

 

Einar ætti frekar að einbeita sér að skrifum sínum, enda næstum 30 ár síðan Gulleyjan kom út og löngu kominn tími á að hann sendi frá sér eitthvað læsilegt.

 

Ég á allar hans bækur og þær fyrstu eru fyrirtaks einnota afþreying en staðreyndin er að í rúman áratug hefur ekkert markvert komið frá honum. Hættu þessu miðborgarkaffihúsarápi Einar Kárason – fáðu þér vinnu, helst á Langanesi, og rífðu svo kjaft!

 

Verst er að ég finn ekki þessar tvær bækur eftir Einar í öllu dótinu hjá mér, því ef ég finn þær þá verður tekið myndband af því þegar ég ríf þær og kveiki í þeim um leið og ég flyt yfirlýsingu þess efnis að versla aldrei nokkurn snepil sem Einar hefur lagt nafn sitt við.

 

Hvers eiga menn að gjalda sem viðra skoðanir sínar? Nú þegar ritdeilur eru mun aðgengilegri og skilvirkari eiga menn það til að svara af fljótfærni. Oft er það gert í svo umbúðalausum hálfkæringi að málefnaleg hugsun kemst ekki til skila. Slíkar samræður eru nær því að vera heitapottsskraf en þaulhugsaðar rökfærslur; eitt af því sem nútíminn býður upp á og ber að fagna. En aftur að Einari. Þarf hann að tjá sig öðruvísi en maðurinn við hlið hans í heita pottinum? Ber hann meiri ábyrgð á skoðunum sínum og orðum en annað fólk, sér í lagi þeim grímulausu, af því hann er rithöfundur? Enginn kaus hann yfir sig. En samt tjáir fólk sig eins og hann eigi að endurskoða hlutverk sitt sem höfundur vegna álits síns á flugvallarmálinu og að það segist að öðrum kosti ætla að brenna og rífa bækur hans.

Það áhrifamesta við listamenn er ekki sú staðreynd að sumir þeirra geti fengið listamannalaun eða að einhverjir þeirra lifi á áhugamáli sínu heldur að það sem þeir gera er óumbeðið, og í mjög mörgum tilfellum óendurgoldið. Listamenn hafa margir þörf fyrir að ávarpa þjóðfélagið, ræða hispurslaust fortíð þess, framtíð eða líðandi stund. Ávarp sem endurspeglar mynd af samfélaginu í heild. En er listamaðurinn nauðbeygður til að tjá sig einungis í list sinni? Það er undravert að umræðan um listamenn og gjörðir þeirra skuli valda jafn miklum titringi í þjóðfélaginu og raun ber vitni. Jafnvel Einar Kárason, alþýðumaðurinn í leðurjakkanum, sem annars er settur á stall sem listrænn málsvari litla mannsins, þar til orð hans eru ekki lengur skáldleg heldur raunveruleg. Þá virðist sem hann stígi inn í veruleika sem hann á ekki heima í; hinn pólitíska veruleika þar sem deilur eru kljáðar af fólki í heitum pottum. Þarf nauðsynlega að gera greinarmun á Einari og Einari? Með því að segjast ætla að hætta að lesa Einar Kárason eru þau skilaboð óbeint gefin að bækurnar hans þjóni aðeins tilgangi ef hann tjái sig ekki opinberlega með umdeildum hætti. Gömul verk skáldsins verða meðsek í því sem sumir telja pólitískan óleik og á Einar ekkert betra skilið en að verða lækkaður í tign.

Hefur þjóðin grafið dýpstu skotgrafir Íslands, milli landsbyggðar og Reykjavíkur? Kosið er í lið og síðan hefst skothríð þar sem brúnni og merkingarlausri orðaleðju er atað á hverja hvítu treyjuna á fætur annarri. Þjóðin er eins og illskeytt systkini þegar hún deilir innbyrðis þar sem tilfinningar hlaupa með deilendur í gönur. Í einskismannslandi húkir svo meirihluti fólksins sem ekki nennir að taka þátt í styrjöldinni.

Einar Kárason stendur upp frá björtum tölvuskjánum, aftur að ritvélinni þar sem hann á heima. Hann þarf að gera almúganum til geðs. Segja ævintýri og vera hnyttinn öðru fremur. Hann á ekki að vera að blanda sér í raunveruleikann. Ef hann ætlar að vera skáld þarf hann að selja bækurnar sínar, stuðla að hagvexti og vera tannhjól í þjóðfélaginu. Ef það gengur ekki upp þarf hann hreinlega að fara á sjóinn. Maður borgar ekki skuldir með orðunum tómum, eða hvað?

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone