Himnadrottning frá helvíti

Paradís Trú

Paradís Trú er önnur mynd austurríska leikstjórans Ulrich Seidl í þríleiknum Ást, Trú og Von. Hver mynd stendur sem sjálfstæð frásögn en persónur myndanna tengjast fjölskylduböndum. Í Trú er fylgst með hinni miðaldra Önnu Maríu (Maria Hofstätter) sem eyðir frítíma sínum í krossferð um innflytjendahverfi Vínarborgar til að snúa afvegaleiddum eða trúlausum einstaklingum á „rétta“ braut strang-kaþólskrar trúar. Vopnuð stórri Maríustyttu gengur hún hús úr húsi og heimtar að húsráðendur biðji með sér, oft við stórkostlega kómískar aðstæður. Heimili Önnu Maríu er búið trúarmyndum og krossum af þjáðum Kristi í hverju herbergi. Á náttborði sínu stillir Anna upp portrettmynd af Kristi, sem hún kyssir góða nótt á hverju kvöldi með orðunum ég elska þig. Anna María setur sig í hlutverk himnadrottingarinnar Maríu Meyjar – hinnar einu brúður Krists – , hlutverk sem hún finnur sig vel í.

 

Birtingarmyndir góðs og ills

Seidl leikur sér með táknfræði ljóss og skugga til að ýta undir trúarlegar vísanir í myndinni, Anna María sefur undir krossfestingarmynd, ljós stafar frá glugga í herberginu og lýsir upp hinn þjáða Krist að næturlagi. Í kristinni kennisetningu er ljósið mikilvæg táknmynd holdgervingar Krist. Í Jóhannesarguðspjalli segir: „Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna“. (Jh 1.1-1.5) „Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn“. (Jh 1.9 –1.11). Glugginn í herbergi Önnu Maríu verður þannig að táknrænni leið ljóssins inn í heim Önnu Maríu sem myndbirting guðdómsins, Seidl notar ljósið endurtekið í myndinni í þessum sama tilgangi. Anna María gengur hins vegar ekki alla daga á vegi ljóssins heldur á hún sér aðra og dekkri hlið. Eina nóttina tekur hún krossinn niður af veggnum og smeygir undir slétt hvít sængurfötin og fróar sér með honum. Hin hreina himnadrottning nýtur losta kynlífsins sem samkvæmt kristinni kennisetningu er af hinu illa.

 

Sú hreina og sú óhreina

Breyskleiki Önnu Maríu kemur einnig fram í öðru atriði þegar hún gengur heim að loknum vinnudegi sínum við trúboðið, hún sveigir af upplýstri leið í almenningsgarði og gengur fram á hópkynlíf í anda mynda svallmynda Hironimusar Bosch. Anna María gengur á frygðarhljóðin í garðinum og staldrar fulllengi við og fylgist grannt með þegar hún sér hvað um er að vera. Hún hraðar sér síðan heim og skrúbbar sig hreina í baðinu. Atriðið sýnir á táknrænan hátt hvernig þær mætast hin óhreina Eva sem nýtur svallsins og hin „hreina“ Anna María sem vill uppræta syndir mannsins til að færa hann nær Kristi.

 

Tvískinnungur trúarbragða

Í kristinni kennisetningu er sársaukinn og þjáningin refsing sem rekja má til syndafallsins. Menn gjalda fyrir syndina með sársaukanum og öðlast þannig friðþægingu og frelsun. Seidl fer ekki leynt með álit sitt á þeirri þversögn sem í þessu felst og lætur Önnu Maríu taka á sig þjáningar, líkt og Kristur sem dó fórnardauða fyrir syndir mannsins. Anna María krýpur undir krossi og biðst fyrirgefningar í sérstöku tilbeiðslu herbergi, hún setur á sig þyrnibelti og gengur sína eigin píslargöngu. Algerlega af sjálfsdáðum æðir hún biðjandi um íbúðina á hnjánum þar til blæðir úr. Seild dregur hér ekkert undan tvískinnungi trúarbragðanna sem endurspeglast í ofstæki Önnu Maríu.

 

Ólíkir menningarheimar

Nabil (Nabil Saleh), eiginmaður Önnu Maríu, birtist óvænt eftir tveggja ára fjarveru og truflar daglegt líf hennar. Nabil er innflytjandi og múslimi í hjólastól, slysið, sem áhorfendur fá enga frekari vitneskju um hefur þær afleiðingar að hann hættir drykkju og hún finnur trúna aftur en Seidl gefur ekki upp frekari skýringu á hvernig fyrra lífi þessa mótsagnakennda pars var háttað, – sem túlka má sem fulltrúa ólíkra menningarheima og trúarbragða. Nabil er andstæða alls sem Anna María stendur fyrir og þau takast á um trúna með orðum og ofbeldi án þess að hlusta hvort á annað. Sér þvert um geð tekur Anna María á móti manni sínum aftur inn á heimilið, hún gefur honum mat, en matast ekki með honum, þvær af honum fötin en lætur hann afskiptalausan að öðru leiti. Nabil gerir nokkrar misheppnaðar tilraunir til að sænga hjá konu sinni án hefur ekki erindi sem erfiði. Þessi samskipti vekja með honum reiði og enda í ofbeldisfullum slagsmálum þar sem þau takast á um leið og þau rakka hvort annað niður. Samskipti Nabils og Önnu Maríu við kött sem Anna María tók að sér að passa fyrir trúsystur sína endurspegla samskipti þeirra hvort við annað. Hún færir kettinum mat í bílskúrinn og sinnir lágmarks þörfum en veitir enga ástúð, líkt og hún gerir við Nabil. Nabil heldur kettinum hins vegar föstum í fangi sér og vill kúga hann líkt og hann vill þvinga Önnu Maríu til ástar.

 

Kokkálaður af Kristi

Það hvílir ákveðin gróteska og viðurstyggð yfir myndinni, trúarleg átök milli þeirra hjóna taka oft og tíðum á sig ofbeldisfulla mynd. Nabil gerist myndbrjótur og tekur niður og brýtur trúartákn konu sinnar í kjölfar þess að hann hefur verið kokkálaður af Kristi. Í lokaatriði myndarinnar liggur Nabil örþreyttur í rúminu og Anna María krýpur við það grátbiður hann um fyrirgefningu. Yfir rúminu eru tvö veggljós, slökkt er á ljósinu yfir Önnu Maríu en Nabils logar í næturbirtunni.

 

Afhjúpun leikstjórans

Með þessu afhjúpar Seidl blendnar meiningar sínar gagnvart ólíkum trúarbrögðum. Hann fer fremur mildum höndum um trú múslima meðan andúð hans er augljós á hinu strang-kaþólska trúarofstæki sem hann hæðir sundur og saman. Frammistaða aðalleikaranna er með miklum ágætum, áreynslulaust framkalla þau þessar ógeðfelldu persónur sem bæði er erfitt að horfa á en líka slíta sig frá.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone