Hin átakanlega fegurð

Mynd: Simon Mein/Sony Pictures Classics

Nú er komin sá tími ársins sem kvikmyndaunnendur hlakka mest til, það er verðlaunavertíð og Óskarsverðlaunin sjálf eru rétt handan við hornið. Að því tilefni hefur Bíó Paradís ákveðið að halda Óskarsdaga þar sem sýndar verða fimm myndir sem tilnefndar eru í samtals 18 flokkum. Gagnrýnandi Sirkústjaldsins ákvað að nýta tækifærið og varð myndin Mr. Turner fyrir valinu. Í þessari ævisögulegu mynd tekst leikstjórinn, Mike Leigh, á við einn virtasta listmálara Bretlands, J.M.W. Turner (1774-1851).

Turner er þekktastur fyrir rómantísk landslagsmálverk og naut talsverðar velgengni í lifanda lífi en var einnig afar umdeildur. Mike Leigh skrifaði handrit og leikstýrði myndinni sem er tilnefnd til Óskarsverðlauna í fjórum flokkum: fyrir kvikmyndatöku, sviðsmynd, búningahönnun og frumsamda tónlist. Leigh er einn virtasti núlifandi leikstjóri Breta enda hlaut hann BAFTA Fellowship heiðursverðlaunin nú á dögunum.

Í kvikmyndinni mætast fegurð og ljótleiki á átakamikinn hátt. Turner sjálfur er snilldarlega leikinn af Timothy Spall, sem er einna helst þekktur fyrir að leika hinn rottulega Peter Pettigrew úr Harry Potter-kvikmyndabálkinum. Spall hlaut leikaraverðlaunin á Cannes fyrir frammistöðu sína í myndinni en auk þess var Mr. Turner tilnefnd til Gullpálmans. Athygli hefur vakið að myndin er hvorki tilnefnd til Óskarsverðlaunanna í flokki besta leikara, frumsamins handrits né bestu kvikmyndar. Blaðamaður The Guardian var meðal þeirra sem töldu þessa yfirsjón hneykslanlega.

Ljótleiki og fegurð

Við fyrstu sýn birtist Spall okkur í hlutverki Turners sem ansi ljótur og óheillandi maður, en það kemur fljótlega í ljós að persóna hans er margslungnari en svo. Ljótleiki hans verður nánast dýrslegur á köflum, hann rymur eins og björn og hrín eins og svín til skiptis. Turner er erfiður í samskiptum sínum við aðra, en bakvið þetta fas leynist viðkvæm sál sem leggur sig allan fram við að túlka fegurðina sem hann mætir í náttúrunni. Það að þessar gullfallegu landslagsmyndir komi frá svo óframbærilegum manni skapar spennu sem oft verður spaugileg.

Fegurð listarinnar mætir þannig ljótleika hversdagslífsins á fyrri hluta 18. aldar í Bretlandi. Sum atriði verða jafnvel grótesk í andstæðum sínum, eins og þegar hin skrumskælda og hokna þjónustustúlka Hannah reynir að hreinsa burt skordýr úr sýningasal Turners á meðan uppábúnir herramenn eru að skoða málverkin.

Persóna Turners heldur áhorfandanum í heljargreipum, en maður skiptist á að hneykslast á framkomu hans – til að mynda eigingirni og afskiptaleysi gagnvart þjónustustúlkunni og dætrum hans – og því að dást að ósérplægninni og örlætinu þegar hann ákveður að neita himinháu boði auðjöfurs um að kaupa allar myndir hans því hann vill gefa þær bresku þjóðinni.

Það er ekki ofsögum sagt að Spall vinni þrekvirki í hlutverki listmálarans mótsagnakennda. Leikarinn sagði frá því í viðtali í spjallþætti Grahams Nortons að Mike Leigh hafi tveimur árum áður en tökur hófust beðið hann um að leggja stund á málaranám til þess að þau atriði sem sýna hann með pensil við hönd yrðu nægilega sannfærandi. Spall tók þessari áskorun opnum örmum og er orðinn frambærilegur málari í dag.

Allur leikur í myndinni er raunar til fyrirmyndar, þó ber þar helst að nefna Hönnuh (Dorothy Atkinsson); föðurinn William (Paul Jesson), sem er afar náinn syni sínum; og Mrs. Booth (Marion Bailey), sem verður lífsförunautur Turners síðustu æviárin. Samskipti þessara persóna eru mjög sannfærandi en allir aðalleikararnir hafa áður leikið í myndum Leighs. Sviðsetningin var líka afar vönduð þar sem allt frá búningum og niður í minnstu aukahluti styrkti raunsæisblæ myndarinnar.

Vandað til verka

Mr. Turner er í heild sinni sannkallað augnakonfekt, myndatökunni er stýrt af mikilli natni og áhersla er lögð á listaverk Turners og tilkomu þeirra. Eins og fram kemur í myndinni ferðaðist Turner víða um Bretland og Evrópu á sumrin og safnaði sér efni í myndir sem hann svo málaði við heimkomuna. Það er nánast nauðsynlegt að sjá myndina í bíósal eða á stórum skjá, því fegurðin í landslaginu og samspil ljóss og myrkurs í kvikmyndatökunni jafnast á við málverk Turners sjálfs. Það væri álíka mikill missir að sjá myndina á litlum tölvu- eða sjónvarpsskjá eins og að skoða bara eftirprentanir í bókum í stað þess að standa frammi fyrir upprunalegum málverkum í stórum sniðum á listasöfnum á borð við Louvre eða National Gallery.

Turner virðist í myndinni hræðast nútímann og hina nýju tækni, meðal annars ljósmyndatökurnar sem hann telur muni gera listmálara óþarfa. Samt voru margar aðferðir hans framúrstefnulegar á sínum tíma, líkt og sést í myndinni, og mætti hann ekki alltaf jákvæðum viðbrögðum við tilraunum sínum heldur jafnvel talsverðu mótlæti.

Myndin gefur innsýn í heim stórbrotins listamanns auk þess að mála grípandi mynd af heimsveldinu Bretlandi á mikilvægum tímamótum. Mr. Turner hefur nú þegar slegið í gegn hér á landi og ákveðið var að lengja sýningartíma myndarinnar fram að 19. febrúar í Bíó Paradís. Það er því óhætt að mæla með því við alla að nýta tækifærið til að sjá þessa átakamiklu og áferðarfallegu mynd.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone