„Hlakka til að eldast og verða furðulegri“

IMG_0098

Litrík og einlæg málverk Huldu Vilhjálmsdóttur af konum hafa lengi verið í uppáhaldi hjá þeirri sem hér skrifar. Hulda á um þessar mundir verk á VARA-LITUM, afar kraftmikilli og ferskri málverkasýningu í Hafnarborg þar sem sýnd eru verk sex málara fæddra eftir 1970 sem mála hlutbundið og nota mikla liti. Framsetning sýningarinnar er nokkuð óvenjuleg en sýningarstjórinn, Birta Fróðadóttir, velur að blanda algjörlega saman málverkum allra listamannanna í þaulhugsaðri óreiðu.

Ég brá mér á vinnustofuna til Huldu og spjallaði við hana um sýninguna, verkin hennar og tilveru myndlistarmannsins.

Uppsetningin á VARA-LITUM er óvenjuleg og sýningin kom mér mjög skemmtilega á óvart. Hvernig upplifir þú það að verkin þín séu sett upp í svo miklu samhengi og blandi við verk annarra málara?

Mér finnst það æðislegt; þessi leikur í uppsetningunni, að það sé ekki hver í sínu hólfi. Þarna koma saman mismunandi áferðir og litir, þetta opnar fyrir áhorfandanum nýja hugsun um hvað málverk sé.

Hvenær gerðist það að íslenskir málarar fóru að mála í svona miklum litum, svona fígúratíft og leyfa sér að skreyta? Mig minnir að um það leyti sem þú varst í námi við MHÍ skömmu fyrir 2000 hafi íslenskir málarar yfirleitt verið á allt öðrum slóðum.

Hulda Vilhjálmsdóttir - Lucy in the SkyJá, undanfarin sex ár finnst mér ýmislegt hafa breyst. Hefðin hefur verið mikið í umræðunni, það sem hafði áhrif hér áður fyrr og einmitt hérna á Íslandi. Mér finnst það áberandi á þessari sýningu að við erum að þróa málverkið áfram, út frá hefðinni. Sagnalist, ævintýri, náttúran, fólk í náttúrunni, fólk að leika sér, álfar og svolítið súrrealískir draumar. Þetta er líka mikið í tónlist einmitt núna, Of Monsters and Men, Lay Low og Ólöf Arnalds, þjóðleg tónlist og svolítið bernsk. Mér finnst við vera að fara rétta leið.

Undanfarin sex ár? Ertu þá að meina að þessar breytingar geti verið afsprengi Hrunsins?

Já … kannski kemur þessi rómantík út frá því. Fólk hefur meira gaman af því núna að heyra sögur, sögur sem gerast á Íslandi, ekki úti í heimi. Við erum að skoða okkar eigin heim. Það væri gaman að prófa að fara með þessa sýningu til útlanda og sjá hvernig fólk bregst við henni þar.

Ég fór á sýningu í Berlín með verkum frá millistríðsárunum, 1920-1930. Þá gerðist svo margt skemmtilegt. Bauhaus varð til, fólk fór að leita og rannsaka. Mér finnst VARA-LITIR vera leitandi sýning, bæði svolítið súrrelísk og dadaísk. Kannski er það þessi kreppa, sem var þá og er núna, sem vekur upp leikgleði hjá fólki, það sér ljós í erfiðleikunum. Mér finnst listamenn oft vera í fararbroddi breytinga, vera spámenn. Samt þykjum við skrítin og fólk ber oft ekki nógu mikla virðingu fyrir störfum okkar.

Þú hefur sjálf reyndar alltaf finnst mér málað beint frá hjartanu, málað fólk, notað mikla liti … það er eitthvað einlægt við myndirnar þínar. Nú er alltaf ákveðin tíska eða stefna í gangi í listum. Varstu á skjön í skólanum?

Hulda Vilhjálmsdóttir - I Miss You Michael JacksonÉg tók ákvörðun um að halda mínu striki þegar ég byrjaði í náminu og stóð við hana, þótt ég væri oft með martraðir á þessum árum yfir því hvernig sumir kennarar létu við mann. En hér er ég, ennþá að mála. Og var eiginlega alltaf á leiðinni að hætta að vera listamaður! Æ … það er löng saga að segja frá því … og nú er ég alveg hætt að ætla að hætta! Ég hlakka til að eldast við það að vera myndlistarmaður. Það eru mikil forréttindi að vera myndlistarmaður og eldast og verða furðulegri. Þá kemur persónuleikinn sterkar fram og maður verður, held ég, meiri pönkari með aldrinum. Eða ég vona það!

 

Hvað finnst þér erfiðast við að vera myndlistarmaður?

Mér finnst mjög erfitt að sýna og vera að einhverju framapoti, vera ánægð með mig, vera minn eigin umboðsmaður og gagnrýnandi. Mér finnst svolítið sorglegt þegar skapandi fólk vinnur mest í því sem er í kringum skapandi vinnuna og endar á því sitja við tölvuna allan daginn. Það er eins með pólitíkina: Gott fólk fer í pólitík og skriffinnskan og kerfið tekur bara yfir. Maður verður að passa sig.

Hefurðu gengið gegnum tímabil þar sem þú málaðir ekki?

Jájá, ég verð að stoppa öðru hvoru. Ég þarf að hvíla mig stundum. Þetta er ekkert auðvelt. Ég er mjög kröfuhörð manneskja og þarf að bremsa mig af til að fara ekki yfir strikið. Ég vinn í sumum myndum í mörg, mörg ár. En ég er líka með stóra fjölskyldu og hef ekkert endalausan tíma til að mála. Auðvitað nýti ég samt tímann þegar ég er með fjölskyldunni til að hugsa og fá innblástur í verkin.

Heldur fólk stundum að sköpun sé miklu minna mál en hún er?

Einu sinni var kona sem var menntaður læknir, fékk gigt og gat ekki unnið lengur sem læknir og fór í listnám. Hún sagði að það væri miklu erfiðara að vera í listnámi en að læra læknisfræði. Í læknisfræðinni séu kenningar og formúlur tilbúnar til að læra þær en í sköpuninni þurfi maður sjálfur að búa allt til. Það tekur langan tíma að ná tökum á sínu starfi. Kjarval sagði að hann hefði ekki orðið góður teiknari fyrr en um fertugt. Það er dálítið fallegt að hann skuli hafa sagt það. Maður þarf endalaust að endurtaka, rifja upp og halda áfram. Þetta eru gríðarlega miklar tilraunir.

Hvaða fólk er þetta annars sem þú málar? Ertu að mála börnin þín, sjálfsmyndir eða er þetta huldufólk?

Hulda Vilhjálmsdóttir - Leiðangur(Hlær) Auðvitað er þetta Huldu-fólk! En ég var mjög mikið í því fyrst að mála sjálfsmyndir. Síðan var ég orðin dauðuppgefin á því, langaði að kynnast fleiri konum og fór að mála aðrar konur. Þá hætti ég að horfa ofan í sjálfa mig. Skrýtið hvað ég var föst í sjálfri mér og gott að komast út úr því. Ég held það sé hollt fyrir fólk að speglast í öðru fólki. Ein myndin á sýningunni heitir Kona frá Jemen. Ég kynntist henni, hún er mannfræðingur, kom hingað í nám og það hafði svo mikil áhrif á mig hvað hún var góð manneskja og yndisleg. Og allt í einu gat ég klárað mynd sem ég hafði verið lengi að mála og verið svo óánægð með. Hún endaði sem mynd af þessari konu.

Og hvernig veit maður svo hvenær maður er búinn að mála mynd? Það er alltaf hægt að mála annað lag ofan á, ekki satt?

Það er nefnilega svolítið vandamál að vita það. Svo tekur það litina tíma að þorna og þeir breytast með tímanum. Það er mismunandi eftir litum hversu mikið þeir breytast. Rauð mynd getur sérstaklega verið ljót til að byrja með en verið orðin miklu fallegri eftir þrjú ár! Olíumálverk halda eilíflega áfram að þróast og verða yfirleitt fallegri og fallegri með aldrinum.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone