Höfundar Uppskriftabókar: Eygló skrifar ævintýri sem eru ekki við hæfi barna

Teikning eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur
Teikning eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur

Líkt og Sirkústjaldið hefur greint frá stendur nú yfir söfnun á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund. Markmið söfnunarinnar er að ná saman nægu fjármagni fyrir prentkostnaði bókar sem er í vinnslu. Bókin nefnist Uppskriftabók en er skáldverk og inniheldur smásögur, ljóð og myndasögur.

Verkið er samstarfsverkefni tíu rithöfunda og sjö ritstjóra sem stunda meistaranám í ritlist og ritstjórn við Háskóla Íslands. Þrátt fyrir titilinn er ekki um matreiðslubók að ræða og bókin inniheldur ekki uppskriftir í algengasta skilningi þess orðs. Höfundarnir tíu takast á við uppskriftaþemað á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt. Eygló Jónsdóttir er einn þeirra höfunda sem birtir sögur sínar í bókinni.

Við fengum að leggja fimm spurningar fyrir Eygló:

Hver eru mestu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu?
Maðurinn minn segir að þau séu að ég steiki sviðin en honum finnst líka ófyrirgefanlegt að ég klippi spaghettíið niður til að það passi betur í pottinn.

Rafbækur eða prentbækur?
Alveg hiklaust prentbækur. Ég þarf að snerta á bókinni, finna áferðina, lyktina af henni og heyra skrjáfið þegar ég fletti blaðsíðunum.

Hver er síðasta bók sem þú last?
Táningabókin hans Sigurðar Pálssonar. Dásamleg lesning. En svo eru alltaf nokkrar ljóðabækur á náttborðinu. Nú er það Hjörturinn skiptir um dvalarstað eftir Ísak Harðarson sem kemur mér skemmtilega á óvart.

Hver er besti gagnrýnandinn eða fyrsti lesandinn á þínum eigin textum?
Það er dóttirin sem les alltaf yfir fyrir mig og gagnrýnir mig á sanngjarnan hátt hvort sem um er að ræða ritverk eða nýja klippingu.

Hver er eftirminnilegasti kennarinn úr skólagöngu þinni?
Uppáhalds kennari minn var Bergljót Kristjánsdóttir íslenskukennari við Flensborgarskólann, nú starfandi við Háskóla Íslands. Hún var kennari sem sýndi nemendum sínum einlægan áhuga og hafði trú á getu þeirra. Hún hefur verið mér mikil fyrirmynd í mínu starfi sem framhaldsskólakennari.

 

Ævintýralegar dæmisögur

Það má segja að þær fimm sögur sem Eygló skrifar fyrir bókina leitist við að finna uppskrift að lífshamingjunni á kíminn og ævintýralegan hátt. Þar kynnumst við meðal annars konunni sem var svo alvarleg að hún þurfti að fara á hlátursjóganámskeið, manninum sem elskaði lífið svo mikið að hann gat ekki dáið og fáum goðsögn um uppruna eins vinsælasta fæðuefni heims. Stílinn er blátt áfram og hressandi, en þó sögurnar séu skrifaðar í léttum stíl eru umfjöllunarefnin oft ekki við hæfi barna.

 

Hér má sjá brot úr einni sagnanna:

Pínulitli maðurinn ákvað því að hann vildi ekki lifa lengur svona lítill og mislukkaður. Hann einsetti sér að kveðja heiminn næstkomandi sunnudag. Hann keypti fullt af hættulegum pillum sem hann ætlaði að taka inn þegar enginn vissi af. En fyrst vildi hann fara á ærlegt fyllirí. Hann var búinn að heyra svo margar sögur frá skólafélögunum í menntó að hann vildi ekki fara úr þessum heimi án þessa að hafa upplifað eitt slíkt.

Hann fann því vegabréfið sitt (því enginn myndi afgreiða hann án skilríkja) tók strætó niður í bæ og gekk galvaskur inn á fyrsta barinn sem á vegi hans varð. Þetta var snemma kvölds og ekki margir viðskiptavinir á barnum. Pínulitli maðurinn leit í kringum sig og sá að enginn virtist veita honum nokkra athygli. Þeir örfáu viðskiptavinir sem þar voru horfðu voteygðir ofan í drykki sína. Sumir virtust halla ískyggilega mikið annað hvort til vinstri eða til hægri.

Pínulitli maðurinn fann til öryggis þarna innan um þessa vinalegu drykkjumenn. Hann gekk að einum barstólnum og hóf að fikra sig upp á stólinn með erfiðismunum. Sætið var hátt en á endanum tókst honum með mikilli útsjónarsemi og staðfestu að koma sér fyrir á kringlóttum stólnum. Nú náði hann nokkuð vel upp á barborðið og gat pantað sér drykk eins og hver annar fullvaxta karlmaður. Barþjónninn færði honum drykk án þess svo mikið sem að spyrja um passa eða koma með athugasemdir um stærð hans.

Þarna sat nú pínulitli maðurinn, drakk og spjallaði við barþjóninn og voteygðu kúnnana langt fram á nótt. Honum gekk ekkert afskaplega vel að drekka úr þessum stóru glösum en það gerði ekkert til. Hann hafði ekki skemmt sér svona vel síðan hann var fimm ára og ekki búinn að fatta að hann var pínulítill. Þegar barþjóninn sagði honum að nú þyrfti hann að fara heim var hann alveg búinn að gleyma að þetta átti að vera síðasti dagur hans í jarðlífinu. Hann kvaddi vinalega barþjóninn og sagðist ætla að koma aftur næsta kvöld.

Næsta dag vaknaði pínulitli maðurinn með pínulítinn höfuðverk en ákvað samt að hann myndi standa við loforð sitt og mæta á barinn á slaginu sjö. Hann klifraði aftur upp á stólinn, heilsaði barþjóninum og voteygðu kúnnunum og pantaði sér rauðan drykk. Hann lék á als oddi, allt kvöldið og var alveg búinn að gleyma hættulegu pillunum heima hjá sér. Hann reytti af sér brandara og hlustaði af athygli á afar sorgmæddan mann. Skálaði við sköllótta konu og bauð gömlum skjálfandi manni upp á romm og kakó.

Þetta er lífið, hugsaði pínulitli maðurinn og ákvað að hætta við að kveðja tilveruna, í bili að minnsta kosti.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone