Höfundar Uppskriftabókar: Lóa Hlín vildi helst búa í Múmindal

Lóa-Lóa

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er meistaranemi í ritlist og tekur um þessar mundir þátt í því að safna fyrir prentkostnaði skáldverksins Uppskriftabók á Karolina Fund, þar sem hægt er að tryggja sér eintak af bókinni í forsölu.

Bókin er samstarfsverkefni tíu rithöfunda og sjö ritstjóra sem eru í meistaranámi við Háskóla Íslands í ritlist og hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Á einungis fjórum mánuðum tekst hópurinn á við alla þætti útgáfuferlisins, allt frá skrifum og ritstjórn textans sjálfs til umbrots, prentunar og fjármögnunar.

Í slíku verkefni láta allir til sín taka á mismunandi sviðum, styrkleikar hvers og eins eru nýttir og allir læra sömuleiðis eitthvað nýtt af hvorum öðrum. Lóa hefur, fyrir utan það að semja eigin texta og teikna myndir fyrir skáldverkið, teiknað myndir af öllum þátttakendum og staðið í kynningarmyndbandsgerð ásamt öðrum nemum.

Í skáldverkinu Uppskriftabók, sem er væntanlegt í maí 2015, má finna smásögur, ljóð, myndasögur og ýmislegt fleira sem allt hverfist á einn eða annan hátt um uppskriftir – þó ekki séu þær allar hentugar til manneldis. Lóa Hlín er ekki að gefa út bók í fyrsta sinn en hún gaf meðal annars út myndasögusafnið Lóabóratóríum fyrir jólin 2014.

 

Sirkústjaldið bar fimm stuttar spurningar fyrir Lóu:

Hver eru mestu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu?
Ég man ekki eftir mestu mistökunum í svipinn en nýjustu mistökin gerði ég í síðustu viku þegar ég ætlaði að gera einfalda pastasósu fyrir son minn. Ég setti mjólk og rifinn ost í pott og kveikti á hellunni. Ég bjóst við því að osturinn myndi bráðna í mjólkinni en þetta varð bara að appelsínugulum vökva með gúmmíkenndri drullu í botninum. Sósan, eða öllu heldur sullið, var gjörsamlega óæt og þar sem ég er mjög blönk akkúrat núna fannst mér ótrúlega leiðinlegt að horfa á eftir gúmmíostinum í ruslið.

Hver er uppáhaldsmatur þinn?
Hægeldaða nautakjötssamlokan sem ég fékk í fyrrasumar. Mig langaði að æpa og hlæja því hún var svo góð.

Hver eru framtíðarplön þín hvað varðar útgáfu og skrif?
Mig langar að reyna að gera aðra Lóaboratoríumbók (samansafn af myndasögum eftir mig). Mig langar líka að skrifa heila skáldsögu.

Rafbækur eða prentbækur?
Rafbækur eru fínar, sér í lagi vegna þess að sumar prentbækur er erfitt að nálgast, en ef ég þyrfti að velja hvor miðillinn fengi að lifa af þá myndi ég velja prentbækur. Mér finnst svo gaman að fletta bókum og kannski þefa ég stundum af blaðsíðunum og mögulega hef ég sterkar skoðanir á pappír.

Ef þú gætir búið hvar sem er, hvaða staður yrði fyrir valinu?
Á Íslandi ef við gætum losað okkur við álverin, lundabúðirnar, forsetann, græðgina, fúskið og … nei annars, það færi líklega betur um mig í Múmíndal.

 

Lóa er þekktust fyrir myndasögur sínar, en í Uppskriftabók birtast eftir hana punktaróman með myndum. Þar fáum við að skyggnast inn í hugarheim eldri konu sem háir eins konar sálfræðihernað gegn nýjum nágrönnum sínum. Húmorinn er aldrei langt undan og teikningarnar draga mann inn en undir niðri má finna þyngri tón einangrunar og þráhyggju. Hér má sjá stutt brot úr texta hennar, án mynda:

Brot úr Að hrella granna:

VIII

Þvottahúsið er ríki mitt. Þar munum við mætast. Ég ætla ekki að gefa eftir eins
og þar síðast. Ég veit hvaða snúrur tilheyra mér. Reglur sameignarinnar þarf
að útskýra fyrir nýjum leigjendum en fyrst þarf að undirbúa jarðveginn og sá
fræjunum.

IX

Fyrstu kynni eru mikilvæg. Ég sýni aldrei öll spilin sem ég hef á hendi.
Þegar hún kemur mun ég ekki heilsa að fyrrabragði. Ef hún heilsar ætla ég að
þegja því svoleiðis þögn tekur fólk á taugum. Ég ætla að leyfa orðunum að
hanga í loftinu innan um þvottasnúrurnar. Þegar hún hættir að búast við svari
og gleymir sér við að troða spjörunum inn í vélina, ætla ég að segja henni
hvaða snúrur hún megi ekki nota.

X

Í kvöld ætla ég að hafa opið fram á gang svo að ég heyri þegar hún fer og
nær í þvottinn af snúrunum niðri. Ég ætla að vera á sokkaleistunum svo
nágrannakonan heyri ekki í mér þegar ég nálgast. Um leið og hún kveikir á
þvottavélinni ætla ég að birtast í dyragættinni.

XI

Hún verður hvekktari með hverjum deginum sem líður. Ég veit að hún hugsar
alltaf um mig þegar hún fer niður í þvottahús. Hún veltir fyrir sér hvort ég muni
koma henni að óvörum. Á morgun ætla ég að vera vingjarnleg við manninn
hennar.

XII

Ruslageymslan. Ég sá hana fara með grænan poka í tunnuna. Allir
mínir pokar eru gulir með bleiku eða hvítir með gulu. Hún bindur lausa hnúta
með höldunum. Þegar maðurinn hennar keyrir í burtu ætla ég að sýna henni
hvernig best er að binda um hnútana. Hún er of kurteis til að segja mér
að fara mína leið.

XIII

Hafragrautur.

Hálfur bolli af haframjöli
Einn bolli vatn
Salt á hnífsoddi
Ekkert fleira.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone