Höfundar Uppskriftabókar: Margrét Bjarnadóttir

Kápa bókarinnar Uppskriftabók – skáldverk

Eins og við höfum áður fjallað um hér á Sirkústjaldinu standa ritlistar- og ritstjórnarnemar við Háskóla Íslands um þessar mundir í útgáfu á skáldverkinu Uppskriftabók sem mun koma út 28. maí. Núna eru aðeins örfáir dagar eftir af forsölu bókarinnar á Karolina Fund og því síðustu forvöð að tryggja sér eintak því óvíst er hvort henni verður dreift í bókabúðir.

Miðvikudaginn 15. apríl kl. 21:00 í Stúdentakjallaranum stendur hópurinn fyrir barsvari (e. pubquiz) til að kynna bókina. Veglegir vinningar verða í boði fyrir þátttakendur, léttar veitingar fyrir þá sem koma tímanlega og tilboð á barnum.

Margrét ætlar að skrifa bók þegar hún hefur eitthvað að segja

Teikning eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur

Teikning eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur

Margrét Bjarnadóttir er meistaranemi í ritlist og einn höfunda bókarinnar. Sirkústjaldið hitti hana tali og lagði fyrir hana nokkrar spurningar.

Hver er síðasta bókin sem þú last?
Ástarmeistarinn eftir Oddnýju Eiri Ævarsdóttur.

Hver eru framtíðarplön þín varðandi útgáfu og skrif?
Engin plön, bara að halda áfram að vera vakandi; horfa, skynja og upplifa. Sjá til þess að móttökuskilyrðin séu sem opnust. Svo meltist þetta allt saman og maður gefur til baka í einhverju formi. Það kemur bók þegar ég hef eitthvað að segja (með orðum), annars myndi ég ekki vilja að það kæmi bók.

Segðu okkur frá eftirminnilegasta atvikinu úr skólagöngu þinni?
Þegar ég rankaði við mér eftir að hafa flutt fyrirlestur um samband Gunnars og Hallgerðar í íslensku í 5. bekk í MR. Ég veit ekkert hvað ég sagði og mun aldrei komast að því. Eftirminnilegt blackout.

Hvaðan kemur innblástur þinn helst?
Úr hinum mörgu lögum og víddum raunveruleikans!

Ef þú gætir búið hvar sem er, hvaða staður yrði fyrir valinu?
Ég myndi vilja búa í New York í þrjá mánuði á ári, á einhverjum hlýjum og sólríkum stað í náttúrunni og við sjóinn í þrjá mánuði og í Reykjavík það sem eftir er árs.

Brot úr texta Margrétar

Í Uppskriftabókinni birtast þrír textar eftir Margréti og, eins og hún orðar það sjálf, eru þeir svo ólíkir að það er eins og þeir séu eftir þrjár manneskjur sem myndu líklega aldrei verða vinir.

Hér fyrir neðan sjáum við brot úr textanum „Barnaleikir“:

Þegar ég var níu ára átti ég bekkjarsystur sem ég lék mér oft við eftir skóla. Hún var jákvæð, hláturmild, hugmyndarík og góð í fótbolta. Hún brosti einlægt en samt var alltaf svolítið eins og hún væri að afsaka tilvist sína. Hún var aldrei með neitt vesen og fór aldrei í fýlu sem mér þótti eftirsóknarvert í fari leikfélaga. Í stað þess að önnur okkar ákvæði hvað við tækjum okkur fyrir hendur, skrifuðum við á miða alls kyns hugmyndir. Svo drógum við og gerðum það sem kom upp: teiknuðum, tókum upp útvarpsþátt á kassettutækið hennar, fórum í látbragðsleik, danskeppni og ég man ekki hvað.

Mamma vinkonu minnar var grannvaxin og útlimalöng með sítt svart hár. Hún var öðruvísi en aðrar mæður sem ég þekkti. Hún bar armbandsúr á vinstri úlnlið og skífan nam alltaf við púlsinn.  Ég hafði ekki séð neinn bera armbandsúr þannig. Kærasti hennar var ekki pabbi vinkonu minnar, ég vissi aldrei almennilega hvort hann bjó hjá þeim eða ekki. Pabbi vinkonu minnar var franskur og bjó í Frakklandi, hún átti líka eldri bróður en hann var sjaldnast heima. Mamma hennar var yfirleitt heima en ég var aldrei viss hvort hún tæki eftir mér, mér fannst hún alltaf horfa einhvern veginn í gegnum mig. Stundum var eins og hún vissi að ég væri þarna og hefði alls ekkert á móti því, án þess að hún horfði beint í augun á mér eða heilsaði. Stundum fannst mér eins og hún tæki ekki einu sinni eftir dóttur sinni. Vinkona mín lét eins og það væri ekkert athugavert við þetta.

Einhvern tímann þegar við vorum uppi í herbergi að leika okkur heyrðum við hávært rifrildi á milli mömmu vinkonu minnar og kærastans. Það endaði með því að útidyrahurðinni var skellt, mamman öskraði einhver óskiljanleg orð og grátur fylgdi. Ég spurði vinkonu mína hvað væri að og hvort hún vildi ekki fara niður til mömmu sinnar. Hún sagði nei, nei og hló svo hlátri sem var í engu samræmi við spurninguna. Ég vissi ekki hvort mér þótti óþægilegra, að verða vitni að þessum öskrum, hurðaskelli og gráti eða viðbrögðum vinkonu minnar. Hún hélt bara áfram að leika eins og ekkert hefði í skorist. Ég reyndi að gera það líka.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone