Höfundar uppskriftabókar: Þór Fjalar teygir á ímyndunaraflinu með vísindaskáldskap

Mynd eftir Lóu Hjálmtýsdóttur
Mynd eftir Lóu Hjálmtýsdóttur

Þór Fjalar Hallgrímsson er meistaranemi í ritlist og einn þeirra sem vinna að því um þessar mundir að safna fyrir prentkostnaði skáldverksins Uppskriftabók á Karolina Fund.

Bókin, sem er samstarfsverkefni tíu rithöfunda og sjö ritstjóra undir leiðsögn Sigþrúðar Gunnarsdóttur, ritstjóra hjá Forlaginu, mun koma út í maí. Rithöfundarnir og ritstjórarnir eru allir í meistaranámi við Háskóla Íslands og munu, eins og áður hefur komið fram hér á Tjaldinu, takast á við allar hliðar útgáfuferlisins, allt frá skrifum og ritstjórn textans sjálfs til umbrots, prentunar og fjármögnunar.

Í verkinu má finna smásögur, ljóð, myndasögur og ýmislegt fleira sem allt hverfist á einn eða annan hátt um uppskriftir – þó ekki séu þær allar hentugar til manneldis.

Sirkústjaldið spjallaði stuttlega við Þór og lagði fyrir hann fimm spurningar:

Hver eru mestu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu?
Ég man ekki eftir neinum stórkostlegum mistökum nema þá helst þegar ég hef sett eitthvað í ofninn og gleymt því þannig að útkoman varð eins og kínarúllur og franskar skornar út í kol. Algengustu mistökin sem ég geri er þegar ég ætla að elda af fingrum fram og get ekki hætt að bæta innihaldsefnum við þannig að útkoman verður algerlega óæt.

Hver eru framtíðarplön þín hvað varðar útgáfu og skrif?
Það væri gaman að gerast atvinnumaður í bókaskrifum en ég reyni að stilla væntingum í hóf og stefni bara að því til að byrja með að sjá bók eftir mig sjálfan í hillu bókasafnsins þar sem ég vinn.

Hvert er eftirminnilegasta atvikið úr skólagöngu þinni?
Eftirminnilegasta önnin úr framhaldsskóla var sú sem átti að verða sú síðasta, þegar ég bauð mig fram til að vera ábyrgðarmaður Stúdentaskemmtunar sem haldin var til að safna fyrir Spánarferð. Það vatt upp á sig svo ég endaði á að verða propsari, handritshöfundur, framleiðandi og leikari á sýningunni og féll auðvitað í öllu þannig að þetta varð ekki síðasta önnin. En ég fór samt til Spánar!

Hvaðan kemur innblástur þinn helst?
Ég eins og fleiri trúi því að söguhugmyndir eigi sér sjálfstætt líf og sveima um þangað til þær finna höfund í leit að viðfangsefni. Eitthvað í líkingu við kenningar Carl Jung um sameiginlega undirvitund manna. Það er bara verst að það skuli ekki vera gefin út tilkynning þegar hugmyndir eru teknar í notkun. Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir að ég telji mig hafa fengið sérdeilis frumlega hugmynd en uppgötva svo við leit á netinu að það er þegar búið að skrifa bók eða búa til bíómynd útfrá henni.

Ef þú gætir búið hvar sem er, hvaða staður yrði fyrir valinu?
Ég hef aldrei komið til Portúgal en einhverra hluta vegna vildi ég gjarnan búa þar við sjávarsíðuna, samt einhversstaðar þar sem ferðamenn eru ekki í meirihluta miðað við heimamenn.

Vísindaskáldskapur í uppáhaldi

Þór Fjalar skrifar vísindaskáldskap fyrir Uppskriftabókina en af hverju varð sú grein fyrir valinu hjá honum?

„Af því að það bókmenntaform hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Það sem mér finnst skemmtilegt við vísindaskáldskap er til að byrja með að formið teygir á ímyndunaraflinu og sem lesanda finnst mér gaman að ferðast á sem mest framandi slóðir með sögupersónum. Svo bíður greinin líka upp á það að tekist sé á við stórar samfélagslegar og heimspekilegar spurningar. Sögur um vélmenni eru t.d. oft um það hvað gerir manneskju mannlega og sögur um tímaferðalög eru oft um örlög vs. tilviljanir og frjálsan vilja. Ursula LeGuin, einn af mínum uppáhaldshöfundum, skrifar til að mynda um samskipti kynjanna í bókinni Left Hand of Darkness á mjög frumlegan hátt sem erfitt væri að líkja eftir í neinu nema vísindaskáldskap því í þeirri sögu eru íbúar á plánetu einni tvíkynja og ræður hending ein þegar tveir einstaklingar eiga mök hvor gengur með afkvæmið.“

Saga Þórs ber nafnið Strand og fjallar um hversu langt manneskja getur verið tilbúin að ganga til þess að deyja ekki úr hungri.

Hér má líta stutt brot úr sögunni sem birtist í Uppskriftabók:

„Stígðu frá hurðinni“ endurtók hurðin hærra með sömu bassaröddinni. „Með því að reyna að komast í gegnum þessar dyr ertu að stofna lífi allra í áhöfninni í hættu.“
„En það er enginn hérna nema ég,“ reyndi hún að mótmæla aftur eins og hún hafði gert svo oft áður. „Ég er ein eftir.“
„Ef þú ferð ekki frá hurðinni neyðist ég til að beita raflosti sem getur verið banvænt.“
„Já gerðu það bara, bittu enda á þetta. Ef þú þorir, ég skal veðja að þú þorir ekki.“
„Ég sé ekki tilganginn með veðmáli en ég mun beita afli, telji ég þörf á því. Eitt einstakt líf áhafnarmeðlims er ásættanlegur fórnarkostnaður til að bjarga öllum öðrum í áhöfninni.“
„En ég er sú eina sem er eftir af áhöfninni, það er vandamálið.“
„Ég legg til að þú ræðir það vandamál við yfirmann. Farðu frá hurðinni,“ básúnuðu nú hátalararnir og skerandi sárt væl tók að berast úr þeim.
Hún spyrnti sér frá, skreið nokkra metra og hélt fyrir eyrun. Eftir nokkrar mínútur þagnaði öryggishurðin aftur.
„Þakka þér fyrir samstarfsviljann, áhafnarmeðlimur. Ekki gera þetta aftur.“
Hún staulaðist á fætur og inn í bókasafn skipsins sem lá á hægri hönd, það hafði orðið helsta afdrep hennar undanfarið. Bókasafnið var í staðlaðri rómantískri útgáfu, mikið af þykkum doðröntum og hnattlíkönum fyrir allar plánetur sólkerfisins. Inn á milli voru svo nútímalegri verk sem höfðu ekki verið gefin út á pappír en skemmtiferðageimskipið hafði látið útbúa fyrir sig gamaldags útgáfur á prenti. Samt var tæknin nýtt við hillumerkingar, frá hillunni um mannkynssögu stafaði geislum sem vörpuðu myndum í loftið fyrir ofan; af seglskipum, hellisbúum og körlum í ýmsum einkennisbúningum mismunandi herja á mismunandi tímum.
Hvert skref var þrekraun, kannski var þetta bara hungrið eða mögulega hafði þyngdaraflsvélin vanstillst eitthvað. Þetta var eins og að hreyfa sig í þykkum seigfljótandi vökva. Hungrið nagaði hana að innan og málmkennt bragðið í munninum varð sterkara með hverjum degi eins og hausverkurinn sem fór líka versnandi. Hver hugsun var áreynsla og nú stóð hún bara og starði út í loftið og reyndi að muna hvað hún ætlaði að gera. Fór svo og settist í barnadeild safnsins.
Þar á borðið var hún búin að teikna kort með vaxlitum af útlínum skipsins og svæðisins sem hún var föst á.
Þegar loftsteinadrífan, eða hvað þetta var, skall á geimskipinu höfðu öryggishurðir lokast sjálfkrafa á milli allra hólfa og svæða. Hún sat föst á miðjum gangi milli tveggja öryggishurða með skúringafötu fyrstu tvo dagana. Svo hafði önnur hurðin opnast og hleypt henni inn á svæðið þar sem hún sat föst. Á kortinu var hún búin að merkja svæðin sem hurðirnar óopnanlegu stúkuðu af; bókasafnið, hluta af sjúkrahúsinu og matarlaust eldhúsið.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone