Höggdofa eftir loftslag

Mynd: Kristín María Kristinsdóttir
Mynd: Kristín María Kristinsdóttir

Ég átti nýverið óvænt samtal við ungan frænda minn um loftslagsbreytingar og viðbrögð Íslendinga við þeim. Af einskærum fordómum gagnvart áhugasviði ungra drengja, hafði ég búist við því að tala fyrir daufum eyrum en ekki aðeins þekkti hann málefnið vel heldur hafði hann einnig myndað sér skoðun um það. Eftir að ég hafði rætt um súrnun sjávar, hækkandi vatnsyfirborð og mögulegar en jafnframt fjarlægar lausnir tjáði hann mér að það væri ekki til neins að velta fyrir sér hvernig við eigum að bregðast við loftslagsvandanum, við værum einfaldlega allt of sein að gera eitthvað í málunum. Það væri sama hvað við myndum gera frá og með deginum í dag, við gætum aldrei verndað allt það fólk sem mun farast vegna fellibylja, flóða og eyðileggingu vistkerfisins – og því ættum við ekki að hugsa um þetta, það er of erfitt.

Að heyra þessa einlægu yfirlýsingu frá strák sem hafði verið eitt fyrsta tilraunadýr mitt, á síðan löngum ferli barnapössunar var sláandi, en þó ekki hvað síst vegna þess að skeytingarleysi hans felur samt sem áður í sér viðurkenningu á loftslagsbreytingum og ábyrgð Vesturlanda á þeim vanda.

Viðbrögð Íslendinga við upplýsingum um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra má segja að hafi farið eftir hefðbundnum sorgarferlum.  Hinn óbærilegi sársauki þessara tíðinda setur af stað hefðbundin varnarviðbrögð: ringulreið, afneitun, úrvinnslu og loks sátt við þær breytingar sem í vændum eru. Eðlileg fyrstu viðbrögð við áfalli eru að hafna því sem gerst hefur og neita því að trúa þeim er flytur vátíðindin. Og í takt við það hefur reynst langt ferli að viðurkenna alvarleika ástandsins, þrátt fyrir röksemdir virtustu vísindamanna heimsins.

Með aukinni meðvitund um loftslagsbreytingar meðal þjóðarinnar hafa ýmsir fundið sig knúna til þess að bregðast við. Í miðri ringulreiðinni við að reyna að vinna úr upplýsingunum, hafa margir farið þá leið að draga fram jákvæðar hliðar  ógnarinnar. Til að mynda hafa þeir bent á efnahagsleg tækifæri Íslands á norðurslóðum eða möguleika á vínrækt í uppsveitum (sjá samantekt og gagnrýni Guðna Elíssonar á þessa umræðu). Þeir hinir sömu hafa þó ekki bent á tækifæri annarra þjóða í því samhengi, enda er hefðbundið að mitt í áfalli dragist sjónarhorn einstaklingsins saman, svo mikið að það nær sjaldan út fyrir nærumhverfi hans.

bury-your-head-in-the-sandÖðrum fallast hendur frammi fyrir vandanum og vilja grafa höfuðið í sandinn. Í þann hóp hafði frændi minn skipað sér. Afstaða hans og margra annarra er ef til vill röng en hún er heiðarleg. Hún viðurkennir alvarleika málsins og bugast að vissu leyti frammi fyrir þeirri sorg sem meðvitundin um það getur af sér. Slík afstaða getur hins vegar ekki staðist þar sem hún felur í sér sinnuleysi. Að halda fyrir augun og ímynda sér að vandinn hverfi eru ekki boðleg viðbrögð þegar um líf fólks er að ræða. „Við verðum að horfast í augu við missi og eyðileggingu. Missir og eyðilegging eru raunveruleiki um allan heim“, sagði fulltrúi Filippseyja á þingi Sameinuðu þjóðanna í nóvember á síðasta ári. Þar grátbað hann ríki heimsins um að skuldbinda sig til að gera róttækar breytingar til að sporna við áhrifum loftslagsbreytinga.

Við getum ekki flúið þetta vandamál. Við verðum að þora að standa andspænis því og mæta þeirri sorg sem því fylgir í von um að aðgerðir okkar geti að lokum stuðlað að sátt manna í millum.  Sú sátt er ef til vill ekki í augsýn, en leiðin þangað er ljós og áfangastaðurinn fjarlægist því lengur sem við erum að bregðast við á fullnægjandi hátt.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone