Hrikalegur, Haukur!

Hrikalegir, mynd: Haukur Valdimar Pálsson

Þegar gengið var inn í troðfullt anddyri Tjarnarbíós föstudagskvöldið 21. febrúar var margt um vöðvastæltann manninn. Kraftajötnarnir höfðu nýlokið við sýningu, þar sem skorað var á gesti að taka 150 kg í bekkpressu. Ég var mætt ásamt tveimur vinkonum á frumsýningu nýrrar íslenskrar heimildarmyndar, Hrikalegir eða Hellacious uppá ensku.

Leikstjórinn, Haukur Valdimar Pálsson, hefur áður getið sér gott orð sem meðframleiðandi heimildarmyndar um veitingamanninn Sægreifann sem kom út í fyrra. En viðfangsefni myndarinnar Hrikalegir virtist mér hins vegar ekki sérlega aðgengilegt í fyrstu: kraftajötnar að lyfta í bakhúsi við Hlemm sem kallast Steve Gym. Efasemdirnar reyndust þó ástæðulausar og við áhorfið birtist löngu gleymdur heimur frá því að ég fylgdist spennt með sérstökum sjónvarpsútsendingum frá keppnum um titilinn Sterkasta mann heims í æsku.

Kraftlyftingaheimurinn fór nokkuð undir yfirborðið eftir að Jón Páll gekk til moldar. En í Hrikalegir komumst við að því að hann lifir góðu lífi innan veggja Steve Gym þar sem Stefán „Steve“ Hallgrímsson, 66 ára frjálsíþróttameistari, þjálfar margan skrautlegan manninn upp í að verða heimsklassa kraftlyftingamaður.

Það var hálf óraunverulegt að sjá hversu mörg Íslandsmet og heimsmet margir þeirra höfðu sett síðustu áratugi, og metinn héldu áfram að streyma inn þegar leið á myndina. Þegar Haukur fylgir jötnunum sem Steve þjálfar eftir á mótum, bæði heima og erlendis, var allur salurinn var farinn að taka andköf og fagna (innra með sér að minnstu) þegar lóðum var lyft og kraftar metnir. Það er auðvelt að hrífast með þegar farið er nær og áhorfandin kynnist þeim skemmtilegu persónum sem leynast þarna innanbúðar. Í raun eru kraftlyftingar líka mjög sjónvarpsvæn íþrótt, en það hefur vantað upp á viðurkenningu þeirra sem íþróttar hérlendis og víðar.

Hrikalegir vekur upp margar áhugaverðar spurningar um íþróttir, félagsanda og líkamsímynd og ég mæli heilhjartað með því að áhugasamir drífi sig á næstu sýningar í Tjarnabíói um helgina, þann 27. og 28. febrúar kl. 21.00.

Til þess að rýna betur í tilurð myndarinnar fékk ég að leggja nokkrar spurningar fyrir leikstjórann Hauk Valdimar um ferlið og kraftlyftingaheiminn.

hrikalegir_pose

Hvernig kynntist þú þessum kraftlyftingaheimi fyrst?

Bróðir minn, Palli Rokk, hóf lyftingar í Steve Gym fyrir um tuttugu árum og sagði mér frá þessu. Tíu árum síðar kom ég loks inn fyrir dyrnar og var mjög hissa því þetta var svo lítill og skrýtinn staður og persónurnar öðruvísi en ég hafði gert mér í hugarlund, en ég hef einmitt fengið svipuð viðbrögð frá öðrum sem hafa séð myndina eftir að hafa heyrt um gymmið utan úr bæ.

Hvenær komstu að því að þig langaði að gera heimildarmynd um Steve Gym?

Mjög fljótlega eftir að ég gekk inn um 2005. Ég var í Kvikmyndaskólanum þá og við bróðir minn sem er leikari ræddum það þegar við vorum að lyfta þarna. Ég er svo frekar hægvirkur en þolinmóður að eðlisfari svo ég beið og beið en það fór vel að lokum, þar sem ég kynntist mönnum betur og vissi svo þegar ég byrjaði upptökur betur hvernig myndin ætti að vera og hvernig þessi söguheimur gekk fyrir sig.

Hvað heillaði þið sérstaklega við þann stað?

Þetta er lítið samfélag sem starfar innan hins almenna samfélags eða utan við það, þar sem tíminn virðist standa í stað og gildin eru öll önnur en í hinu almenna lífsgæðakapphlaupi. Maður finnur eitthvað rafmagn í loftinu sem fyrirfinnst ekki í venjulegri líkamsræktarstöð. Markmið manna er ekki að léttast um einhver kíló eða fá sinn hálftíma af hreyfingu heldur alger umbreyting anda og líkama og svo heimsmeistaratitlar. Þarna ná menn markmiðum sínum undir handleiðslu Steve, sem er furðulegur lærimeistari margra kynslóða kraftlyftingamanna. Hann gefur manni alltaf önnur ráð en seinast, jafnvel þveröfug, svo maður veit aldrei hvert stefnir en eitthvað virðist virka þar sem hann hefur breytt 100% öryrkjum í Íslandsmeistara í kraftlyftingum.

Eru einhverjar aðrar heimildamyndir sem hafa haft áhrif á þína eigin kvikmyndagerð?

Já, svo sem Searching for Sugar Man, sem er einmitt öskubuskusaga að forminu til eins og kannski Hrikalegir, saga sem er skrýtnari en nokkur skáldskapur. Einnig „cinema verité“-myndir Maysles-bræðra, svo sem Rolling Stones-myndin Gimme Shelter. Þeir reyna að vera fluga á vegg en rannsóknin hefur auðvitað alltaf áhrif á viðfangsefnið. Svo allar myndir meistarans Þorfinns Guðnasonar, sem lést í síðustu viku, sér í lagi Lalli Johns og Hagamúsin, hann sýndi manni möguleika íslenskar heimildarmyndagerðar, þeir eru óteljandi. Ævintýrin gerast enn.

Hefur þú fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hverju þú vilt koma til leiða með þeim myndum sem þú gerir?

Já en það breytist oft algerlega í tökum, sérstaklega með heimildarmyndir. Ein möguleg aðalpersóna, tónlistarmaðurinn Siggi Ármann, dó til dæmis í upphafi, og ég var í raun við öllu viðbúinn eftir það og hagaði seglum eftir vindi. Fljótlega varð Kári Köttur að stærstu persónunni þar sem hann er manna fróðastur og reyndastur í þessari íþrótt og kann ekki að hætta keppni. Hann fékk reyndar hjartaáfall í upphafi myndarinnar en tók þá að æfa á laun, svo hjartalæknirinn og konan stöðvuðu hann ekki. Svo hélt hann bara áfram að safna heimsmeistaratitlum þau fjögur ár sem tökur stóðu yfir.

IMG_0265

Hefur þú sjálfur keppt mikið í kraftlyftingum? Hvernig var sú reynsla?

Já ég tók á tímabili þátt í mótunum, sem var ákveðin rannsókn, og varð reyndar Íslandsmeistari og meiraðsegja Evrópumeistari í réttstöðulyftu (deadlift). Þá hafði ég skráð mig í sérkeppni í réttstöðulyftu á Evrópumóti sem haldið var á Akureyri í júní 2010 en flestir erlendra keppenda afboðuðu komu sína vegna goss í Eyjafjallajökli svo ég var einn í mínum þyngdarflokki og vann sjálfkrafa, en tók samt 220 kg til að sýna smá viðleitni.

Hvernig upplifir þú viðhorf samfélagins í dag gagnvart kraftlyftingum?

Þær eru litnar hornauga, hugmyndin um íslenska karlmenn sem þá sterkustu í heimi hefur fallið af stalli síðan Jón Páll og félagar sköpuðu hana á mektarárum sínum. Á meðan íslenskar konur hafa átt sigurgöngu að fagna, frá yfirborðskenndri útlitsdýrkun níunda áratugarins til þess að vera fyrirmyndir kvenfrelsisbaráttunnar og heilbrigðrar skynsemi, hafa karlmenn eiginlega helst vakið vafasama athygli fyrir fjármálasnilld sína og svo fjárglæfrastarfsemi, ímyndarsköpun ráðamanna og fræðimanna hefur beðið skipbrot og íslenskir karlmenn eru í eiginlegri krísu. Þessi ímyndarvandi er áþreifanlegur í dag en í Steve Gym er ennþá níundi áratugurinn og góðæri þar er þegar við eigum sterkasta mann heims eða heimsmethafa, kreppa er þar slanguryrði yfir vaxtarræktarkeppni. Hið almenna viðhorf hefur einkennst af áhugaleysi en það hefur engin sjáanleg áhrif á metnað kraftlyftingamanna.

CAT

Í myndinni sýnir þú brot úr viðtali sem Eiríkur Jónsson tók við Kára Kött árið 1993, sem endurspeglar nokkuð neikvæð viðhorf gagnvart kraftlyftingum. Finnst þér þau viðhorf hafa breyst eitthvað í dag?

Það viðtal var líklega skömmu eftir dauða Jóns Páls sem var í janúar 1993. Nú eiga kraftlyftingamenn sitt félag innan ÍSÍ en persónur myndarinnar keppa utan þess, svo koma upp mál þar sem menn falla á lyfjaprófum þó þeir keppi löglega svo almenningur hefur skiptar skoðanir. Klofningurinn milli félaga veldur svo því að fáir skilja hvaða heimssambönd fylgja hvaða reglum og flestir vita reyndar ekki muninn á ólympískum lyftingum og kraftlyftingum. En nú nýverið hefur almenningur fengið áhuga á kraftlyftingum, þær eru eiginlega að verða að æði eins og cross-fitness og fullt af stúlkum að keppa. Maður þarf alls ekki að vera stór eða áberandi stæltur, hægt er að keppa í ýmsum flokkum og fólk stækkar almennt lítið ef það æfir kraftlyftingar í hófi, styrkist aðallega. Vaxtarrækt byggir á miklu pumpi sem stækkar vöðva, kraftlyftingar á fáum endurtekningum með meiri þyngdir sem auka hámarkspressukraft vöðva.

Telur þú það mikilvægt að þú hafir verið slíkur innanbúðarmaður til að fá þessa nánd við aðalpersónurnar sem birtist í myndinni?

Sko, ég hef reynt að koma köllunum í viðtal við fjölmiðla en þeir vilja varla tala við þá, svo ég held að ég hefði alls ekki getað gengið inn og byrjað að rúlla þessa mynd án þess að kynnast þeim fyrst. Þetta var ekki eins og lærlingurinn sem bíður í viku krjúpandi á fótskör musterisins til að fá svo að bera vatn fyrir meistarann í fimm ár áður en hann lærir kung fú – en samt ekki fjarri því.

Ég vildi fjalla um allar hliðar baráttu kraftlyftingamanna, sem eru utangarðs, bæði sjálfrar baráttunnar við lóðin og svo við almenn gildi þjóðfélagsins. Ég vildi ekki blása þetta út í einhverja æsifréttamennsku, spyrja hvort sterar séu betri eða verri en áfengi, sígarettur eða dóp…

Fannst þér mikilvægt að fjalla um fordóma þess efnis að kraflyftingamenn yrðu að nota stera til að ná árangri – eða vildir þú frekar beina kastljósinu að öðru?

Athyglin beinist sjálfkrafa að sterunum vegna þess að allar hugmyndir fólks um kraftakarla gera ráð fyrir notkun þeirra, svo ég vildi frekar einbeita mér að persónunum, því hvað knýr menn áfram og hvernig þessi menningarkimi starfar, en svo koma sterarnir alltaf upp í huga áhorfandans. Ég vildi sýna þennan menningarheim án þess að leggja dóm á hann, áhorfendur gera það svo sjálfir og draga ályktanir sínar, þó það sé minnst á þá sjáum við ekki sjálfa neysluna. Spurningin er af hverju menn leggja allt á sig, ekki bara steraneyslu heldur allt þetta erfiði, til að ná einhverjum árangri. Er það til að vekja athygli, til að geta virkilega lyft einhverri ákveðinni þyngd í grömmum, eða vegna einhverrar sælutilfinningu sem fylgir þessu? Ég vildi fjalla um allar hliðar baráttu kraftlyftingamanna, sem eru utangarðs, bæði sjálfrar baráttunnar við lóðin og svo við almenn gildi þjóðfélagsins. Ég vildi ekki blása þetta út í einhverja æsifréttamennsku, spyrja hvort sterar séu betri eða verri en áfengi, sígarettur eða dóp, sýna sólbrennda glæpamenn sprauta hreinu testósteróni í upphandlegginn, það heillaði mig ekki og er enda fjarri öllu sem ég hef séð. Það síðasta sem ég vildi gera var að tala í kameru og segja skoðun mína, það er ekki kvikmyndagerð.

Þú talar um utangarðsmenn og furðufugla í kynningarefni myndarinnar, þeim bregður vissulega fyrir, en hví heldur þú að þeim sé líka boðið í þennan lokaða hóp Steve Gym?

Steve hefur sérstakan áhuga á ólíklegum afreksmönnum og hefur fundið þá á götum úti, í einhverri óreglu og á furðulegum stöðum. Kötturinn og fleiri hafa svo verið gæslumenn á geðdeildum og þar hafa fundist heljarmenni sem eru nú sterkustu menn stöðvarinnar. Það virðist fara vel saman, þeir fyllast trú á sjálfa sig fyrir tilstilli Steve og lyfta stanslaust, prógrammið heldur þeim svo við efnið og kyrrir öldugang geðklofans, þó þeir séu vissulega enn á sterkum geðlyfjum. Þetta er þó engin allsherjarlausn fyrir alla en þjálfun er alltaf góð, líkamleg og andleg heilsa fer saman. Ég veit þó að það þýðir ekki að spyrja þunglynda og geðsjúka af hverju þeir skelli sér ekki bara í ræktina, en þegar Steve er kominn af stað virðist hann geta virkjað einhvern neista sem er í flestum löngu slokknaður.

HRIKaSteve

Hvað vonast þú til að áhorfendur taki með sér frá myndinni?

Einhverja jákvæðni og opnari huga gagnvart þjóðfélagshópi sem flestir hneykslast á eða gagnrýna án þess að þekkja. Ef ég fæ einhvern þeirra sem eiga kort hjá glæpamönnum eins og World Class – sem kaupa sér fjölmiðla til þess eins að ritskoða þá – til að endurskoða afstöðu sína gagnvart öreigum og öryrkjum sem stunda kraftlyftingar af hugsjón er ég sáttur.

Hvernig finnst þér að vera kvikmyndagerðarmaður á Íslandi í dag? Hverju myndir þú helst breyta í umhverfinu hér?

Ja, ef einhverjir þeirra milljarða sem fara í áliðnað, kísiliðju eða til að niðurgreiða hlutabréfabrask kvótaeigenda færi frekar í þekkingariðnað eins og kvikmyndir, tölvuleikjaiðnað eða hönnun þá væri hér byggilegt í framtíðinni. Þangað til verður maður að strita allan sólarhringinn til að standa í kvikmyndabrölti. Við höfum í raun verið í stöðugum niðurskurði frá hruni og glatað mörgu hæfileikafólki og þekkingu úr landi eða í aðrar greinar. Ég var sjálfur í Latabæ og ýmsum spennandi klippidjobbum fyrir hrun, svo var minna að gera en þá gat ég einmitt gert þessa mynd í frístundum, svo hefur eftirvinnslan tafist vegna anna. Það er í raun allt til alls hérlendis nema peningar, sagan sýnir að fé sem fer í kvikmyndastyrki skilar sér margfalt í þjóðarbúið næstumþví samstundis.

Ertu með önnur verkefni í vinnslu eins og er? Hvert stefnir þú í framtíðinni?

Ég er kominn í Listaháskólann á sviðshöfundabraut núna, þar lærir maður leiklist, leikstjórn, handritun og leikhúsfræði ýmis konar, að klára annað árið af þremur. Ég er að vinna auk skólans að uppfærslu elsta leikrits Íslandssögunnar, Sperðils eftir Snorra á Húsafelli, sem hefur aldrei verið frumsýnt. Svo er ég með eina leikna mynd í fullri lengd í forvinnu og eina stuttmynd, svo er ég líklega að fara að leika í einni í fullri lengd síðar á árinu. Einnig þarf að kynna og dreifa heimildarmyndinni erlendis, auk annarrar myndar sem ég meðframleiddi, um Sægreifann. Ég er svo einnig diskódansari með hljómsveitinni Boogie Trouble og vinn eitthvað að myndlist og ætla kannski bráðum að skrifa skáldsögu. Þetta hljómar samt eins og manni gefist ekki tími til allra þessara verkefna en ég er yfirleitt með mörg járn í eldinum, svo á endanum fer allt saman einhvernveginn, þótt margur efist um það á tímabili.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone