Hrímsleginn ævintýraskógur – Viðtal við Silju Aðalsteinsdóttur um Grimmsævintýri

Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntapáfína.
Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntapáfína.

Sögur og ævintýri hafa fylgt okkur flestum frá barnsaldri. Það er fátt sem vekur ímyndunaraflið á sama hátt og talandi ljón, vondar stjúpur og hnotur sem hægt er að nota eins og ferðatöskur. Grimmsævintýri komu nýlega út hjá Forlaginu í endursögn Philips Pullmans. Silja Aðalsteinsdóttir þýddi bókina og skrifaði viðauka sem tengja ævintýrin í safninu við íslenskar þjóðsögur og ævintýri. Sirkústjaldið tók Silju tali um þýðinguna, ævintýrin og menningararfinn.

 

Leiðarhnoða Pullmans við endursögn ævintýranna var „Hvernig myndi ég segja þessa sögu sjálfur ef ég hefði heyrt hana frá öðrum og vildi láta hana ganga áfram?“ Hann hvetur ennfremur lesendur til þess að halda áfram að gera breytingar á ævintýrunum þegar þeir segja þau áfram. Því var ekki úr vegi að spyrja Silju hvort hún hefði fylgt sömu meginhugmynd við þýðinguna.

„Ég sé svolítið eftir því að hafa ekki gert meira af því. Ég las hana alla upphátt þegar ég var búin að þýða og Gunnar [eiginmaður Silju] fylgdist með í frumtextanum. Þá gerði ég náttúrulega talsverðar breytingar. En mér finnst núna að ef ég hefði leyft handritinu að liggja í hálft ár og síðan tekið það og hvorki hirt um Grimmsbræður né Pullman, heldur bara hvernig ég myndi orða hlutina, hefði ég gert fleiri breytingar. Kannski ekkert margar, en lagað textann svolítið betur að mínum smekk. Núna, þegar ég hef verið að lesa upphátt úr bókinni, geri ég smá breytingar og treysti þá á að hlustendur muni ekki hvað ég sagði orðrétt þegar þeir fara svo að lesa bókina! Ég geri ekki svo miklar breytingar heldur. Bara aðeins að mýkja, láta textann renna svolítið betur. En ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem ég er að þýða. Ég ber mikla virðingu fyrir Pullman og náttúrulega enn meiri virðingu fyrir Grimmsbræðrum. Ég bar mjög oft texta Pullmans saman við þýska textann, ef það var eitthvað flókið eða eitthvað verulega áhrifamikið, til að sjá hvernig það var í þýska textanum. Pullman var mjög trúr þeim bræðrum. Eiginlega trúrri heldur en ég átti von á. Hann velur náttúrulega rosalega góðar sögur og þá vill maður bara halda áhrifunum eins og þau eru. Ekki treysta sjálfum sér til þess að betrumbæta það sem búið er, það sem aldirnar hafa slípað.“

Grimms_aevintyri

Í formálanum segir Pullman að þjóðsögur séu ekki texti í sama skilningi og aðrar bókmenntir. „Þær eru ekki skáldskapur,“ segir Silja. „Þær eru ekki höfundarverk eins og skáldsögur eða ljóð heldur er þetta einhvers konar frumefni sem hefur orðið til… sköpunarverk kynslóða. Og svo megum við breyta því sjálf. Við megum nota okkar orð og eigum að nota okkar orð þegar við endursegjum. Þurfum ekki að vera hundslega trú.“

Myndmálið gefur ímyndunaraflinu frelsi

Ævintýrin eru misjöfn í frásagnarstíl. Myndmál er einfalt í flestum þeirra, en ævintýrið um Mjallhvíti er sér á báti hvað það varðar. „Sögumennirnir voru ólíkir, smekkur þeirra var misjafn. Sumir höfðu auga og eyra fyrir smáatriðum og höfðu gaman af að mála þau upp og aðrir voru í svona stærri atriðum, svolítið gróteskari. Það er náttúrulega kosturinn við þessi ævintýri, hvað þau eru fjölbreytt. Ef þau væru öll í sama stíl myndi maður ekki endast til þess að lesa fimmtíu af þeim í beit.“ Ævintýrin eiga það þó flest sameiginlegt að áhersla er lögð á atburði og hraða framvindu sögunnar, en mun minna púðri eytt í upplýsingar á borð við nöfn, staði o.fl. „Já, nöfn, aðstæður, forsagan, persónuleikar, umhverfislýsingar, þær eru náttúrulega yfirleitt algjörlega í skötulíki,“ segir Silja. „Sagan er staðsett á bæ eða sveitabæ, eða ef það þarf tjörn, þá er tjörn. En það eru atburðirnir sem ævintýrin leggja áherslu á. Sagan.“

Hver er ástæða þess að þetta einfalda myndmál ævintýranna verður svona sterkt í menningunni? Flestir geta samstundis séð fyrir sér eitraða eplið hennar Mjallhvítar, eða froskaprinsinn að eltast við boltann og þessar ímyndir hafa verið notaðar aftur og aftur í alls kyns dægurmenningu. „Er þetta ekki bara hugmyndaflug okkar sem hlustum eða lesum? Við málum upp úr þessu einfalda byggingarefni sem við fáum í sögunni, ef það stendur hjá konungshöllinni var stór skógur … búum við umsvifalaust til þennan mikla skóg og við getum látið snjóa í hann og við getum látið sólina skína og hrímið glitra og þetta verður svo mikill matur fyrir hugmyndaflugið. Það er ekki verið að mata mann, manni er bara gefið stikkorð og svo býr maður til. Svo kemur Disney og túlkar þetta allt út í hörgul og þá þarf maður ekkert ímyndunarafl,“ segir Silja og hlær.

Bókin er sett þannig upp að á eftir hverju ævintýri kemur viðauki frá Pullman. Í viðaukanum er alþjóðlegt númer ævintýrisins og athugasemdir frá Pullman. Þar sem við á er líka viðauki frá Silju um sögu ævintýrisins á Íslandi. „Ég hugsa að hann hafi byrjað á þessu til þess að fá tækifæri til að útskýra ef hann breytir einhverju án þess að það verði sérstaklega áberandi,“ útskýrir Silja. „Hann er með smá hala á eftir hverri sögu þar sem hann nefnir þetta ævintýranúmer og hvaðan Grimmsbræður höfðu söguna og tengir það við ævintýri sem fólk þekkir. Hann er með fá ævintýrasöfn, hann er bara með Ítalíu og Rússland fyrir utan Bretland, en gott og vel, þetta er allt saman til bóta svo getur bara hver þjóð fundið hjá sér þar sem við á. Ég veit ekki hvort einhverjir aðrir hafi gert það úti í heimi en mér fannst þetta bara liggja svo beint við. Sérstaklega eftir að ég komst nú að því að þessi ævintýranúmer voru til hjá okkur í sjötta bindi Jóns Árnasonar. Þá hafði fræðimaður lagt á sig að lesa öll bindin og merkja okkar ævintýri með þessum alþjóðlegu ævintýranúmerum. Þegar ég leitaði þau uppi kom í ljós að þarna var bara heill fjársjóður sem ég hafði ekki hugmynd um. Ég hafði aldrei lesið þessi síðari bindi. Ég hafði bara lesið þessi fyrstu tvö sem voru þau sem Jón Árnason gaf út á sínum tíma, sem langflestir þekkja og oft hafa þau bara komið út ein. Það er kannski fyrst og fremst í seinni bindunum sem þessi alþjóðlegu minni koma fram. Jón hefur kannski ekki verið eins hrifinn af þeim.“

Reyndar hafði Hans verið að láta steinana detta einn og einn á stíginn fyrir aftan sig. Hann leit við til að vera viss um að þeir sæjust.

Reyndar hafði Hans verið að láta steinana detta einn og einn á stíginn fyrir aftan sig.
Hann leit við til að vera viss um að þeir sæjust.

Íslensku ævintýrin eiga ýmislegt sameiginlegt með alþjóðlegri frásagnarhefð. „Mér finnst þau vera mjög lík Grimmsævintýrum, þau leggja áherslu á atburði en ekki umhverfi eða sálarlífslýsingar eða neitt slíkt. En íslensku ævintýrasögumennirnir eru ekki alveg eins passasamir með þrískiptinguna. Þeir gleyma sér stundum, tíma ekki að hætta þegar þeir eru komnir vel á veg!

Íslenskir sögumenn staðsetja sig oft með því að nota íslensk nöfn og staðhætti, eða sem sagt bara staðarnöfn. Nú man ég ekki dæmi um að þetta stangist verulega á, að við séum greinilega í útlendu umhverfi. Og þó, það eru náttúrulega, kóngar og drottningar og konungsríki en svo heitir kóngurinn Oddur. Oft eru álfheimar eins og útlönd. Þar er konungborið fólk, en ekki í mannheimum. Í mannheimum er stórbóndi en konan sem kemur óvænt og vinnur hjá honum og hverfur á jólanótt er drottning í álfheimum.“

Íslensk sagnahefð í Grimmsævintýrum

Hægt væri að ímynda sér að íslensku skrásetjurunum hafi þótt mikilvægara að staðsetja sögurnar í umhverfi sem Íslendingar þekkja. „Ja, það rekast náttúrulega á tvær hefðir hjá okkur, þ.e.a.s. Íslendingasagnahefðin þar sem allir eru nafngreindir og staðsettir og svo útlenska hefðin. Þar er bara bóndasonurinn, hermaðurinn og prinsessan og sjálfsagt hafa margir íslenskir sögumenn átt bágt með að segja langa sögu án þess að hafa nafn á aðalsöguhetjunni. Og maður getur mjög vel skilið það og frægustu söguhetjurnar fá náttúrulega nöfn. Eins og Rauðhetta, það er eins og hún sé nafnlaus lítil stúlka þangað til amma hennar saumar henni rauða hettu og eftir það heitir hún Rauðhetta. Mjallhvít fær nafnið sitt þegar hún fæðist en Þyrnirós fær nafn þegar hún er búin að sofa í heila öld í þyrniskóginum. Það er svolítið sérkennilegt.“

Það er þá ekki bundið við konur að fá ekki nöfn? „Nei, síður en svo,“ segir Silja með áherslu. „Það er frekar að stelpurnar fái nöfn og það var eitt af því sem ég uppgötvaði, hvað stelpur eru áberandi söguhetjur, í þessu úrvali Pullmans að minnsta kosti. Það eru níu prinsessur aðalpersónur og níu venjulegar stúlkur, en bara þrír kóngssynir aðalpersónur og átta venjulegir drengir. Svo hins vegar þegar við komum í aukapersónurnar, þá eru kóngssynirnir orðnir níu, en kóngarnir fimmtán. En alveg dæmigerðar aukapersónur, því þeir eru aflið á bakvið. Það er engin drottning aðalpersóna, ein vinnukona en tvær drottningar aukapersónur. Og stjúpurnar og nornirnar eru allar aukapersónur.

Var þessi fjölbreytni meðvituð hjá Pullman? „Ég hef ekki hugmynd um það en mér finnst það nú sennilegt. Ég eiginlega þori varla að fullyrða þetta, því ég hef ekki rannsakað það en mér finnst ólíklegt að þetta sé svona í öllum 210 sögunum. Það verður svo fjölbreytt mynd af fólki, allir þessir iðnaðarmenn og svo hermenn náttúrulega og konurnar áberandi fleiri. Það eru auðvitað endalaus stríð úti í Evrópu þegar þessi ævintýri eru að myndast og hermennirnir sendir heim úr herþjónustu með enga peninga og jafnvel sárir og fótalitlir. Maður fær ákveðna þjóðfélagsmynd þó þessar sögur séu sannarlega ekki að reyna að vera neinn realismi.“

Þá var Gréta ekki sein á sér en ýtti svo fast á rassinn á norninni að hún missti jafnvægið og datt inn í ofninn.

Þá var Gréta ekki sein á sér en ýtti svo fast á rassinn á norninni
að hún missti jafnvægið og datt inn í ofninn.

Hvernig vinnur þýðandi með þessa endursagnaraðferð Pullmans? „Pullman talar um anda sögunnar og að maður verði að finna hann og þjóna honum við endursögnina. Ég las rosalega mikið af ævintýrum sem barn. Ég átti þýðingarnar hans Theodórs Árnasonar sem komu út í fimm heftum, mig minnir að það hafi verið 75 ævintýri sem hann þýddi úr Grimmsævintýrunum, afskaplega klassískt og fallegt orðfæri sem er mér svo tamt að stundum var bara eins og ég ýtti á einhvern takka og textinn bara kom. Ég hafði hann hjá mér líka þegar ég var að þýða og bar saman við. Ég held að andinn hafi verið samvaxinn mér, sérstaklega í þeim sögum sem ég þekkti fyrir, og ég þekkti náttúrulega meirihlutann. Mér voru sögð ævintýrin þegar ég var barn og ég var ákaflega handgengin ævintýrunum. Ég hef lesið þessi tvö bindi af Jóni Árnasyni oftar en ég fæ tölu á komið og valið úr þeim í kennslubækur og svo ævintýrasafnið Köttur úti í mýri þannig að ég held að ég hafi alveg verið að minnsta kosti hálfmeðvituð um þennan sögumann, þennan söguanda sem maður þyrfti að sýna virðingu og passa að móðga ekki. En líka þar held ég að ein yfirferð í viðbót hefði fært mig nær, sérstaklega þeim sögum sem ég þekkti ekki fyrir.

Ég er að þýða Helle Helle núna sem er eins ólík ævintýrum í stíl og hægt er að hugsa sér því hún skrifar eiginlega danskt talmál, þar sem er tæpt á hlutum og maður veit ekki hálfan tímann hvað í andskotanum hún er að meina. En í ævintýrunum er allt svo ljóst. Maður velkist aldrei í vafa. Einstöku sinnum breytir karakter um eðli, eins og prinsessan sem sveik manninn sinn í Snákalaufunum þremur, en í 99% tilvika þá er bara sá vondi vondur og sá góði góður.“

Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntapáfína.

Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntapáfína.

Það liggur gríðarleg vinna í þessari bók. Pullman var með frumtextann, nokkur ævintýrasöfn og mörg rit um eðli ævintýranna og fræði tengd þeim, eins og sjá má í heimildaskrá. Silja lagði heilmikla rannsóknarvinnu í þýðinguna og viðaukana með íslensku ævintýrunum. Eru ævintýrasöfn almennt unnin svona? „Ég hef aldrei séð það áður að þetta sé gert svona. Ég get alla vega talað fyrir sjálfa mig og ég get ekki ímyndað mér annað en að ég tali fyrir Pullman þegar ég segi bara að þetta er bara ást á þessum sögum sem gerir það að verkum að maður fær eiginlega ekki nóg. Mann langar til þess að gera þetta eins vel úr garði og maður getur, þetta er náttúrulega bara ást og ástríða. Þegar maður fær svona verkefni sem er bara alveg dásamlega skemmtilegt verk að vinna þá langar mann til að skila því af sér eins vel og hægt er. Bara það að senda fólk í þessi bindi af þjóðsögum Jóns Árnasonra sem fáir hafa lesið fannst mér svolítið skemmtilegt. Ég vona bara að sem flestir átti sig á því hvað við eigum mikinn fjársjóð þar.“

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone