Hrollvekja á hrekkjavöku – um Dúkku eftir Gerði Kristnýju

Dukka

Nýútkomin bók Gerðar Kristnýjar, Dúkka, fylgir hefðbundinni fléttu hrollvekja nokkuð nákvæmlega. Skrímslið er kynnt þegar Kristín Katla, tíu ára, kaupir sér mjög eftirsóknarverða dúkku í afmælisgjöf. Dúkkan reynist ekki öll þar sem hún er séð og það verður Kristínu Kötlu til bjargar að Pétur Uni, tvíburabróðir hennar, neitar að sofa í sama herbergi og dúkkan og hún nær því ekki fullkomnum völdum yfir henni. Pétur Uni er líka sá fyrsti til að komast að því að dúkkan er í eðli sínu ill. Systkinin berjast saman við skrímslið og bera sigur úr býtum.

Frásögnin rammar þannig inn öruggt umhverfi fyrir unga lesendur með því að sýna fram á að hetjurnar sem þeir geta samsamað sig geta yfirbugað hið ljóta og óhugnanlega í tilverunni

Sigur hins góða á hinu illa er mikilvægur þáttur í hrollvekjum fyrir börn, vegna þess að börn nota óttann sem hryllingssagan vekur til þess að sigrast á eigin innra óöryggi í öruggu umhverfi og þá er uppgjörið við skrímslið mikilvægur þáttur. Í Dúkku fellur allt í ljúfa löð þegar skrímslið hefur verið sigrað og börnin þannig kveðið illskuna og óttann í kútinn. Frásögnin rammar þannig inn öruggt umhverfi fyrir unga lesendur með því að sýna fram á að hetjurnar sem þeir geta samsamað sig geta yfirbugað hið ljóta og óhugnanlega í tilverunni.

Gerður Kristný

Gerður Kristný

Kristín Katla og Pétur Uni hafa nýlega misst föður sinn og Kristín Katla kennir sjálfri sér um dauða hans. Bókin hefur því aukna vídd, því samhliða baráttunni við skrímslið (dúkkuna) þarf Kristín Katla líka að berjast innri baráttu við sorg og sektarkennd. Börn eru ekki gömul þegar þau uppgötva dauðann og hann hefur ákveðna nærveru í lífi þeirra. Óttinn við dauðann, þeirra eigin eða náinna ættingja, er því þekkt stærð fyrir flest börn og þetta fallega uppgjör við sorgina og sektarkenndina sem aðalsöguhetjan ber í brjósti sér á því fullt erindi við lesendur bókarinnar, unga sem aldna.

Börn eru ekki gömul þegar þau uppgötva dauðann og hann hefur ákveðna nærveru í lífi þeirra

Í bók Gerðar er einnig komið inn á þekkt minni úr hryllingssögum, eða tvífaraminnið, því hryllingsdúkkurnar taka á sig mynd eigenda sinna og eigendurnir breytast einnig til þess að líkjast dúkkunum sífellt meira. Þetta spilar inn á ótta lesandans við hið þekkta, og hvað þekkir maður betur en sjálfan sig? Það er mjög óhugnanlegt þegar einhver tekur á sig mynd sjálfsins og ógnar þannig tilvist fyrri ímyndareiganda og tekur jafnvel yfir verund hans.

Dukkabls25

Myndskreyting Lindu Ólafsdóttur

Í Dúkku er stiginn hárfínn jafnvægisdans. Hún er óhugnanleg og spilar á minni og myndir sem lesendur þekkja, en hún er líka falleg og það eru fallegar senur með huggulegri fjölskyldustemmingu og sorglegum minningum um horfinn heimilisföður. Vinátta barnanna er sjálfsögð og innileg og hversdagsleiki þeirra og skemmtanir eru sömuleiðis hugljúfar. Textinn er fagurlega skrifaður og vandaður og stórfallegar en óhugnanlegar myndskreytingar Lindu Ólafsdóttur skapa hið fullkomna andrúmsloft fyrir mátulegan hrylling. Gerður Kristný er mjög fær barnabókahöfundur og Dúkka er afbragðsgott innlegg í íslenskar barnabókmenntir sem vönduð hryllingssaga.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone