Hvað gerir maður við ónotað og opið rými á vinnustofu listamanna?

_MG_6374_2560

-Heimsókn í Gallerí Verkstæði sem mun opna með sýningunni Stækkunargler fyrir vindinn

Í Gallerí Verkstæði eru verk í vinnslu og stæði fyrir verk til sýninga. Myndlistamennirnir Halldór Ragnarsson og Jón Pálmar Sigurðsson deila húsnæði með fatahönnuði þar sem hver er með sína vinnustofu uppi á annarri hæð umhverfis gryfju í miðju rýminu. Þessi opni kjarni nýttist listamönnunum ekki og fannst þeim því tilvalið að auðga listalíf borgarinnar og opna gallerí á vinnustofunni sem er um tvöhundruð fermetrar að stærð. Halldór, menntaður úr framhaldsnámi í myndlist frá Listaháskóla Íslands gaf sér tíma í spjall um galleríið sem opnar þann 11. desember.

Áhersla gallerísins verður á hinn klassíska flöt og segir Halldór það þurfa að endurreisa og viðhalda málverkinu eða hinum tvívíða fleti. Hann bætir við að útgangspunkturinn mun vera að sýna verk eftir listafólk sem vinnur með tvívíddina á áhugaverðan hátt. Galleríið miðar ekki sérstaklega á unga, nýútskrifaða listamenn. Heldur er tónninn gefinn með því að varpa ljósi á þrjátíu ára gömul verk þar sem fyrsta sýningin, Stækkunargler fyrir vindinn, mun vera hluti af seríu eftir Helga Þorgils Friðjónsson frá árunum 1977 -1980. Verkin leyfa manni að rýna í fyrstu skrefin í átt að nýja málverkinu. En þau varpa einnig ljósi á þá hugmyndafræði sem er að finna í verkum listamannsins á undanförnum árum. Serían sem um ræðir var talsvert umdeild á sínum tíma og gengu gagnrýnendur jafnvel svo langt að halda því fram að þetta væri síðasta málverkið á Íslandi, að íslensk myndlist ætti sér ekki viðreisnar von úr því að þessi verk hefðu verið máluð.

Það er því ekki úr vegi að þessar tilteknu myndir Helga séu hafðar til sýnis á Verkstæðinu. Þær voru einmitt unnar í ákveðnu andófi gegn listumfjöllun þegar listamenn unnu að tilraunum með flötinn en mættu niðurrifi gagnrýnenda og því má velta því fyrir sér hvort listumfjöllun síðustu áratuga hafði áhrif á úrvinnslu listarinnar á striga, blaði eða fleti. Verkin ættu þannig að henta sýningarrýminu vel þar sem áhersla verður lögð á málverkið og útvíkkun þess en Halldór segir þann þátt listarinnar ekki hafa verið gert nógu hátt undir höfði hér á landi undanfarin ár. „Helgi kenndi mér fyrir næstum áratug og hafði á vissan hátt mikil áhrif á mig með hugsun gagnvart listinni almennt og ég vildi endilega að hann myndi opna fyrstu sýninguna í galleríinu, einfaldlega vegna þess að mér þykir hann mikill meistari á sínu sviði“, segir Halldór og bætir því við að hann „hafi alltaf viljað sjá sýningu með eldri verkum hans“. „Hann (Helgi) reyndist svo hafa sömu hugmynd um það áður en við töluðum saman, þetta var því fyrirfram ákveðið“.

Gallerí Verkstæði, staðsett á Grettisgötu 87 í bakhúsi á milli Rauðarárstígs og Snorrabrautar, er óhefðbundið gallerí sem er og verður fyrst og fremst opið sköpunarrými listamannanna sem eiga sér vinnustofu í húsnæðinu. Sýningarrýmið er því ekki í fyrirrúmi, heldur aukagrein sem unnin er af af hugsjón í hjáverkum húsráðenda. „Sýningar munu standa yfir í mánuð í senn og eflaust munu koma tímabil þar sem engin sýning mun standa yfir, það er óráðið“, segir gallerístinn Halldór.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone