Hverfulleiki á Hverfisgötu – Volcano 1

volcano 1

Myndband birt með leyfi Sequences og listamannsins

Á húsgafli við Hverfisgötu 42 stendur veggverkið Volcano, 1 (2008) sem er eftirtektavert fyrir margar sakir. Verkið tilheyrir The Mountain Series (2006-2008) eftir Theresu Himmer en auk eldfjallsins stóð serían saman af foss í Bankastræti og jökul í Sirkúsgarðinum á Klapparstíg. Myndaröðin sýndi íslenska náttúru á framandgerðan hátt með notkun á flaksandi pallíettum. Verkið sem hér um ræðir myndar seigfljótandi kviku úr eldgosi og er sett fram með rauðum og gylltum pallíettum sem glitra um leið og þær dingla með í vindinum.

Verkið er blendingsform veggmálverks og tækni sem sótt er til auglýsinga- og skiltagerðar. Tæknileg virkni miðilsins felur í sér hreyfanleika glitrandi eininga sem þekja yfirborð flatarins sem skilar sér með grípandi hætti. Yfirborðið þenur sig út í rýmið fyrir hreyfingu andrúmsloftsins og endurkastar glitrandi ljósi í umhverfið. Í verkinu má greina áhugaverða blöndun og krossræktun listmiðla. Formið felur í sér krossræktun málverks, innsetningar, skúlptúrs og hreyfilistar með tilliti til efniseiginleika.

Ægifegurð / gervimenning

Serían og verk hennar í miðborg Reykjavíkur fjalla um tengsl náttúru og neyslumenningar og eiga með þeim hætti brýnt erindi við samfélagið. Marglaga merkingatengsl skapast í mótsagnakenndum eiginleikum og andófi við hefðina. Verkin fela í sér framandgervingu menningarverðmæta með framsetningu í formi sem sprottið er úr lágmenningu neyslusamfélags. Volcano, 1 vísar í ægifegurð stórbrotinnar náttúru sem skipar stóran sess í sjálfsmynd þjóðarinnar. Verkið er staðbundin (e. site specific) innsetning í almannarými og býr yfir skúlptúrískum eiginleikum á tvívíðum fleti. Það byggir á hefð málverksins um leið og það felur í sér hreyfingu. Serían og inntak hennar, með tilliti til framsetningar, er hvort í senn óður til íslenskrar náttúru og gagnrýni á óhóflega markaðssetningu hennar.

„I am for an art. . . that does something other than sit on its ass in a museum.“

Claes Oldenburg, 1961

Veggverk í almannarými er aðgengileg list sem verður á vegi áhorfandans fremur en að hann þurfi að leita hana uppi á söfnum eða í sýningarrýmum. Menn setja sig síður í stellingar áður en verkið er virt viðlits og lýsir það sér í annars konar upplifun af þeim sökum. Þegar vel tekst til getur upplifun vegfarandans á verkinu átt sér stað með óvæntum og áhrifaríkum hætti. Það getur  orðið til þess að verkið á brýnt erindi við samfélagið í gegnum samtal sem það hvetur til.

Eldgosið á Hverfisgötu tekur sér stað á vesturgafli fimm hæða steinsteypuhúss frá byggingarárinu 1941. Byggingin er heldur hrörleg á að líta vegna viðhaldsleysis og hefur niðurrif hennar verið heimilað frá 2013. Smíðin er samt góð í grunninn og ætti að geta orðið götuprýði framtíðarinnar sem aukinheldur býr að margvíslegri sögu og minni um borgararmenningu Reykjavíkur.

 

volcano 1.1.

Hámörkuð úrkynjun

Uppbygging ferðaþjónustu í kjölfar kreppunnar hefur óneitanlega orsakað talsverðar breytingar í borgarlandslagi Reykjavíkur. Ferðaþjónusta er eitt helsta flaggskip Samtaka Atvinnulífsins í aðgerðaráætlun um uppbyggingu atvinnulífsins, eftir hina margtoguðu kreppu í kjölfar hruns á hagkerfi árið 2008. Í miðbænum hefur þessi uppbygging tekið á sig heimsendalegan brag með massa niðurrifinna húsa sem víkja fyrir sterílskum hótelum og hagkvæmum smáíbúðum. Sem liður að þessu hefur Landsbankinn „verið áhugasamur um að fjármagna ný hótelverkefni fyrir reynda hótelrekendur“ og er það „mat bankans að stærstur hluti aukningarinnar verði á Miðbæjarreit“ eins og fram kom í erindi Davíðs Björnssonar, Hótelmarkaður í Reykjavík 2000-2020. Árangurinn endurspeglast í 800 nýjum hótelherbergjum á fyrrgreindu svæði árið 2015 og áform um frekari fjölgun á næstu árum.

Eldgosið á Hverfisgötu hefur sýnilega skipt um ham frá fyrri tíð og tekið á sig dekkri og drungalegri mynd. Formgerðin er enn sú sama en glimmerið hefur fokið burt og eftir stendur svart undirlag úr plasti. Upp úr plastinu standa litlir pinnar sem festu pallíetturnar niður á sínum tíma. Útkoman býr engu síður að upplifun en hin upprunalega birtingamynd en áhrifin eru önnur; meira goth en minna diskó.

Heimsendalegur bragur þess sem eftir stendur vekur spurningar um staðbundið umhverfi verksins. Á einhvern undarlegan hátt endurspeglar verkið tíðaranda sinn hverju sinni; úrkynjað óhóf uppsveiflunnar og dystópíska borgarmynd samtímans. Borgarmynd samfélags sem stundar uppbyggingu með niðurrifi.

Sjá nánar:

Amy Dempsey „Site Works“, Styles, Schools and Movements, bls. 263-266, 262.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur, „Húsaskrá yfir hús í Reykjavík“

„Borgarmál“, Kjarninn

Davíð Björnsson, Hótelmarkaður í Reykjavík 2000-2020

Samtök Atvinnulífsins, „2. Fjárfestingar“, Atvinna fyrir alla: Aðgerðaráætlum um uppbyggingu atvinnulífsins, febrúar 2010

The Mountain Series (2006-2008)

Theresa Himmer talks to Yatzer

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone